fimmtudagur, 22. febrúar 2024

Jólaskraut í útsaumsvélinni.

Í janúar er ég oft í stuði til að gera jólaskraut og jólatengda handavinnu. Þá er mesta hátíðarannríkið búið og lífið að róast. Það er ekki seinna vænna að pósta þessu hér áður en páskarnir koma.

Ég tók smá skorpu í útsaumsvélinni að þessu sinni. Ég átti afgang af efnum sem pössuðu öll saman, eldgömul, og flest með gylltu í og ganga ekki með öðru sem ég á.  Þau voru ekki í dæmigerðum jólalitum heldur vínrauð, fjólublá, græn og ljós. Mig langaði að nota þau upp, og tókst að sauma þetta úr þeim.

Ég hafði tvinnann ýmist gylltan eða silfurlitaðan. Í stað þess að nota metaltvinna saumaði ég með polyestertvinna úr Pfaff sem gefur sömu áferð og metaltvinninn en er alveg skotheldur í saumavélina.

Nokkrar glasamottur með jötusenunni urðu líka til, prófaði nokkra liti.

Allt hér að ofan fékk ég frá Kreative Kiwi sem eru staðsettir á Nýja-Sjálandi, og eru í uppáhaldi hjá mér.

Svo sá ég að jólatréð gat alveg bætt á sig meira skrauti og saumaði þessar hvítu stjörnur. Munstrið að þeim fylgir vélinni minni, en ég stækkaði þær nokkuð.


 Bútasaumshjörtun eru líka frá Kreative Kiwi, elska hjörtu…þessi eru lítil en þau komu í nokkrum stærðum, ætla að sauma fleiri stærðir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli