Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 31. október 2024

🎃 👻 Hrekkjavaka 🕷️ 🕸️ 🎃

 

Það er alltaf svolítið gaman að gera smá hrekkjavökuskraut, sérstaklega þegar maður fylgist með erlendum facebook hópum. Kreative Kiwi er með mjög virkan og skemmtilegan hóp á fésinu og þar fær maður hugmyndir. Þessi graskersstæða kemur í nokkrum stærðum, mín er 45 sm á lengd. Þetta er sama munstur og í færslunni hér aðeins neðar en þar sleppti ég andlitunum.

 

Blýantaskrautið er úr filti. Margar í hópnum saumuðu svona til að gefa börnum, sem von var á að bönkuðu upp á, í staðinn fyrir sælgæti. Ég gaf barnabörnunum mínum fjórum það sem ég gerði, fjögur á mann.


Svo stóðst ég ekki þessar sætu vofur. Þær eru bókamerki, en ég setti líka lykkju efst.


Önnur útgáfa af graskerjunum, stök í mörgum stærðum, alveg upp í diskamottustærð.


Svo bætti ég fjórum laufblöðum eftir að ég var búin að sýna fimm önnur neðar á síðunni. Læt þau fljóta hér með.


Að lokum skelli ég líka þessu hjarta með, sem ég saumaði fyrir tæpum tveimur árum en hef aldrei sett hér inn á bloggið. Þá var ég nýbúin að eignast MySewnet forritið og var að prófa allt mögulegt skemmtilegt, þar á meðal þetta. Það er sem sagt hægt að setja texta inn í margvísleg form, ég valdi hjartað. Svo raðast orðin á ýmsan hátt með ýmsum leturgerðum, og þegar maður er ánægður með það sem maður sér er vinnan fólgin í að teygja og toga stafina þannig að orðin fylli upp í flötinn. 
Að sjálfsögðu valdi ég nöfnin á litla uppáhaldsfólkinu mínu. 

laugardagur, 26. október 2024

Tvær Erlur


Seint í sumar prjónaði ég tvö pör af vettlingunum eftir uppskriftinni “Erla” í bókinni Íslenskir vettlingar.
Ég hugsa að pörin af Erlu sem ég hef gert séu að verða hátt á annan tuginn. Flest þeirra hef ég prjónað úr Flora frá Drops, en eitthvað úr sokkagarni frá Vatnsnesi. 
Í þessa notaði ég Flora og prjóna nr. 2.


 

fimmtudagur, 10. október 2024

🍂 Haust 🍁


Ég hef gaman af því að skreyta smávegis eftir árstíðum. Þetta haustföndur varð til í útsaumsvélinni. Haustlitirnir í efnunum skila sér ekki alveg í útibirtunni, eru í rauninni dýpri og hlýrri.
Lengjan er um 45 cm, en hún kemur í styttri og nokkrum lengri útgáfum í munstrinu.


Hún er gerð í fjórum skrefum þar sem þarf að tengja allt saman jafnóðum.


 Svo saumaði ég nokkur laufblöð í tveimur stærðum, koma stærri líka. Þessi eru fín sem glasamottur eða bara til að fleygja á borð til að skreyta.  Bæði munstrin eru frá Kreativ Kiwi.