föstudagur, 27. júlí 2018

Lykkja

Mig langaði að prófa að nota Drops Air í peysu á mig, og prjónaði þessa í sumar.
Garnið er mjög létt og þægilegt. Ég var með prjóna nr. 6, en garnið er gefið upp fyrir nr. 5.

Uppskriftin heitir Lykkja og er í Prjónafjöri. 
Ég aðlagaði síddina reyndar að mínum smekk.

mánudagur, 16. júlí 2018

Bionic Gear Bag

Þá er ég búin að sauma þriðju Bionic Gear Bag töskuna.
Þessa ætla ég að eiga því ég átti enga sjálf.
Litavalið er kannski full skrautlegt fyrir mig, en ég átti nokkra búta af efnum frá Kaffe Fassett og Amy Butler, og langaði að láta þau verða að einhverju.
Ytra byrðið er hins vegar úr Virku.

laugardagur, 14. júlí 2018

Húfur


Þetta er húfan Glóð, sem ég prjónaði á rúmlega eins árs sonardóttur mína. 
Garnið heitir Lark og er úr Litlu prjónabúðinni.
Ég gerði líka svona húfur á eldri stelpurnar tvær og hafa þær verið mikið notaðar.

Könglahúfuna prjónaði ég á litla frænku sem varð sex ára í vor. 
Ég prjónaði hana úr Drops Lima, frá Gallery Spuna.
Í uppskriftinni stendur að nota eigi Nepal, en það er alltof gróft, hef reynt það en það gekk ekki. Hins vegar verða þær æðislega fínar og passlegar úr Lima.

sunnudagur, 8. júlí 2018

Skírnargjöf

Lítill vinur, sem tengist mér fjölskylduböndum, var skírður um hvítasunnudag.
Af því tilefni prjónaði ég þessar flíkur á hann.
Allar uppskriftirnar eru úr Klompelompe bókunum.
Garnið er Drops baby merino, og í lambhúshettuna notaði ég með því Drops merino extra fine.
Peysan og vestið eru á eins árs, en lambhúshettan á 6 mánaða.