sunnudagur, 22. ágúst 2021

Íslenskir vettlingar - Erla og Rúna

Ég datt í vettlingaprjón snemma í sumar. Mér finnst alltaf frekar krefjandi að prjóna vettlinga, sérstaklega tvíbandavettlinga, og líka að láta þá passa á eigandann. 

En þegar ég var búin með eitt par af vettlingunum Erlu úr bókinni Íslenskir vettlingar, þá langaði mig strax að prjóna annað par og svo það þriðja. Og þeir passa mjög vel á mína hendi og annarrar sem fékk þá grænu. Það er líka prjónuð útaukning, eða kíll, fyrir þumalinn, og það finnast mér bestu vettlingarnir.

Þessir hvítu, sem heita Rúna, eru úr sömu bók, en ég er ekki eins hrifin af sniðinu á þeim. Það var reyndar mjög skemmtilegt að prjóna þá, munstrið lærðist strax, en þeir eru of langir. Úrtakan á belgnum er mjög aflíðandi og löng, og erfitt að stytta hana. Ég prófaði að byrja fyrr á henni en þá urðu þeir of fljótt þröngir. En ég get alveg notað þá, bara smámunasemi hjá mér.


 Ég notaði Drops Flora frá Gallery Spuna í öll pörin, og Addi trio prjóna nr. 2, og gerði alltaf báða vettlingana samhliða, vatt bara garnið í tvo hnykla áður. Verð að hrósa bókarhöfundi fyrir afskaplega vandaða útfærslu á uppskriftum.