föstudagur, 31. júlí 2009

Bútaútsaumur

Það gerist ekki mikið í bútasaum hjá mér þessa dagana, þótt ýmislegt sé í farvatninu. Ég sit þó stundum við saumavél, en það er þá mest til fataviðgerða og fatabreytinga, og svo þarf að stytta gardínur o.s.frv. En núna stunda ég þó nokkurs konar bútasaum eða bútaútsaum. Ég fékk þessa uppskrift frá Önnu Björgu í vor, og kolféll fyrir henni. Ég dreif meira segja í að litaflokka árórugarnið mitt, sem er samansafn af afgöngum til margra ára.

fimmtudagur, 30. júlí 2009

Einbandspeysur í lillabláu og brúnu

Tvær einbandspeysur komnar í viðbót. Á viku ferðalagi okkar hjónanna norður á Ströndum núna seinni hlutann í júlí var þetta handavinnan sem ég tók með mér. Sú lillabláa var reyndar langt komin, og kláraði ég hana og byrjaði á þeirri brúnu. Þegar maður kann munstrið er ágætt að grípa í þetta þegar tóm gefst.
Þetta eru svo litirnir sem verða á næstu tveimur. Það er ótrúlega gaman að prjóna úr svona fallegum litum. Ístex er búið að setja á markaðinn marga nýja liti í einbandinu.

miðvikudagur, 29. júlí 2009

Vandræði með Helgu

Nú er ég að prjóna mér peysu úr tvöföldum lopa. Mér finnst þessi blái litur svo fallegur. Uppskriftin er af heimasíðu Ístex, og heitir Helga. Hún er gefin út í tveimur stærðum, og prjóna ég þá stærri. Allt gekk upp þar til kom að því að tengja ermar við bol. Munstrið passaði ekki, hvernig sem ég reyndi. Það gekk sýnilega upp í minni stærðinni, og það er augljóslega stærðin sem prufupeysan hefur verið prjónuð eftir, en stærri peysan hefur ekki verið hugsuð til enda. Eftir að hafa prófað og velt þessu fyrir mér ákvað ég að teikna upp allt sem kom til greina, t.d. að snúa peysunni við og hafa rönguna fyrir réttu, fækka lykkjum í ermum, láta ermarnar í annars staðar en uppskriftin sagði o.s.frv. Lausnin reyndist sú að bæta við 5 lykkjum í viðbót í útaukningunni á ermunum, þannig að í staðinn fyrir að auka út um 10 lykkjur, hef ég þær 15, og þannig gat ég haldið áfram með peysuna.

miðvikudagur, 15. júlí 2009

Budda

Þessa buddu saumaði ég núna af brýnni þörf. Þegar ég fer í sund er ég með alla þessa bráðnauðsynlegu fylgihluti lausa í sundtöskunni, og þarf svo að tína þá upp og setja í öryggisskápinn, áður en ég fer í búningsklefann. Núna hef ég allt í buddunni, áður en ég fer af stað, og málið er dautt.
Mér til gleði gat ég notað litla þríhyrninga sem urðu afgangs þegar ég saumaði "Red sky at night", sem er fremst í blogginu mínu.
Nú þarf ég að drífa mig í sund og prófa þetta.

mánudagur, 13. júlí 2009

Prjónað úr afgöngum

Þetta dúkkudress prjónaði ég um daginn, þegar ég hafði ekkert annað á prjónunum. Mér finnst mest gaman þegar ég get gert eitthvað úr afgöngum, látið garnrestar og efnisbúta verða að einhverju. Ég á töluvert af garni, og hef verið dugleg að búa til ýmislegt úr því, t.d. teppi, og svo er mjög gaman að gera dúkkuföt eða barnaföt. Garnið í þessu dressi kemur úr dánarbúi frænku mágkonu minnar, sem lét ýmislegt þaðan ganga til mín. Það var í hespu, ekki dokku, og þurfti ég að vinda það upp. Svo var það velkt, og þegar ég var búin að prjóna, varð ég að þvo flíkurnar, því það voru blettir í þeim!

sunnudagur, 12. júlí 2009

Fleiri frjálsar

Þá er ég búin að prjóna tvær einbandspeysur í viðbót úr Einbandsbókinni frá Ístex. Mér finnst gaman að prjóna þessar peysur, og geri það af því að ég þarf hvort eð er að hafa eitthvað á prjónunum - ALLTAF. Þær verða seldar eins og hinar tvær.

mánudagur, 6. júlí 2009

Svunta

Í gær saumaði ég þessa svuntu. Efnið keypti ég í IKEA. Ég notaði overlock vélina til að ganga frá öllum brúnum, en stakk svo niður kantana í saumavélinni.

sunnudagur, 5. júlí 2009

Júlí

Mynd júlímánaðar tilbúin. Nú er ég loksins komin með hengi sem passar. Var alltaf að leita að réttri stærð. Ég gerði bönd á þessa mynd með frönskum rennilás. Ég þarf að setja þannig bönd á hinar sex, sem ég er búina að gera. Þær voru bara saumaðar á hengið sem ég notaði.

föstudagur, 3. júlí 2009

Sitt lítið af hverju

Nú er ég búin að vera á sex daga ferðalagi með manninum mínum, þar sem við gistum í flakkarabústöðum KÍ á þremur stöðum á landinu. Góða veðrið bókastaflega elti okkur, en það sem ég sýni hér á myndinni er "veiðin" mín! Ég komst í ÞRJÁR bútasaumsbúðir í þessari ferð, tvær á Selfossi og eina á Akureyri. Að sjálfsögðu "vantaði" mig ótrúlega margt sem ég sá, og ekki skemmdi fyrir að bóndi minn aðstoðaði mig við að tína ýmislegt til sem hann áleit að mig vanhagaði um.