mánudagur, 27. september 2010
þriðjudagur, 21. september 2010
sunnudagur, 12. september 2010
Prjónaskapur sumarsins
Hér er hluti af því sem ég prjónaði í sumar. Peysan hér að ofan er úr færeyska garninu Navia trio. Liturinn kemur alls ekki réttur út á myndinni, því hann er hárauður, en virðist bleikur hérna. Ég lendi oft í því að rautt virðist bleikt, og ég gæti lagað það í fotoshop, en nenni því ekki. Uppskriftin er líka úr færeysku Naviablöðunum.
Þetta er svo faðmur úr Einbandsbókinni. Það tók dálítinn tíma að prjóna þessa, sem er bara gott mál, því þá entist hún mér lengi. Ég er orðin í vandræðum með mig því ég verð að hafa eitthvað að prjóna þegar ég sest fyrir framan sjónavarpið, og oft er mér alveg sama þótt ég þurfi að rekja flík upp og gera hana aftur, því ég hef þá eitthvað að prjóna á meðan.
Svo gerði ég mér þessa slá úr einbandi í vor. Mér var sagt að "allir" kennarar í ákveðnum skóla hér í Hafnarfirði væru búnir að prjóna sér svona slá, og uppskriftin er svona: Fitjað er upp á 160 lykkjum með einbandi og prjónað garðaprjón fram og til baka á prjóna no. 6 þar til búið er að prjóna úr 2 dokkum. Þá er framhaldið prjónað í 2 hlutum, fyrst annar boðangurinn sem er 80 lykkjur. Hann er prjónaður þar til 1 dokka er búin, og hinn boðangurinn prjónaður á sama hátt. Svo þvoði ég stykkið og teygði vel úr því og þetta er bara hin klæðilegasta flík!
sunnudagur, 5. september 2010
Kjólablogg
Í sumar datt ég aðeins í kjólasaum. Þennan svarta og skræpótta var ég reyndar að klára í dag. Ég saumaði hann upp úr Emamikjólnum sem ég saumaði mér í fyrra, og bætti við munstraða efninu.
Ég var búin að nota þann kjól töluvert, en ákvað svo að nóg væri komið, og notaði efnið í annan kjól, enda ekkert mál að sníða upp úr honum því hann er bara beint, stórt stykki.
Hér er svo hálfsíður kjóll frá í sumar, saumaður eftir sama sniði og þessi fyrir ofan. Þennan nota ég með buxum.
Það átti að rykkja kjólinn í bakið og leggja eitthvert sérstakt teygjuefni undir til þess, en ég fékk það hvergi. Hins vegar sá ég leiðbeiningar á netinu um það hvernig hægt er að rykkja með því að setja teygjutvinna í spóluna á saumavélinni, og það tókst svona líka vel.
Þessi kjóll er svo eftir öðru sniði, og ég valdi þá útfærslu að hafa teygju í faldinum, og nota hann bæði með leggings og buxum.
Allir kjólarnir eru úr teygjuefni.
Bæði sniðin eru frá Onion