miðvikudagur, 19. júní 2024

Sumarpúði

Þegar ég keypti Husqvarna útsaumsvélina mína fylgdu með henni tveir efnisbútar og undirlag til að setja í útsaumsramma og sauma. Mig langaði alltaf að nota þá í eitthvað fallegt.

Svo var það þessi mynd….mér fannst hún alveg sérlega falleg, og þegar ég fór að tína til tvinna í hana til að vita hvort ég ætti eitthvað af litunum og hvað ég þyrfti þá að kaupa í viðbót, þá kom í ljós að ég átti hér um bil öll réttu litanúmerin í hana og þurfti engu að bæta við.


 Annar búturinn varð þá að þessum sumarlega púða sem prýðir nú sófa á heimilinu. Hann átti fyrst að fara á hjónarúmið en passaði svo vel þar sem ég fleygði honum niður til að taka mynd að hann hefur legið þar síðan.  Ég notaði stærsta rammann sem fylgdi vélinni, 36x20 rammann. Munstrið er í vélinni minni.

fimmtudagur, 13. júní 2024

Fjórða Bugðan

Þetta sjal á ég eftir að sýna hér. Ég prjónaði það einhvern tíma á útmánuðum og tók mynd fyrir nokkru.

Uppskriftin er enn og aftur Bugða, fjórða sjalið eftir þeirri uppskrift. Það er eitthvað svo skemmtilegt við það að skoða garnið sitt og finna liti sem passa vel saman.

Skemmtilegast er svo að finna lit í síðustu umferðina, sem er ekki búið að nota í sjalinu en passar vel við.

Uppskriftin er úr Garnbúð Eddu og garnið héðan og þaðan…