miðvikudagur, 29. nóvember 2023

Dúkkubleyjur


Hér var kvartað yfir því að engar dúkkubleyjur fyrirfinndust á heimilinu. Það var alveg rétt, en ég saumaði samt dúkkubleyjur fyrir nokkrum árum handa ömmustelpunum og gaf þeim. Ég bætti úr þessu og skellti í nokkrar, sem passa á Baby Born. Sniðið er frá þessu bloggi. Í stað þess að nota riflás setti ég núna smellur. Riflásinn festist gjarnan við prjónafötin í fatakörfunni.


 

fimmtudagur, 23. nóvember 2023

Haustlauf

Snemma í haust tók ég í þriðja sinn þátt í leyniverkefni hjá Kathleen Tracy, sem bæði heldur úti bloggsíðu og fb hóp, og er bútasaumshönnuður. Verkefnið hét Autumn Leaves. Einhverja fimm eða sex föstudaga fengum við fyrirmæli um hvað við ættum að gera næstu vikuna, en miðjan kom fyrst og svo bættist utan á teppið.

Ég gat auðvitað ekki hugsað mér annað en að sauma þetta með pappírssaum, auðvelt að teikna þessar blokkir í EQ8. Enda kom það í ljós að margar konur áttu í mestu erfiðleikum með ysta rammann, þar sem þarf að viðhafa mikla nákvæmni bæði við að klippa og sauma. Þetta var leikur einn með pappírssaum.

Ég hafði merkimiðann í haustlegum litum, og fann munstrin í forritinu mínu. Prófaði að sauma með sprengdum tvinna, kom vel út í svona smágerðum hlutum í munstrunum, ekki þar sem voru stærri fletir, prófaði það líka.


 Prentarinn stríddi mér aðeins þegar ég prentaði sniðin úr EQ8 forritinu. Þau voru ekki alveg í réttri stærð, aðeins of lítil. Komst ekki að því fyrr en ég var búin að sauma alla miðjubútana. Ég byrjaði þess vegna upp á nýtt þegar búið var að uppfæra prentarann, en notaði það sem ég hafði saumað í púða í stíl. Hvort tveggja prýðir nú forstofuna á heimilinu.

þriðjudagur, 7. nóvember 2023

Bláar bollamottur

Ég hef átt bolla og hliðardiska úr pólska stellinu vinsæla í fjölda ára og notað það mikið. En það hefur samt alltaf pirrað mig aðeins að ekki skuli fylgja undirskálar. Ég reyndi að bæta úr því og tíndi saman öll bláu efnin mín sem höfðu í sér munsturlitina úr því pólska, þ.e. grænt, gult og dökkrautt, og saumaði nokkrar bollamottur til að nota með bollunum. 

Geymi svo motturnar í sömu skúffu og leirtauið til að gleyma nú ekki að nota þær.

Munstrið er frá Kreativ Kiwi og er gert alfarið í útsaumsvélinni.
 

fimmtudagur, 2. nóvember 2023

Nóvemberálfur


 Hér kemur álfurinn fyrir nóvember. Snjókornin í hattinum minna mig á myrkrið og blessaðan snjóinn sem til allrar lukku hefur ekki látið á sér kræla ennþá hér suðvestanlands. En auðvitað er allra veðra von á þessum árstíma.