þriðjudagur, 13. febrúar 2024

15 ára bloggafmæli


Um þessar mundir á handavinnubloggið mitt 15 ára afmæli. Af því tilefni ætla ég að bregða aðeins út af vananum og segja frá einhverju öðru en handavinnunni minni. Tvisvar hef ég sýnt úr saumaherberginu af svona tilefni, og væri alveg hægt að sýna ýmislegt nýtt og spennandi þaðan, en nú vil ég heldur monta mig af tveimur elstu ömmustelpunum, sem eru báðar 8 ára sonadætur mínar.


Önnur þeirra saumaði þessa mynd í skólanum síðasta vor, og finnst mér það vel af sér vikið hjá barni sem þá var í 2. bekk. Ég hef sjálf kennt börnum á þessum aldri að sauma krosssaum og veit að það vefst fyrir mörgum. Mig langaði svo að myndin hennar yrði að einhverju og bauð henni að sauma púða utan um hana, og valdi hún sjálf öll efnin og líka hvernig ég ætti að raða þeim upp. Hún var mjög ánægð með þetta og talaði sérstaklega um hvað það væri gaman að myndin væri orðin að einhverjum hlut.
Hún hefur líka hannað og sniðið Barbie föt hjá mér sem ég hjálpaði henni svo með.


Hin átta ára ömmustelpan mín er búin að læra að prjóna hjá mér, og er meira að segja örvhent, en ég kenndi henni þetta rétthent eftir að hafa ráðfært mig við hóp textílkennara á fb. Nú er hún að læra að hekla og fór heim um daginn með poka sem í voru garn og heklunál sem langamma hennar átti, hef ekki frétt af því meira.
Síðast þegar hún kom í pössun var hún ákveðin í að hún vildi fá að sauma á saumavélina, og sneið ég fyrir hana efni í hárteygjur sem hún saumaði svo sjálf.


Hún saumaði fjórar fyrir sig og systur sína, og hefði alveg getað haldið áfram hefði amman mátt vera að. En báðar fóru heim með heimasaumaðar teygjur í hárinu. Nú bíður hin átta ára daman eftir að fá að gera það sama. 


Hún sneri stykkinu sjálf við og lærði líka að fletja út sauminn með fingrunum (fannst það reyndar óþarfa pjatt), og ég hjálpaði henni að loka endunum.
Það verður spennandi að fylgjast með þeim báðum, og líka hinum tveimur sem eru sex ára stelpa og fjögurra ára strákur, sem eru ekki síður skapandi fólk. Sjálf var ég farin að prjóna og sauma á þessum aldri og á ennþá Barbieföt sem ég bjó til. Gaman að sjá barnabörnin fara í þessa átt😊
 

3 ummæli:

  1. Falleg og myndarleg börn, til hamingju með bloggafmælið. (ég fylgist alltaf með, þó ég sé auðvitað allt of löt að setja inn athugasemdir)

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir! Kv. Hellen

    SvaraEyða
  3. Til hamingju með afmælið og börnin, ég fylgist alltaf með blogginu þínu og hef gaman af, mjög falleg handavinna hjá þér, ég hef keypt snið og uppskriftir sem þú bendir á, ég vona að þú haldir áfram að blogga.

    SvaraEyða