miðvikudagur, 29. júní 2022

Sumarkjóll


 Nýverið kom sumarkjóll undan nálinni hjá mér, eða nálunum réttara sagt því ég renndi honum í gegnum overlock og coverlock vélarnar. Ég notaði gamla, góða Onion 2035 sniðið mitt sem ég er búin að aðlaga aðeins að mínum vexti. Þarf að síkka berustykki aðeins að framan og taka úr saumnum þar sem ég sauma saman bakstykki og berustykki. Passar vel þannig. Maður á aldrei of mikið af kjólum, er það? Ég á allavega efni í fleiri.

Efnið, sem er bómullarjersey, pantaði ég að utan.


laugardagur, 25. júní 2022

Önnur hekluð pottahlíf


 Í þarsíðustu færslu sýndi ég pottahlíf heklaða úr fjórum þráðum af frekar grófu bómullargarni.  Ég gerði aðra undir pelargóníuna sem stendur á borði fyrir framan húsið (og er ekki farin að blómstra). Nú var ég með aðeins fínna bómullargarn, fjóra þræði og heklunál nr.6 eins og áður. 

fimmtudagur, 23. júní 2022

Sumarvesti - Gurinevest

Ég er nýbúin að prjóna sumarvesti á ömmuskvísurnar mínar þrjár. Þær vildu allar þennann sama bleika lit, sem var bara fínt þangað til ég ætlaði að kaupa hann. Liturinn er nefnilega hættur í framleiðslu. Hvergi neitt til af honum nema örfáar dokkur með ólík lotunúmer á þeim stöðum sem ég tékkaði á, og þar var sko allt landið undir. En mér tókst þó að lokum að finna verslun á stórhöfuðborgarsvæðinu, sem gat bjargað mér.

Bakið á vestunum er mjög skemmtilegt i laginu, og ekki síður gaman að prjóna það. Þau pössuðu vel á allar stelpurnar, ég valdi stærðir á sex og átta ára, en þær eru fimm og sjö ára.

Uppskriftin er úr Klompelompes sommerbarn og heitir Gurinevest. Garnið er Drops cotton merino og prjónastærðin er 3 og 3,5.

 
 

miðvikudagur, 15. júní 2022

Hekluð pottahlíf

Í síðustu viku fann ég skemmtilega Youtube rás Gunnhildar Hannesdóttur, sem er handavinnukennari og frábær handavinnukona. Í einum þættinum sagði hún frá og sýndi heklaðar pottahlífar. Ég hafði einmitt verið að leita í bílskúrnum að hentugri pottahlíf fyrir pelargóníuna á pallinum en ekki fundið.

Auðvitað var þetta málið - hekluð pottahlíf! Ég gramsaði í afgöngunum, sem minnka stöðugt, því ég hef unnið mikið úr þeim undanfarið og gefið líka, en fann þetta eldgamla bómullargarn ofan í kistu og heklaði pottahlífina í dag. 


 Ég notaði fjóra þræði saman og heklunál nr. 6, en ég átti ekki stærri. Svo þrælaði ég þessu saman með fastahekli og útkoman varð þessi. Skemmtilegt verkefni.

mánudagur, 13. júní 2022

Dúkkupeysa

Ég átti garn, akkúrat passlegt í þessa peysu fyrir Baby Born, og skellti í hana handa yngstu ömmustelpunni sem varð fimm ára í síðasta mánuði. Ég setti hana í pakkann ásamt fleiri afmælisgjöfum.

Fyrir mörgum árum prjónaði ég sömu uppskrift úr bláu garni og er sú peysa neðar á síðunni undir flokknum Dúkkuföt. Uppskriftin er eftir Målfrid Gausal og er ókeypis á síðunni hennar

Ég notaði Drops baby merino garn og prjóna nr, 2.5. Svo stytti ég ermarnar á þessari, byrjaði á ermakúpuli strax eftir síðustu útaukningu, og er varla að það dugi. En mér finnst dúkkan voða krúttleg í þessu.

 

miðvikudagur, 1. júní 2022

Síðar peysur

Ég tók mig til um daginn og saumaði mér þrjár síðar peysur til að nota í sumar. Ekki það að ég eigi ekki nóg af prjónuðum peysum, mig langaði bara í þynnri og mýkri peysur.  Ég keypti snið sem ég hef lengi ætlað að eignast og saumaði prufupeysu úr efni sem ég keypti í töluverðu magni, hræódýrt, í Álnavörubúðinni í Hveragerði þegar hún var að hætta með efni. 

Sniðið smellpassaði, en það eina sem ég gat sett út á var að listinn að framan var heldur stuttur og kipraði peysuna aðeins kringum hálsmálið. Ég tók hann af, bætti 5 cm inni í hann og saumaði aftur á, og nú var hann miklu betri. Svo sleppti ég líka vösum sem fylgdu sniðinu, hef ekkert að gera við vasa á flíkum nema utanyfirflíkum eins og úlpum og kápum. Sniðið kemur í þremur síddum, og valdi ég þá síðustu.

Þótt þetta efni hafi verið ódýrt þegar ég keypti það, þá er það alveg þrusugott, og hef ég varla farið úr þessari gráu.

Næst var svo að gera aðra, verð að eiga bláa líka. Efnið í hana keypti ég í Litlu músinni og gerði mér ferð upp á Akranes til að kaupa það, á mjög erfitt með að kaupa efni án þess að koma við það fyrst. En efnin hjá henni eru mjög góð, og hef ég pantað tvisvar síðan og verið mjög ánægð. Þetta bláa er lífrænt bómullarjersey, mjög gott að vera í henni. Nota hana líka mikið.

Svo bætti ég við einni hvítri, passar vel að eiga eina slíka fyrir bjarta sumardaga. Efnið pantaði ég frá Litlu músinni og er það sams konar og bláa efnið.

Peysurnar voru saumaðar svo til eingöngu á overlockvélina, stakk bara axlarsauma og faldaði ermar í Epic vélinni.

Þetta spor úr Epic saumavélinni er mjög fínt til að falda jerseyefni og lokar kantinum að innan. Nennti ekki að taka fram coverlockvélina fyrir svona lítið.

Sniðið pantaði ég frá Ida Victoria í Noregi og tók það ekki nema viku að fá það í hús.  Huggulegt að fá svona fallegt kort með 🤍