sunnudagur, 7. janúar 2024

Jerseykjole med sving for barn

Ég sting oftast einhverju mjúku með í jólapakkana handa ömmubörnunum, yfirleitt náttfötum. Núna datt mér allt í einu í hug að sauma á þau öll. Ég vissi af sniði af kjól frá Ida Victoria en hafði aldrei hugsað út í að ég gæti saumað hann á stelpurnar. Sniðið er í stærðum frá 74 upp í 146. Ég dreif mig í að panta sniðið og efnið í nóvember og náði að sauma í tæka tíð.

Fjögurra ára ömmustrákurinn fékk svo bol. Ég tók mál af honum þegar hann var hjá mér án þess að hann fattaði neitt hvað væri í gangi og gat þannig haft bolinn síðari en sniðið sagði því drengurinn er frekar langur og grannur.

Þær mættu allar í kjólunum í árlegt jólaboð fjölskyldunnar milli jóla og nýárs, og sem betur fer pössuðu þeir vel. Ég á ekki mynd af piltinum í sínu því eins og sönnum herramanni sæmir kom hann í dökkum buxum, hvítri skyrtu, í vesti og með slaufu í boðið.

Sniðið er sem sagt Jerseykjole med sving for barn frá idavictoria.no og efnið pantaði ég frá stofflykke.no. Sniðið af bolnum er Onion snið 20047 (hef áður saumað nokkra kjóla á stelpurnar eftir kjólasniði úr sama pakka) og efnið fékk ég í Föndru.

Stærðin á 8 ára stelpurnar er 140 og á þá 6 ára 128. Bolurinn á 4 ára strákinn er í stærð 116.

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli