Efnið, sem er French terry, keypti ég í Litlu músinni á Akranesi, en stroffefnið í Föndru. Sniðið pantaði ég frá hinni norsku Ida Victoria.
föstudagur, 29. júlí 2022
Hilda hoodie
mánudagur, 25. júlí 2022
Aðalvík með húfu
Prjónaði duggarapeysu á litla manninn minn, sem verður 3 ára eftir rúman mánuð. Hafði stærðina á 4 ára og passar hún vel á hann. Prjónuð ofanfrá, sem mér finnst langbest þegar ég prjóna á börn. Pilturinn valdi sjálfur litinn sem er heldur grænblárri en á myndunum.
Svona merki ég allt sem ég prjóna á barnabörnin, enda týnist ekkert.
Skellti líka í húfu, en hún fylgdi ekki uppskriftinni. Studdist við uppskriftina Nordigjønå-lue sem er í Klompelompe vinterbarn, en notaði einn munsturbekkinn úr peysuuppskriftinni.
Húfan er á 3-6 ára og prjónuð á prjóna 3 og 3,5, en peysan á prjóna 3,5 og 4. Garnið er Drops Merino Extra Fine (hvað annað?), keypt í Gallery Spuna í Hamraborg og uppskriftin, sem heitir Aðalvík, er frá Ömmu Loppu.
mánudagur, 11. júlí 2022
Dúkkuhúfur
Einhvern tíma í vor þegar ég hafði ekkert að prjóna greip ég poka með garnafgöngum og prjónaði húfur á allar dúkkurnar þrjár. Ég tók mynd af þeim þegar ömmustelpurnar voru búnar að stílísera þær aðeins og setja í föt sem pössuðu með litunum í húfunum, það tóku þær alveg upp hjá sjálfum sér.
Uppskriftin er úr litlu hefti sem heitir Dukkestrikk og er frá Klompelompe. Garnið er Sandnes merino og Drops merino extra fine.
sunnudagur, 10. júlí 2022
Karin hverdagscardigan
Fjórða peysan sem ég sauma eftir sniðinu sem ég keypti hjá Ida Victoria. Nota hinar svo mikið að mér þótti sjálfsagt að bæta við einni bleikri. Yngsta ömmustelpan sem er mjög bleik og hefur mikinn fataáhuga sá mig fara í hana í gær og sagði strax: flott peysa, amma, viltu vera í henni í afmælinu mínu (sem er reyndar nýbúið), já, en þá bara í Ylfu afmæli…. Tek sko alveg mark á þessari dömu, reyni oft að vera í bleiku þegar von er á að hitta hana.
Efnið er kallað vöfflujersey vegna vefnaðarins og er bómull með 5% teygju, en það teygist frekar mikið. Ég lét því saumaráðgjafann í Husqvarnavélinni velja rétta sporið til að falda með teygjuefni og hann valdi þetta spor. Efnið pantaði ég að utan.