fimmtudagur, 18. febrúar 2021

Vesti


 Þetta vesti fékk lítill frændi minn sem fæddist í lok nóvember. Það var prjónað á ömmustrákinn minn fyrir jólin en reyndist of lítið og gerði ég annað á hann sem ég sýni hér aðeins neðar á síðunni. Stærðin er fyrir 12-18 mánaða, en nokkuð þétt prjónað hjá mér. Garnið er Drops baby merino og uppskriftin er frá Garnstudio.

fimmtudagur, 11. febrúar 2021

Husqvarna Viking Amber Air S 400

Í mörg ár var ég búin að horfa á Babylock overlockvélar á netinu sem gátu þrætt gríparana sjálfar með lofti og óskað þess að ég ætti svona vél. En þetta merki fæst ekki á Íslandi og þar með var málið úr sögunni. Þó Huskylock 936 vélin mín sé frábær, með mjög fallegt spor, saumaráðgjafa og stilli sjálf t.d. mismunaflutning og sporlengd eftir efnisgerð, þá var bara stundum rosalega erfitt og tímafrekt að þræða hana. Einstaka sinnum tókst það strax en oftar þurfti ég að gera nokkrar tilraunir. Þá miklar maður meira fyrir sér að þræða hana næst sem veldur því að hún er sjaldnar notuð og þá æfist maður minna í að þræða. Það kom oft fyrir að mér datt í hug að grípa hana, leit á tvinnann og sá að ég þyrfti að skipta og hætti við.

En...nú eru breyttir tímar, einkaleyfi Babylock á loftþræðingu er útrunnið og nú hafa aðrir framleiðendur sett þetta í sínar vélar. Fyrir um einu og hálfu ári sá ég að Husqvarna var komið með loftþrædda overlockvél. Ég trúði varla mínum eigin augum og vissi strax að ég myndi einhvern tíma kaupa mér hana. Ég beið samt aðeins og fylgdist með en fékk hana svo í lok september á síðasta ári í Pfaff.

Og hún er bara frábær!!  Ég byrjaði á að æfa mig í dúkkufatasaum, sem ég hefði aldrei gert á eldri vélinni minni. Gat meira að segja saumað stroffhring í hálsmál án vandkvæða. Ég bar saman vélarnar til að reyna að átta mig á af hverju þetta væri svona auðvelt á nýju vélinni og komst að því að hnífurinn sker heilum sentímeter nær nálunum en á gömlu vélinni og það munar öllu.

Núna er ég enga stund að græja vélina fyrir það sem ég vil sauma og skipti um tvinna eins og vindurinn. Hún er með nálaþræðara og fallegt spor sem ég þarf varla að stilla. Rúllufaldur þarf þrjár stillingar sem tekur fimm sekúndur að framkvæma. Og svo er hún bara svo falleg ❤️ Mér finnst það skipta máli.


https://youtube.com/playlist?list=PLvE6jwvXA4CFvqwi9kNxzxcBiCgTwE5Oy
 Hér er hægt að sjá mjög góð kennslumyndbönd fyrir vélina á Youtube.

sunnudagur, 7. febrúar 2021

Hárbönd


 Fyrir nokkrum vikum saumaði ég hárbönd á ömmustelpurnar þrjár. Þær eru allar með sítt hár og þurfa eitthvað til að halda hárinu frá andlitinu. Aðferðin við að gera þau er sýnd hjá @traadsnella á Instagram. Ég mjókkaði þau aðeins, skar þau 18 sm á breiddina og hafði þau ca. 3 cm styttri en ummál höfuðs, en þetta fer örugglega eitthvað eftir teygjanleika efnisins líka. Mitt efni teygist í meðallagi mikið. Fínt að nota í þetta afganga ef þeir eru til.