þriðjudagur, 25. janúar 2022

Púðar handa barnabörnunum

Fyrir 1-2 árum horfði ég á vídeo frá Stoff og Sy í Danmörku þar sem Lene sýndi hvernig hún gat tekið mynd af einfaldri teikningu á spjaldtölvuna sína í gegnum ákveðið app, sent saumavélinni myndina sem saumaði hana síðan í útsaumsramma. Vá, hvað mér fannst þetta geggjað. Þetta var hins vegar Epic útsaumsvél og ég vissi að ég var ekki á leiðinni þangað, tvær Epic vélar væru of mikið.

Ég var hætt að hugsa um þetta þegar kona, sem tók þátt í norsku saumakeppninni fyrir þremur árum og ég fylgi á Instagram, gerðist Husqvarna sendiboði í Noregi, eða ambassador eins og þeir kalla það. Hún var að nota Sapphire 85 útsaumsvélina og í einni færslunni sýndi hún hvernig hún teiknaði mynd, saumavélin saumaði myndina og úr varð prjónapoki. Það var sem sagt búið að setja þennan fídus í ódýrari vélarnar líka! Þessi staðreynd hjálpaði mér verulega við að taka ákvörðun um að kaupa þessa vél.

Ástæðan var fyrst og fremst sú að mig langaði að taka myndir teiknaðar af barnabörnunum og sauma þær. Um daginn voru Ylfa og Una í heimsókn, ég útskýrði fyrir þeim hvað mig langaði að gera og bað þær að teikna myndir. Ég átti mynd frá Auði sem ég notaði, vissi ekki hvenær ég myndi hitta hana næst, og Bjarki er bara tveggja ára og ekki farinn að teikna myndir handa ömmu sinni, svo ég saumaði handa honum mynd systur hans.

Appið heitir QuickDesign App og fæst það ókeypis í Appstore, fæst líka fyrir Android. Maður þarf að vera skráður inn í MySewnet til að geta notað það. Ég miklaði þetta aðeins fyrir mér, hélt að eitthvað myndi klikka, en það gerðist ekki. Tók mynd, vann hana aðeins í appinu og sendi á vélina og saumaði hana! Ekkert flókið. 

Og mikið var þetta gefandi verkefni fyrir mig og börnin, þau voru hissa og þótti vænt um að fá púðana. Ég sendi þeim líka vídeó af því þegar vélin var að sauma þeirra púða.


Ég er með ýmsar hugmyndir að fleiri verkefnum með þeim, ætla smám saman að safna myndum frá þeim sem henta í þetta.

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli