föstudagur, 24. mars 2023

Victoriakjolen

Það var alveg kominn tími til að bæta einum kjól í safnið. Efnið hef ég átt í nokkur ár, viscose jersey sem ég keypti í Föndru fyrir þó nokkrum árum. Fer mjög vel með þessu sniði.

Sniðið keypti ég hjá hinni norsku Ida Victoria sem ég hef verslað nokkrum sinnum við. Ég hef verið mjög ánægð með allt sem ég hef keypt hjá henni. 

Til að prófa sniðið saumaði ég prufukjól í minni stærð, síkkaði efri hlutann sem nam stærstu stærðinni, bætti við pilssíddinna og allt smellpassaði. Notaði gamalt jersey teygjulak til verksins.

 

sunnudagur, 19. mars 2023

Bókamerki

Mér finnst svo gaman að gera eitthvað handa ömmubörnunum fjórum. Fyrir nokkru saumaði ég þessi bókamerki í útsaumsvélinni. Það má gera fleira með bókamerki en  láta þau inn í bækur….mín börn eru mjög dugleg að finna sér leiki með hinu og þessu og þannig notuðu þau merkin þegar ég gaf þeim þau.

Útsauminn keypti ég hjá Kreative Kiwi, en þar er margt skemmtilegt að finna. 

Til að þekkja þessi í sundur hafði ég bakefnið mismunandi á litinn.

Ég keypti þessa stærð af ramma áður en ég byrjaði, alveg passlegur fyrir svona lítil verkefni. Bókamerkin eru saumuð á tvöfalt lag af vatnsuppleysanlegu, ofnu undirlagi, sem er klippt þétt utan af og restin leyst upp með blautum eyrnapinna.

 

mánudagur, 13. mars 2023

Marsálfur


 Hér kemur álfur marsmánaðar. Eins og ég sagði frá í febrúar langar mig að gera einn álf á mánuði og láta efnið í hattinum skírskota á einhvern hátt til mánaðarins. Að þessu sinni hef ég grænan lit sem boðar að það styttist í vorið og gróðurinn. Þótt mars geti verið kaldur og hvítur vil ég heldur horfa fram á við. Álfurinn er unninn alfarið í útsaumsvél og uppskriftin er frá Kreative Kiwii.

miðvikudagur, 8. mars 2023

Flónelteppi

Í haust sá ég auglýst bútasaumsefni sem voru til sölu úr dánarbúi og fór ég og keypti töluvert af efnum. Nokkru seinna var mér boðið að kaupa restina af lagernum og þótti mér mjög vænt um það. Í þeim pakka var mest af köflóttum efnum, sem ég á aldrei nóg af…..reyndar á ég nóg núna! 

Smá hluti þeirra var úr flóneli, og tók ég þau frá og ákvað að nota þau saman í teppi. Mér finnst þau ekki passa með öðrum efnum og átti mjög lítið af þeim fyrir. En frábært að eiga allt í einu nóg til að geta gert eitthvað úr þeim.

Til að auðvelda mér verkið keypti ég mér 4,5 “ stiku í Bóthildi, þannig að bútarnir voru 4” að stærð saumaðir. Alls urðu þetta 247 bútar og teppið varð 2 metrar á lengd og 140 cm breitt.

Merkið að sjálfsögðu komið á sinn stað. Bakefnið er bómullarlak úr Rúmfó. Kantinn saumaði ég alfarið á í saumavélinni. Svo stakk ég teppið í saumförin.


 Ég raðaði öllu teppinu upp á gólfinu áður en ég saumaði það til að dreifa litunum jafnt og passa að eins bútar lentu ekki hlið við hlið. Þá komu númeruðu títuprjónarnir sér vel sem ég fékk í jólagjöf fyrir nokkrum árum ásamt öðrum sniðugum bútasaumsgræjum.

sunnudagur, 5. mars 2023

Wendy´s Fern Shawl


 Maður getur alltaf á sig sjölum bætt…..alla vega er gott að eiga þau í ýmsum stærðum og litum. Þessa uppskrift átti ég í tölvunni minni, man ekkert hvar ég fékk hana en minnir að hún hafi verið ókeypis. Garnið fékk ég hins vegar í Handprjóni og er það frá Rohrspatz und Wollmeise, liturinn heitir Koralle og prjónarnir voru nr. 4. Hef notað það töluvert en ég kláraði það um miðjan janúar.