föstudagur, 31. desember 2021

Jólaveggteppi


 Eins og nærri má geta eru mörg bútasaumsteppi hangandi á veggjum heimilisins. Mörgum þeirra skipti ég út um jólin, og sums staðar oftar á ári eins og í þvottahúsinu. Þar er ég með lítinn vegg þar sem ég skipti út eftir árstíðum líka. Átti samt ekkert jólalegt á vegginn og byrjaði á þessu litla teppi fyrir jólin í fyrra en náði ekki að klára, svo ég lauk því núna fyrir jólin. 

þriðjudagur, 28. desember 2021

Aðventusjal/Adventssjal

Þetta sjal heitir á norsku Adventssjal og ég prjónaði það á aðventunni. Ég átti jólalit frá henni Kristínu í Vatnsnesi frá í fyrra sem heitir Bjart yfir jólum og langaði mig alltaf að gera eitthvað úr því þegar nær drægi hátíðinni. Svo átti ég í fórum mínum litinn Furugerði sem ég pantaði mér einhvern tíma frá henni, og fundust mér þessir tveir litir fínir saman, enda pínu grænar flikrur í jólagarninu.

Svo fann ég þessa ágætu uppskrift í bók, sem ég á og heitir Sjal og skjerf eftir Bitta Mikkelborg. Ég var að leita að sjali með tveimur litum og passaði það vel garninu mínu. 


 Það kom sér vel að eiga nóg af þessum uppáhalds prjónamerkjum til að aðskilja munsturkaflana í græna hlutanum. Hefði ekki viljað vera án þeirra.

Furugerði er BFL Nylon Sock og Bjart yfir jólum Merino Fingering.

þriðjudagur, 7. desember 2021

Jólaprjónataska

Það er ótrúlegt, en satt, að ég hef ekki átt neina jólaprjónatösku. Samt er jólaprjónið fastur liður í tilverunni.

Til að bjarga þessu saumaði ég þessa jólalegu tösku, og notaði til þess tvö munstur sem eru í nýju Husqvarna Sapphire 85 útsaumsvélinni minni. Efnin eru öll gömul úr lagernum mínum.

Hér sést fóðrið, sem ég stakk með vatti. Í töskunni núna er sjal, sem ég er að prjóna, og heitir uppskriftin einmitt Adventsjal, eða Aðventusjal, og er ljósari liturinn meira að segja jólaliturinn frá Kristínu í Vatnsnesi frá í fyrra! Greinilegt jólaþema í gangi hjá mér, en varð bara svona óvart.

Hér er dásamlega útsaumsvélin mín að vinna fyrir mig. Sit yfirleitt yfir henni og fylgist með, því mér finnst það svo skemmtilegt.