sunnudagur, 24. janúar 2021

Stripa

Eftir teppið í síðustu færslu hélt ég áfram að kíkja í körfuna sem geymir afgangana mína og í einum pokanum voru nokkrir hnyklar af Drops Air. Vinkona mín keypti fyrir mig norska bók í Ósló og langaði mig aðallega í hana út af einum trefli, þessum hér, og heitir uppskriftin Stripa.  Hann er einlitur í bókinni og prjónaður úr Drops Air.

Ég ákvað að nota bara afgangana í þetta og liggur við að mér finnist það bara flottara. Bókin heitir Sjal og skjerf. Strikking hele året. Hún er eftir Britta Mikkelborg. Ég byrjaði reyndar á að prjóna sjal upp úr henni og á örugglega eftir að nota hana meira. En trefillinn er mjög góður og notaður næstum daglega núna.


 

miðvikudagur, 20. janúar 2021

Dómínóteppi úr afgöngum

Fyrir nokkrum mánuðum flokkaði ég alla garnafganga vel eftir tegundum og setti í glæra poka. Ég á mikið af ungbarnagarni, og ég tók alla minnstu hnyklana og hafði þá sér og fylltu þeir alveg gráan ikea renniláspoka, eins og maður notar í eldhúsinu. Á aðventunni vantaði mig eitthvað að prjóna og greip þessa afganga og byrjaði að prjóna ferninga með dómínóprjóni, þar sem ekkert þarf að sauma saman. Ég átti nú alveg eins von á að ekkert yrði úr þessu en svona varð útkoman. Þetta er ekki stórt, 70x88 sm, en ömmustelpurnar tóku það til handargagns þegar þær voru hjá mér í vikunni og önnur þeirra lagði sig undir því. Garnið kláraðist alveg, pokinn er tómur, en ég bætti aðeins við rauða litinn í kantinum til að klára.



 

þriðjudagur, 19. janúar 2021

Veski fyrir heyrnartól

Ég hef lengi ætlað að sauma svona veski fyrir símaheyrnartólin. Hver þekkir ekki að hafa heyrnartólin laus í töskunni eða hanskahólfinu í bílnum þar sem þau flækjast í það sem er þar fyrir. Þessi veski leysa málið. Saumaði núna eitt fyrir mig og annað fyrir eiginmanninn. Ég setti hring fyrir lyklakippu á þau en þess þarf ekki. Ég á haug af þessum tólum en setti þau sem ég nota mest í veskið. Læt hér fylgja tengil á myndband sem kennir aðferðina við saumaskapinn.


 

miðvikudagur, 13. janúar 2021

Náttkjólar og dúkkukjólar

Mig langaði að stinga náttfötum í jólapakka ömmubarnanna og þá kom í ljós að tvær af ömmustelpunum mínum, systurnar, vilja bara sofa í náttkjólum núorðið. Þess vegna var bara einfaldast að sauma þá sjálf og notaði ég sama snið og á leikskólakjólnum sem ég skrifaði um í síðustu færslu, Onion 20047. Efnið fékk ég í Föndru, lífræna bómull. Stærri kjólarnir eru í stærð 116 á fimm ára stelpurnar og sá minni í stærð 104 á þriggja ára dömuna. Þær sváfu allar þrjár í kjólunum sínum á jólanótt. Litli prinsinn fékk líka náttgalla en amma keypti hann.

Svo tilheyrði að sauma kjóla á dúkkubörnin í stíl. Sniðið af þeim er úr bókinni Sy og strikk dukkeklær eftir Anne Grethe Gaaserud.


 

föstudagur, 8. janúar 2021

Leikskólakjóll


 Í byrjun aðventu saumaði ég þennan kjól á eina ömmustelpuna sem átti “ekkert til að fara í” á leikskólann. Hún hafði nefnilega séð skólasystur sína í kjól sem minnti á jólin og langaði í eitthvað svipað. Pabbinn vildi leysa málið en vissi ekki hvar hann ætti að kaupa kjól og var að auki á kafi í prófum. 
Hann hringdi því í ömmuna sem reddaði málunum í hvelli, keypti efni í Litlu músinni og fékk það með pósti fljótt og vel og útkoman varð þessi kjóll. Ég vildi ekki hafa jólamótíf í munstrinu heldur nota rauðan og hvítan lit til að gera hann jólalegan. Barnaefnin frá Litlu músinni er alveg æðislega falleg og úr lífrænni bómull, meðhöndlaðri án eiturefna.
Sniðið er hið klassíska frá Onion nr. 20047, og stærðin er 116.