föstudagur, 31. desember 2021

Jólaveggteppi


 Eins og nærri má geta eru mörg bútasaumsteppi hangandi á veggjum heimilisins. Mörgum þeirra skipti ég út um jólin, og sums staðar oftar á ári eins og í þvottahúsinu. Þar er ég með lítinn vegg þar sem ég skipti út eftir árstíðum líka. Átti samt ekkert jólalegt á vegginn og byrjaði á þessu litla teppi fyrir jólin í fyrra en náði ekki að klára, svo ég lauk því núna fyrir jólin. 

þriðjudagur, 28. desember 2021

Aðventusjal/Adventssjal

Þetta sjal heitir á norsku Adventssjal og ég prjónaði það á aðventunni. Ég átti jólalit frá henni Kristínu í Vatnsnesi frá í fyrra sem heitir Bjart yfir jólum og langaði mig alltaf að gera eitthvað úr því þegar nær drægi hátíðinni. Svo átti ég í fórum mínum litinn Furugerði sem ég pantaði mér einhvern tíma frá henni, og fundust mér þessir tveir litir fínir saman, enda pínu grænar flikrur í jólagarninu.

Svo fann ég þessa ágætu uppskrift í bók, sem ég á og heitir Sjal og skjerf eftir Bitta Mikkelborg. Ég var að leita að sjali með tveimur litum og passaði það vel garninu mínu. 


 Það kom sér vel að eiga nóg af þessum uppáhalds prjónamerkjum til að aðskilja munsturkaflana í græna hlutanum. Hefði ekki viljað vera án þeirra.

Furugerði er BFL Nylon Sock og Bjart yfir jólum Merino Fingering.

þriðjudagur, 7. desember 2021

Jólaprjónataska

Það er ótrúlegt, en satt, að ég hef ekki átt neina jólaprjónatösku. Samt er jólaprjónið fastur liður í tilverunni.

Til að bjarga þessu saumaði ég þessa jólalegu tösku, og notaði til þess tvö munstur sem eru í nýju Husqvarna Sapphire 85 útsaumsvélinni minni. Efnin eru öll gömul úr lagernum mínum.

Hér sést fóðrið, sem ég stakk með vatti. Í töskunni núna er sjal, sem ég er að prjóna, og heitir uppskriftin einmitt Adventsjal, eða Aðventusjal, og er ljósari liturinn meira að segja jólaliturinn frá Kristínu í Vatnsnesi frá í fyrra! Greinilegt jólaþema í gangi hjá mér, en varð bara svona óvart.

Hér er dásamlega útsaumsvélin mín að vinna fyrir mig. Sit yfirleitt yfir henni og fylgist með, því mér finnst það svo skemmtilegt.

 

mánudagur, 29. nóvember 2021

Gamall jólakrans

Þennan fléttaða jólakrans gerði ég fyrir mörgum árum, það eru áreiðanlega meira en þrjátíu ár síðan. Hann var hengdur upp á hurð um hver jól, en svo fannst mér hann orðinn eitthvað svo druslulegur, slaufan ljót og kransinn sjálfur orðinn eitthvað svo langleitur og siginn. Þess vegna eru nokkur ár síðan hann hefur verið tekinn fram.

En kransinn er uppáhalds hjá mér, svo ég ákvað að flikka aðeins upp á hann. Ég keypti passlega stóran hring, 25 sm í þvermál (fékk hann í Vaski á Egilsstöðum í sumar, en það er önnur saga). Svo festi ég hringinn á kransinn með nál og tvinna á nokkrum stöðum, svo nú er hann í fínu formi.

Þá var að laga slaufuna. Ég átti þetta efni og valdi að nota það því ég átti óspunninn tvinna í sama lit sem mig langaði að falda slaufuna með. Svo er auðvelt að skipta um slaufu ef mig langar að breyta til.

Slaufuna faldaði ég í minni frábæru Husqvarna Amber air overlockvél. Eins og ég hef sagt frá áður, þá er hægt að kaupa tvenns konar aukafótapakka fyrir vélina.  Í pakkanum fyrir skrautsauma (Embellishmennt feet kit) er snúrufótur, sem maður notar til að sauma snúrur inn í rúllufald til að fá alls konar áferð á faldinn. Snúran er þrædd í lítið op á fætinum og stýrir fóturinn svo öllu saman á meðan saumað er. Ég setti vír í kantinn á slaufunni til að geta formað hana. Maður verður samt að vanda sig vel með vírinn og passa uppá að hann fari rétt í og undir fótinn og flækist alls ekki í hnífnum. En……nú get ég búið til mínar eigin slaufur úr efnum sem ég vel sjálf og haft vír í kantinum! Frábært! Vírinn keypti ég í Bauhaus í jólaskrautsdeildinni, hann má ekki vera of stífur. Svo stillti ég vélina á rúllufald og setti óspunninn þráð í yfirgríparann og voilà.

                                         

  Svona leit ræfillinn út áður en ég lagaði hann til. 

 

þriðjudagur, 23. nóvember 2021

Husqvarna Designer Sapphire 85

Fyrir 12 árum var ég stödd í Pfaff að læra á saumavél sem ég var nýbúin að kaupa, og vorum við Silla, Sigurlaug heitin Gröndal, sem var að kenna á vélarnar, að ræða um saumavélar og ýmislegt tengt þeim. Þá segir hún við mig: “Svo þegar þú verður eldri þá færðu þér útsaumsvél.”  Ég hélt nú ekki, það væri sko ekkert fyrir mig. “Jú, þið gerið það allar þegar þið eldist.”  Ég er vissulega að eldast, eins og allir, og er greinilega komin á útsaumsvélaaldurinn.  Þetta byrjaði reyndar fyrir þremur árum þegar ég keypti Pfaff creative 1.5 vélina mína, sem ég hef haft ótrúlega gaman af að sauma út með. Hún er mjög fín, en mig langaði í vél með meiri möguleika og sem tæki stærri ramma. 

En Pfaff vélin mín kveikti áhugann á útsaum hjá mér, og nýjustu vélarnar eru orðnar svo flottar að maður fellur í stafi yfir þeim. Þetta eru orðnar tölvur sem stjórnað er af skjánum, og margt sem áður var einungis gert í forriti á tölvu gerir maður nú á skjánum í vélinni sjálfri. Ég get sent vélinni útsaumsmunstur úr tölvunni gegnum wi-fi og saumað út. Vélin getur líka sjálf tekið við munstrum af netinu. Í haust keypti ég mér Husqvarna Designer Sapphire 85 í Pfaff. Hún er ótrúlega skemmtileg, og ég hef saumað eitthvað á hana næstum daglega síðan ég fékk hana. Hún hefur endalausa möguleika, og með henni fylgja 629 útsaumsmynstur, og auk þess er hægt að sauma öll 680 skrautsporin úr saumahlutanum í henni í rammanum, letur og meira að segja hnappagöt. Svo er hægt að hafa aðgang að 6-7000 munstrum í gegnum áskrift á MySewnet o.s.frv. Og það sem er svo frábært er að ég get gert svo til alveg það sama í þessari vél og hægt er að gera í Epic2 og Ruby 90 vélunum hvað varðar útsaumshlutann, en það eru dýrustu vélarnar, en hún tekur samt ekki breiðasta rammann. Þær eru hins vegar stærri og meiri vélar hvað varðar vélarnar sjálfar. En ég á Epic 980 Q vélina mína til að sauma á, þessa ætla ég bara að nota fyrir útsaum. 

Í gegnum árin hefur það oftar en ekki farist fyrir hjá mér að merkja bútasaumsteppin mín, þó ekki alltaf.  Ég tók mig því til og byrjaði að merkja þau sem eru ómerkt og gerði merkin í útsaumsvélinni. Það hefur verið fín æfing fyrir mig og hef ég lært ýmislegt á því. Merkin fyrir ofan með blóma-og hjartamunstrinu eru t.d. gerð þannig að ég valdi ákveðið form úr vélinni, hring í þessum tilfellum (líka hægt að velja ferning, stjörnur, hjörtu, blóm…) og lét vélina raða munstrum á útlínur formsins, blómum og hjörtum. Á merkinu með einfalda stjörnusporinu setti ég á sama hátt spor úr saumahluta vélarinnar á línu sem er í laginu eins og alda.

Á tveimur efri merkjunum, sem eru eins, valdi ég munstur og sneri öðru þeirra til að ramma inn stafina.
Skæramunstrið keypti ég á netinu fyrir löngu, en það er eina munstrið sem ég hef keypt þannig, gerði það bara til að prófa.

 Tvö efri merkin eru í munstursafninu í vélinni en ég bætti bara stöfunum innan í. Tvö neðri eru gerð með sama hætti og þau að ofan, valdi form og lét vélina raða munstrum á þau.

Og eins hérna, setti stafi innan í tómt hjarta, sexhyrningurinn er form sem ég raðaði einföldu spori úr saumahlutanum á. - Og ég er enn að merkja, nóg eftir.


Til að geta bætt þessari vél við þurfti að endurhugsa saumaaðstöðuna. Útsaumsvélin, sem getur tekið ramma sem er 35 cm að lengd, þarf töluvert pláss. Því kom til kasta eiginmannsins, sem alltaf er tilbúinn með hamar, bor og sög, og setti hann upp nýtt borð fyrir vélina, 72 cm djúpt, og skápa fyrir ofan. Þarna var kommóða, full af handavinnudóti og efnum, og er hún núna í innigeymslunni, við hliðina á saumaherberginu (ég er smám saman að leggja undir mig húsið). Núna er rúmt um allar vélarnar sem ég hef uppi við, en coverlock vélina geymi ég uppi á skjalaskápnum, nota hana svo sjaldan. Og litla teppið, sem ég sýndi í síðustu færslu, er svo á veggnum bak við vélina, og er að hluta til saumað í henni. 
Ég hlakka bara til að læra meira og prófa mig áfram með allt sem hægt er að gera í vélinni, þetta verður gaman 🙂
 

mánudagur, 15. nóvember 2021

Veggteppi


Um daginn losnaði lítill veggur vegna breytinga sem urðu á saumaherberginu. Ég sá þarna tækifæri til að sauma nýtt teppi og gerði það. Myndin var reyndar tekin úti á palli en ekki í herberginu því það átti eftir að setja nagla fyrir teppið. Ég teiknaði það í EQ8 bútasaumsforritinu mínu, sem ég nota í flest bútasaumsverkefni. Ferningarnir kringum miðjuna eru ekki alveg ferningar, það munaði aðeins á hliðunum, þannig að ég saumaði þá með pappírssaum. 


Miðjan er applíkeruð í nýrri útsaumsvél sem ég eignaðist í haust og ætla að segja betur frá fljótlega. Mótívið er eitt af mörghundruð sem fylgdu með henni.


Merkimiðinn er líka saumaður í nýju vélinni. Ekki oft sem ég man eftir að merkja strax, en nú mundi ég það.
 

fimmtudagur, 11. nóvember 2021

Erla - Íslenskir vettlingar

Vettlingarnir Erla úr Íslenskum vettlingum hafa verið sjónvarpsprjónið mitt undanfarnar vikur. Mér finnst ennþá gaman að prjóna þá og kann uppskriftina nokkurn vegin utanað núna. Allir eru þeir prjónaðir úr Flóru frá Drops á prjóna no. 2, og nota ég alltaf Addi trio prjónana mína.


 

miðvikudagur, 13. október 2021

Sporabók

Ég gerði það mér til skemmtunar nú í haust að sauma öll sporin sem er að finna í Pfaff creative 1.5 útsaumsvélinni minni. Þau eru 150 talsins fyrir utan leturgerðirnar. Ég nota þessa vél nær eingöngu fyrir útsaum, hef sáralítið saumað á hana að öðru leyti, enda hef ég aðra vél til þess. En þetta var gaman, og alltaf gott að fara í gegnum það sem hægt er að gera í vélinni eins og hnappagöt og að festa tölu í vél.


 

miðvikudagur, 6. október 2021

Verkefnataska

Ég hef endalausa þörf fyrir verkefnatöskur af öllum stærðum og gerðum. Þessi varð til fyrir stuttu, og var mig lengi búið að langa til að nota þetta munstur í Pfaff 1.5 útsaumsvélinni minni góðu.

Ég notaði hör frá Ikea og bútasaumsefni í sjálfa töskuna og gamlan rennilás, sem ég átti.

Ég hafði hana svo til eins báðum megin, gerði örlitlar litabreytingar á seinni hliðinni. 

Svo setti ég vatt undir fóðrið og stakk í saumavélinni. Mér finnst alltaf betra að hafa smá fyllingu í fóðrinu.


 

fimmtudagur, 30. september 2021

Multnomah sjal

Ég hef átt uppskriftina af þessu sjali í mörg, mörg ár. Það er ekki stórt, en mér finnst gott að nota lítil sjöl eins og trefla um hálsinn. Ég átti hespu frá Vatnsnesi og notaði hana í þetta, prjónaði á prjóna nr. 3,5. Ég sé að uppskriftin fæst núna á Ravelry.

 

mánudagur, 27. september 2021

Dúkkuföt

Þegar eitthvert barnabarnanna fjögurra á afmæli gef ég þeim öllum lítinn aukapakka og stundum hafa það verið prjónuð eða saumuð dúkkuföt handa stelpunum þremur. Gaf þeim samt annað í fyrstu afmælum ársins, og sú yngsta var tvívegis búin að rukka mig um dúkkuföt: Amma, ertu búin að prjóna eitthvað?  Svo fyrir síðasta afmæli ársins hafði ég tækifæri til að bæta úr þessu og gerði þetta hér á tveimur vikum sléttum.  

Ég átti skokk úr þunnu gallaefni sem ég var hætt að nota og mér tókst að sníða úr honum þrjá dúkkuskokka. Skokkurinn minn var allur settur saman úr stykkjum og þurfti ég að láta saumana lenda á miðju fram- og bakstykki á dúkkuskokkunum. Það gekk upp.

Þó að hliðarsaumarnir væru það eina sem hægt var að sauma í overlockvélinni, gerði ég það í henni því hún er svo yndislega auðveld í notkun.

Svo skreytti ég þá aðeins í útsaumsvélinni. Ein ömmustelpan skoðaði blómin og velti fyrir sér hvernig ég hefði farið að því að nota svona mikinn tvinna í þau. Hún hefur nefnilega stundum fengið að sauma skrautspor í Epic vélinni og sá að þetta var öðruvísi. Gaman að því.

Skáböndin gerði ég sjálf í skábandajárnum sem ég á heilt sett af.

Ég lét sjást aðeins í skáböndin frá réttunni því mér fannst það punta upp á gallaefnið.

Svo er það límpenninn. Hann er frábær þegar maður þarf að láta litla fleti tolla saman rétt á meðan saumað er. Kláraði þennan reyndar í þessu verkefni og var fljót að fá mér annan.

Hér eru svo skokkarnir í þríriti. Hafði smá litamun á blómunum til að systurnar þekktu sína í sundur. Sniðið er úr bók sem ég fékk lánaða á bókasafni fyrir nokkrum árum.

Svo prjónaði ég kjóla handa öllum. Uppskriftin er úr Klompelompes vinterbarn og heitir Vinge-dukkekjole. Þeir eru prjónaðir á prjóna 2,5 og 3 úr Lanett og Drops baby merino. 

Ég get ekki sagt að það hafi verið fljótlegt að prjóna kjólana, heilmikið maus og frágangur, en uppskriftin var góð og mig langaði alltaf að prófa hana.


 

miðvikudagur, 15. september 2021

Hvítt í hvítt

Ég á mikið safn af alls konar blúndum og böndum, og draumurinn hefur lengi verið að sauma teppi í “heirloom” stíl með alls konar hvítum efnum, skrautsaumi, perlum og pallíettum.En núna ákvað ég að gera poka með blúndum og skrautsaumi, en bara í hvítu. 

Ég þurfti ekkert að kaupa nema perlurnar, allt hitt átti ég. Pokinn er eins að aftan og framan. Hann er tvöfaldur og í innri pokann notaði ég gamalt og slitið lak.

Til að sauma perlurnar á að ofan notaði ég sérstakan perlusaumsfót sem fylgir með skrautsaumasettinu (Embellishment Feet Set) sem hægt er að kaupa með Husqvarna Amber Air overlockvélinni minni. Fóturinn stýrir perlubandinu algjörlega og ég þurfti bara að stilla vélina samkvæmt leiðbeiningum og sauma. Snilld!

Svo notaði ég útsaumstvinna í allan skrautsaum til að fá glansinn á munstrið.

Loks prófaði ég fót sem ég hef átt lengi með Epic 980 vélinni minni góðu en aldrei prófað almennilega. Hann saumar lek (Pin Tuck fótur). Til að fá þau skarpari er hægt að setja þráð undir og stýrir litla járnið fyrir framan fótinn þræðinum. Ég notaði heklugarn úr bómull. Undir fætinum eru svo raufar sem stýra því hvar næsta lek er saumað. Þessi poki varð því æfing í ýmsu sem ég hef ekki gert áður, og það er svo gaman.


 

föstudagur, 10. september 2021

David jakke

Litli ömmustrákurinn, sem varð nýlega tveggja ára, er löngu vaxinn upp úr David jakke peysunni sem ég prjónaði á hann í stærð fyrir eins og hálfs árs. Hann notaði peysuna sem betri peysu, og við mamma hans vorum sammála um að best væri bara að gera aðra peysu eftir sömu uppskrift, okkur finnst hún flott. Núna hafði ég hana í 4 ára stærð, og kemur það ekki að sök þótt ermalengdin sé rífleg því þær eru frekar þröngar og haldast alveg uppi. 

Ég prjónaði úr Lanett og keypti tölurnar í Rokku. Uppskriftin er í Klompelompes sommerbarn.