fimmtudagur, 24. febrúar 2022

Kaffiálfur

Ég sá mynd af þessum álfi í íslenskum vélsaumshóp á Facebook og ákvað að þennan yrði ég að eignast. Ég keypti munstrið, en gekk illa að sauma það út, og gafst að lokum upp.

Þá rakst ég á hann í erlendum vélsaumshóp þar sem hann var keyptur annars staðar frá, á Etsy, og keypti ég hann þar. Og viti menn, hann saumaðist svona glimrandi vel út. Nú er hann á borði við stólinn þar sem ég fær mér morgunbollann og býður mér góðan daginn.


 Svo passar hann svo vel við bollana mína sem eru frá Ingu Elínu. Litlu hlutirnir í lífinu skipta máli ☕️


miðvikudagur, 16. febrúar 2022

Bleikur stelputrefill


 Fyrir stuttu hringdi önnur sex ára ömmustelpan sjálf í mig (hún er með númerið mitt á hreinu og hringir oft) og bað mig um að prjóna á sig trefil, bleikan. Amman skundaði í Gallery Spuna og keypti fallega bleikar dokkur af Drops merino extra fine. Aftur hringdi daman, amma sagðist vera búin að kaupa bleikt garn, en þá sagðist hún elska dökkbleikan. Úps, amman af stað aftur í búðina til að kaupa dökkbleikt garn, sem sú stutta valdi eftir mynd. Svo varð þessi trefill til og hún sátt. Ég notaði einfalt munstur sem ég kann. Fitjaður er upp lykkjufjöldi sem er deilanlegur með 4 og einni lykkju svo bætt við. Svo eru prjónaðar þrjár sléttar og ein brugðin út prjóninn, allar umferðir eru prjónaðar eins.

sunnudagur, 6. febrúar 2022

Lítil taska

Ég átti smá afgang af gardínum sem héngu í húsinu okkar þegar við keyptum það og ég hef verið að nýta í poka og töskur. Á meðan ég var að bíða eftir nýju útsaumsvélinni í haust saumaði ég þessi munstur sem eru í gömlu Pfaff creative 1.5 vélinni og bjó til tösku. Hún var handa tæplega tveggja og hálfs árs sonarsyninum sem hefur mikinn áhuga á bílum og verkfærum (og risaeðlum, köttum, spiderman, legói o.s.frv.). Lítið fólk þarf eitthvað undir hlutina sína, og ég saumaði töskur handa sonadætrunum fyrir nokkrum árum.


 

þriðjudagur, 1. febrúar 2022

Fleiri Trítlar

Ég tók fram pokann með Drops merino extra fine afgöngunum og prjónaði fleiri vettlinga á barnabörnin mín fjögur. Tvö stærstu pörin prjónaði ég á prjóna nr. 3,5 og 4, og stærstu uppskriftina á sex ára, en í miðjuparið, fyrir fjögurra ára, hafði ég prjónana nr. 3 og 3,5, en notaði lykkjufjöldann úr stærstu uppskriftinni, hafði þá bara aðeins styttri. Minnstu eru svo á tveggja ára, notaði uppskrift fyrir 3-4 ára hvað varðaði lykkjufjöldann, en hafði líka minni prjóna, nr. 3 og 3,5. Allt passaði vel á alla. Mér finnst mesta áskorunin í vettlingaprjóni að hafa vettlinga alls ekki of stóra, ekki sniðugt að prjóna þá “aðeins við vöxt”. Þeir verða að passa strax. 


 Hver einasti vettlingur merktur, eins og venjulega. Uppskriftin er úr Bókinni Leikskólafötum, mín uppáhalds.