Hvað gerir kona þegar alls kyns jerseyafgangar safnast upp og munstrin passa ekki alltaf í dúkkuföt?
Jú, hún prófar að sauma nærbuxur. Ég hef aldrei haft nokkra trú á heimasaumuðum nærbuxum, þær gætu ekki verið þægilegur klæðnaður. En annað hefur komið í ljós. Þetta eru hinar ágætustu buxur, mjög gott að vera í þeim, og ekki síst bæði fljótlegt og gaman að sauma þær. Ég kantaði þessar með bómullarbandi, en á í pöntun teygjukantbönd líka sem ég hlakka til að prófa.
Sniðið keypti ég hjá Ida Victoria í Noregi. Ég hef mjög góða reynslu af sniðunum hennar, þau passa mér alla vega vel. Svo er hún með Youtube rás þar sem hún fer í gegnum það hvernig hún saumar margar af flíkunum sínum. Hún selur líka efni og fleira. Mæli með. Hún er einnig með annan sníðapakka af nærbuxum handa konum, en ég valdi þennan. Svo er hún líka með snið fyrir börn.