Það er vinsælt að bródera á viskastykki í útsaumsvél. Það vafðist samt eitthvað fyrir mér af því að flestir nota til þess hvít hótelviskastykki sem eru mjög verkleg og flott, en ég er bara svo lítið fyrir svona hvít. Svo á ég svo mörg viskastykki að það er ekki á það bætandi að kaupa fleiri. Þá datt mér í hug að nota bara þau sem ég á í skúffunni. Þau eru mörg röndótt eða köflótt, og þess vegna valdi ég einfaldar myndir og hafði þær einlitar eða í fáum litum.
Ég saumaði líka í svuntu sem ég keypti í Ikea fyrir jól. Ég gerði nú meira fyrir þessa svuntu svo það væri hægt að nota hana yfirleitt. Hún var með krossböndum að aftan og hékk laus á manni svo ég klippti böndin og breytti þeim þannig að svuntan hangir bæði yfir hálsinn og er bundin að aftan.
Munstrið keypti ég einhvers staðar á Etsy, man ekki hvar. Þau eru miklu fleiri og á ég eftir að sauma þau.