miðvikudagur, 28. apríl 2010

Smámynd

Ég tók fram kassa með alls konar smáafgöngum, sem ég hef ekki tímt að henda, og sneið úr þeim litla ferninga, ljósa og dökka. Þeir eru sniðnir 1 x 1 tomma að stærð, og þegar þeir eru komnir 4 saman í myndina eru þeir 1 x1 tomma saumaðir.
Hér er geisladiskur til samanburðar á stærðinni.

Ég las í bloggi sem heitir The sentimental quilter, að sú sem skrifar það sníður alla litla afganga niður í svona stærðir, saumar saman fjóra búta, og setur í öskju. Svo saumar hún svona lítil teppi þegar hún er í stuði til þess. Sniðugt?!



þriðjudagur, 20. apríl 2010

Kjóll

Þennan kjól saumaði ég um helgina. Hann er úr jerseyefni. Sniðið er í Ingeliseblaði frá því í janúar 2010. Ég saumaði hann í og með til að æfa mig á overlockvélinni, sem ég keypti í maí í fyrra. Ég hef saumað þrjá kjóla og ýmislegt smálegt á hana, en er enn að læra. Ég fer á námskeið, sem fylgir vélinni, eftir viku. Eins og sést á myndinni saumar hún þekjusaum, þ.e. tvöfalt og þrefalt spor til að falda með, og til að sauma hann þarf ýmsar tilfæringar áður, sem ég var að æfa mig í. En það er sagt að því meira sem maður saumi, því meira saumi maður (!)
Hér er myndin úr blaðinu. Ég ákvað að sýna mynd af "professional" fyrirsætu í kjólnum í stað þess að sitja fyrir sjálf.

föstudagur, 16. apríl 2010

Húfur og ermar

Ég datt í húfuprjón um páskana. Kvenfélagasamband Íslands ætlar, í tilefni af 80 ára afmæli sínu, að færa öllum börnum, sem fæðast á afmælisárinu, húfu að gjöf. Reiknað er með að um 5000 börn fæðist á árinu.
Mig langaði til að taka þátt í þessu, en uppskriftina er að finna á vef Kvenfélagasambandsins. Notað er kambgarn, en ég á töluvert af því, samt ekki í góðum litum fyrir ungbörn. Ég átti þó allt bláa garnið og það ljósbleika, en ég keypti hvítt og bleikt. Það fást 2 húfur úr dokkunni.

Þessar ermar prjónaði ég fyrr í vetur, en þurfti að rekja upp og laga, og nú eru þær fínar. Þær eru úr bókinni Garn og gaman, og þar eru þær prjónaðar úr léttlopa, en ég notaði Perfect frá Sandnes.



 

mánudagur, 5. apríl 2010

Dúkur með pinwheel munstri og viðurkenning

Ég hef lengi ætlað að sauma svona dúk. Ég sá hann í sjónvarpinu fyrir fimm árum í þættinum Innlit/útlit. Þá var farið í heimsókn á gullfallegt heimili, þar sem húsfreyjan er dugleg í bútasaumi. Ég teiknaði munstrið í EQ6 forritinu og dreif mig í þetta.
Ég valdi frekar bjarta liti og mest eru þetta efni frá Thimbleberries, enda hafa þau verið í uppáhaldi hjá mér og það breytist lítið.

Mér fannst hann passa vel á borðstofuborðinu um páskana, vorlegur og léttur.

Bakið og kantana hafði ég úr þessu svakalega rósótta efni, en af því að það er líka frá Thimbleberries þá pössuðu litirnir ágætlega saman.



Þessi viðurkenning barst mér fyrir viku frá Anelie, en hún er finnskur bloggari og handverkskona. Takk, Anelie!! Hún er mjög fjölhæf og gerir fína hluti. Þessi viðurkenning kemur frá Brasilíu og þýðir "blogg með sjarma". Reglan er sú að maður á að senda þetta áfram til 12 annarra bloggara, tengja þá við manns eigið blogg og tengja sig við blogg þess sem sendir þetta, og svo á að senda þessum 12 skilaboð um að þeirra bíði viðurkenning. Eins og margir gera, þá ætla ég ekki að velja ákveðnar 12 manneskjur, heldur langar mig að bjóða sérstaklega íslenskum handavinnukonum, sem blogga um handavinnuna sína, að taka til sín þessa viðurkenningu frá mér. Sem sagt, ef þú bloggar á Íslandi um handavinnuna þína, þá áttu þetta! Mig langar að sjá fleiri handavinnublogg á íslensku, því nóg er af konum hér sem eru að gera flotta hluti.