þriðjudagur, 30. ágúst 2022

Pennaveski


Ég er mikið fyrir að skrifa hjá mér alls konar hluti í ýmsar bækur, hef t.d. haldið dagbók núna í rúm 13 ár þar sem ég skrifa niður það helsta sem hefur borið við þann daginn. Svo á ég skissubækur, skipulagsbækur o.fl. 

En stundum þarf að leita að penna eða blýanti til að skrifa með, pínu vesen alltaf.


Ég rakst á þessi frábæru pennaveski á Instagram um daginn og fann svo uppskrift á Pinterest.


Teygjunni er smeygt yfir bókarkápuna, skriffærum skutlað í veskið og svo fylgja þau bara bókinni. Snilld!!



Þetta var svo skemmtilegt verkefni að ég gat ekki hætt. Þetta hefði ég viljað hafa þegar ég var í kennslu, mjög kennaravænt.

þriðjudagur, 23. ágúst 2022

Teppi heklað úr afgöngum


Eitt af því óhjákvæmilega sem fylgir prjónaskap er að afgangar safnast fyrir. Ég kaupi reyndar aldrei garn “til að eiga.” Kaupi bara í ákveðin verkefni og skila heilum dokkum ef ég hef keypt of mikið. Eina undantekningin er ef um handlitað garn er að ræða. Ég kaupi það einstaka sinnum ef mér finnst það fallegt og veit að ég get notað það. Þessar hespur eru þó teljandi á fingrum annarrar handar (næstum).


Eins og einhverjir vita kaupi ég mikið af Drops merino extra fine í barnaföt þar sem gert er ráð fyrir grófleika fyrir prjóna nr. 4. Finnst það garn bara á allan hátt svo skemmtilegt. Og eftir að ég var búin að prjóna vettlingapör í alls konar litasamsetningum á barnabörnin var samt alltaf að bætast í afgangapokann og orðið erfiðara að loka skúffunni. Í sumar horfði ég á vídeó hjá Gunnlaugu Hannesdóttur á youtube, sem hannar undir nafninu gunnhann, alveg frábær vídeó fyrir handavinnufólk, þar sem hún hafði heklað afgangateppi með stuðlahekli. Ég hermdi eftir teppinu hennar, en málið var að það voru litaskipti í hverri umferð sem hefur í för með sér gífurlega frágangsvinnu.


En hún leysti það með tvöföldum kanti, sem er lokað í restina, og þar með lokast endarnir inni. Að sjálfsögðu þarf að tryggja þá með því að binda saman tvo og tvo, en að öðru leyti þarf ekkert að gera. Að sjálfsögðu er líka tímafrekt að hekla tvöfaldan kant, en skemmtilegra en endafrágangur og fallegra. Gunnlaug var svo vinsamleg að láta mig fá slóðina að myndbandi þar sem þetta er kennt.

Garnið er sem sagt Drops merino extra fine að mestu leyti, ég hreinsaði líka upp smávegis af svipuðum grófleika af öðru garni og heklaði á heklunál nr. 4. Í kantinn notaði ég hins vegar alls konar baby garn og var þá með heklunál nr. 3.  Teppið vegur 884 grömm sem samsvarar tæpum átján 50 gramma dokkum. Ég náði að hafa það ferning, ca.1,20 x 1,20.

P.s. Það er strax farið að safnast fyrir aftur af Drops merino extra fine afgöngum.

þriðjudagur, 16. ágúst 2022

Aðalvík nr. 2

Fyrr í sumar prjónaði ég peysuna Aðalvík á yngsta barnabarnið og er færsla um það neðar á síðunni.

Þessa gerði ég svo á systur hans sem er nýorðin 7 ára. Hún valdi litinn sjálf, vínrauðan, og er hann töluvert dekkri en myndirnar sýna, kom svona skær út í dagsbirtunni. Er mjög fínn á henni.

Ég prjónaði stærð á 6-8 ára, hún er fallega síð á henni og passar vel. 

Garnið er Drops merino extra fine, keypt i Gallery Spuna í Hamraborg. Prjónastærðin er 3,5 og 4, og uppskriftin að sjálfsögðu frá Ömmu Loppu.