föstudagur, 29. mars 2024

Rennilásabuddur

Þessar buddur saumaði ég fyrir forvitnis sakir því mér finnst aðferðin svo skemmtileg. Ég hef rekist á þær nokkrum sinnum á netinu en ákvað að prófa að sauma þær þegar ég sá góðar myndir af aðferðinni í fb hóp Íslenska bútasaumsfélagsins.

Ég valdi að sauma í heilt efni, en það má líka nota efni sem búið er að setja saman úr bútum. Setti vatt og bak líka, og stakk það með tvíburanál, en það hef ég ekki gert áður svo ég muni. Stærðin á stykkinu hjá mér var 30x40 sm, en það fann ég bara út sjálf, hægt að ráða stærðinni sjálfur. Svo er skorið skáhallt frá vinstra, efra horni en skurðurinn látinn enda sem svarar ca. 1/3 af lengd hliðarinnar fyrir ofan neðra hægra horn (alla vega gerði ég það). Úr þessu stykki fást sem sagt tvær buddur, önnur stærri en hin.

Þá eru skurðarbrúnirnar á báðum stykkjum kantaðar með 2,5” strimli eins og maður væri að kanta bútasaumsteppi, saumað við á röngunni og stungið niður á réttunni. Því næst notaði ég aðra hliðina á rennilásalengju sem seld er í metratali og saumaði á skákantinn.

Loks setti ég sleða á lásinn og saumaði buddurnar saman á röngunni. Í þá stærri festi ég skáband með saumunum til að hylja saumförin, en sikksakkaði bara saumförin á þeirri minni því skáböndin taka pláss.

                                 Stærri buddan varð 19x19 sm og sú minni 12x14 að stærð.

 

mánudagur, 25. mars 2024

Hákarlapennaveski


Einhvern tíma á vafri mínu um netheima rakst ég á myndband þar sem kennt var að sauma svona pennaveski í gervi hákarla. Ég varð strax voða skotin í þeim og byrjaði á að sauma einn til prufu, sem heppnaðist ágætlega, þannig að ég skellti mér í að sauma handa ömmubörnunum fjórum. Ég hafði ytra byrðið eins á þeim öllum en mismunandi liti á efnunum innan í. 


Uppskriftin gerir ráð fyrir rennilásum sem seldir eru í metratali og klipptir í rétta lengd og sleði settur á. Sá sem ég notaði er með mislitar tennur, kemur mjög flott út.


Ég fyllti hákarlana með trélitum, 24 stykki í hvern, og var nóg pláss eftir til að bæta öðru í. Hér eru þeir komnir í notkun hjá krökkunum, sem voru mjög ánægðir með þá. Merkti líka trélitina með ákveðnum lit fyrir hvert barn (sem reyndur yngri barna kennari) þannig að allir þekkja sitt.


Hér er prufustykkið sem ég byrjaði á. Það besta við þessa uppskrift er að það fylgir vídeó um hvernig á að sauma hann og sniðið er ókeypis. Allt um það HÉR. Það var samt dálítið erfitt að láta munnvikin koma vel út þar sem tennurnar mætast í efri og neðri skolti, þó það tækist þokkalega hjá mér. En áður en ég hélt áfram með hina fjóra þá rakst ég á annað myndband þar sem búið er að endurhanna munnvikin og notaði ég þá aðferð, sem heppnaðist mjög vel. HÉR er hún sýnd.