laugardagur, 31. desember 2022

Vettlingar


Þessa vettlinga prjónaði ég einhvern tíma á þessu og síðasta ári, en setti þá aldrei hér inn. En af því að þetta er handavinnudagbókin mín og hér set ég inn allt það helsta sem ég geri, þá ætla ég að ljúka árinu með því að hreinsa upp það sem eftir var að láta hér á bloggið.
Vettlingarnir hér að ofan eru prjónaðir eftir uppskriftinni Erla sem eru í bókinni Íslenskir vettlingar. Garnið er Merino fingering frá Vatnsnesyarn og liturinn var jólaliturinn í fyrra, minnir mig, og heitir Bjart yfir jólum. Að sjálfsögðu voru þeir notaðir mikið nú í desember.


Svo prjónaði ég þessa herravettlinga úr kambgarni eftir lettnesku munstri sem Ístex gaf út í litlu hefti.


Að lokum eru enn aðrir eftir Erlu uppskriftinni, prjónaðir úr Flóru frá Drops.
Öll vettlingapörin eru prjónuð á prjóna nr. 2. 

miðvikudagur, 28. desember 2022

Pottaleppar

Þessir pottaleppar hafa aldrei ratað hér inn á bloggið mitt þótt nokkur ár séu síðan ég saumaði þá. Ég notaði venjulega saumavél, enda hafði ég ekki eignast útsaumsvél þá. Þetta munstur er úr bók sem heitir Redwork Designs, og venjan er að sauma þannig munstur með aftursting. En mér finnst svo miklu skemmtilegra að nota saumavél en að sauma svona myndir í höndum. Það er seinlegt, ég notaði þrefalda beina sauminn í vélinni og fór svo spor fyrir spor í strikin. 



 

mánudagur, 19. desember 2022

Jólaálfur

Husqvarna Sapphire 85 saumavélin mín, sem ég nota eingöngu sem útsaumsvél, er nettengd og á henni birtist blogg frá Husqvarna Viking með ýmsum verkefnum og stundum útsaumsmynstrum sem hægt er að opna í vélinni. Í fyrra sendu þeir saumavélaeigendum þrjár útgáfur af þessum jólaálfi. Ég hef lengi ætlað að sauma hann í eitthvað, og gerði það augljósa í gær og setti hann í viskastykki, sem ég keypti í Bakgarðinum hjá Jólahúsinu í Eyjafirði í sumar eða fyrrasumar.

Hann saumaðist vel út, en ég fór tvisvar yfir skeggið og hjartað til að hylja rendurnar í efninu.

 

laugardagur, 17. desember 2022

Demantamálun

Í sumar kom ég við í Freistingasjoppunni á Selfossi eins og ég geri oft, og á leið út úr búðinni rak ég augun í litlar pakkningar af demantamáluðum jólaref, kíkti á þær en fór svo bara út í bíl. Sneri samt við þegar ég var búin að hugsa málið aðeins, þetta var hræódýrt, á hálfvirði,  og ég ákvað að eiga þetta í handraðanum ef ske kynni að ömmustelpurnar hefðu einhvern tíma gaman að þessu. 

Einverju sinni í haust var sú yngsta, 5 ára, í pössun hjá mér, og ég sýndi henni þetta og varð hún strax mjög áhugasöm. Systir hennar, 7 ára, var líka mjög dugleg með sinn ref, og eftir 3-4 pössunarheimsóknir kláraðist refurinn.

Sú þriðja, 7 ára, vann líka við sinn ref af miklum áhuga. Hún dæsti oft þegar við vorum að byrja á þessu tvær saman og sagði: “Þetta er svo gaman….það er svo gaman að gera þetta með þér, amma”.  Mesta fjörið var þegar þær voru allar þrjár saman, en afköstin kannski ekki eins mikil þá. En allar myndirnar kláruðust í tæka tíð í desember.

Svo sat ég alltaf með þeim og demantamálaði sjálf. Ég mátti til með að prófa þetta líka og fékk mér þessi spjöld í Fjarðarkaupum.

Þessar Hello Kitty lyklakippur sá ég svo í Fjarðarkaupum og líka einhyrningakippurnar. Báðar hafa líka steina aftan á.

Nú á ég smá lager af lyklakippum, t.d. sæhestakippur sem sú yngsta bað mig að kaupa þegar hún frétti að þær væru til. Keypti líka litla prinsessulímmiða til að steina. Hlakka til að vera með þeim í þessu áfram.

Þegar ég keypti jólarefina í sumar greip ég líka með mér þennan jólasvein sem er 24x34 cm. Töluverð vinna að klára hann, var mest að vinna í honum þegar þær voru líka. Þeim fannst þetta ganga heldur hægt hjá mér, en voru mjög hvetjandi: “Amma, þú klárar þetta örugglega fyrir jól”. Og það gerði ég, eiginmaðurinn greip meira að segja í þetta stundum, og nú er þessi gamaldags jólasveinamynd búin, vantar bara svartan ramma.

 

miðvikudagur, 14. desember 2022

Vetrarboði


 Fyrir nokkru prjónaði ég sjalið Vetrarboða úr bókinni hennar Auðar Bjartar, Sjöl og teppi, eins báðu megin. Alveg sérlega gaman að prjóna það og líka að nota. Það er ekki djúpt og nógu langt til að þægilegt sé að nota það sem trefil, en þannig nota ég sjölin mín. Svo er auðvitað hvorki rétta né ranga á því, eins báðu megin.

Ljósa garnið er merino fingering frá Vatnsnes yarn og heitir liturinn Frosti. Það dökka er Ahoi frá Rohrspatz&Wollmeise, sami grófleiki og hitt, keypt í Handprjóni. Ljósa garnið var akkúrat nóg í verkefnið, afgangurinn af því vó 3,5 grömm, en hespan var 100 gr. Dökka garnið kemur hins vegar í 150 gr hespum, svo ekkert stress þar. Prjónarnir voru nr. 4.

fimmtudagur, 1. desember 2022

Jólahúfur

Fyrir fjórum árum prjónaði ég svona jólahúfur á eldri ömmustelpurnar tvær sem þá voru þriggja ára. Önnur þeirra var enn að nota sína húfu i fyrra, þá sex ára, og tók hana varla af sér allan desember, í orðsins fyllstu merkingu. Ég frétti það of seint fyrir jólin í fyrra að bróður hennar langaði í svona húfu líka, svo ég byrjaði bara strax í janúar að prjóna á hann fyrir þessi jól og aðra stærri á hana, og svo vildu hinar ömmustelpurnar tvær auðvitað fá líka. Þær eru því komnar í notkun fyrir nokkru.


 Garnið er Nepal frá Drops, keypt í Gallery Spuna i Hamraborg, og uppskriftin er HÉR.