fimmtudagur, 13. júlí 2023

Saumað á Baby born

Mér finnst alltaf gaman að sauma dúkkuföt. Það eru alltaf not fyrir þau á þessu heimili og nóg til af efnivið. Ég á alls konar efnisafganga frá fatasaumi, sérstaklega jerseyefnum.

Þessi föt eru öll úr jerseyefnum, engar smellur eða riflásar, sniðin mjög einföld og fljótlegt að sauma þau. Sokkabuxurnar eru meira að segja eins að aftan og framan svo auðveldara sé fyrir börn að klæða dúkkurnar. Mér finnst samt fallegra að hækka buxur að aftan á Baby born og myndi gera það ef ég saumaði fleiri. Joggingbuxurnar hér að neðan voru líka eins að framan og aftan, en ég hækkaði þær upp að aftan. Betri þannig.

Sniðin keypti ég hjá Ida Victoria, fékk þau á PDF formi sem mér finnst allt í lagi þegar um svona litlar flíkur er að ræða, ekkert að líma, bara prenta út og klippa. Bolirnir hér að ofan eru allir saumaðir eftir sama sniði, bara mismunandi ermasídd og á einum er þeim alveg sleppt.

Í þessar nærbuxur er hægt að nota alveg ótrúlega litla búta. Í sníðapakkanum eru tvö snið, annað fyrir boxernærbuxur.

                             Nú geta dúkkurnar verið í nærbuxum í stíl við kjólana.

                         Hér þurfti ég að rifja upp hvernig maður setur smellur á flíkur. 

                                    Joggingbuxurnar og þetta pils hafa stroff í mittið.


Þennan nærbol saumaði ég í vor, en hann er ekki úr þessum sniðapakka heldur úr bókinni Sy og strikk dukkeklær eftir Anne Grethe Gaaserud. Ein ömmustelpan vildi strax fá að eiga hann.
 

1 ummæli:

  1. Fallegt handverkið þitt, takk fyrir að deila því, snilldar snið.

    SvaraEyða