mánudagur, 31. maí 2021

Barnavettlingar


 Mér hættir til að gleyma að setja barnavettlinga hér á bloggið, sennilega af því að þetta er svo hversdagslegt og lítið verkefni. Ég á myndir af sokkum og vettlingum á barnabörnin sem aldrei hafa ratað hér inn, og þessum var ég næstum búin að gleyma. 

Við vorum að úti með ömmu- og afastrákinn og systur hans snemma í vor og þá sá ég að vettlingar sem ég hafði prjónað á hann eftir íslenskri uppskrift keyptri á netinu pössuðu engan veginn á hann, of víðir og hann tolldi ekki í þumlinum. Ég átti svo sem að geta sagt mér þetta sjálf þegar ég prjónaði þá. Ég greip því prjónana og notaði uppskrift frá Drops sem ég hafði áður aðlagað að yngstu ömmu- og afastelpunni og skrifað hjá mér allar breytingar. Passaði bara að hafa þá nógu litla og þennan þumal sem kemur út á hlið. Þannig þumlar eru bestir. Ég hef líka notað mjög góða uppskrift úr bókinni Leikskólaföt. Og viti menn, þessir vettlingar smellpössuðu á litla manninn. Þeir eru prjónaðir úr Drops Karisma.

Mér finnst yfirleitt erfiðast af öllu að prjóna vettlinga, ekki af því að prjónaskapurinn sé svo erfiður, heldur verða þeir að passa vel þeim sem á að nota þá, hvorki of víðir né þröngir, og mátulega langir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli