Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 27. febrúar 2009

Vetur í bæ

Hér er annað verkefni gert eftir uppskrift frá Elínu Guðjónsdóttur frá Þverlæk. Það heitir "Vetur í bæ", og síðan ég saumaði það fyrir u.þ.b. tveimur árum, hef ég hengt það upp fyrir jólin. En núna hangir það ennþá í saumaherberginu, því mér finnst þessi mynd alveg eins getað verið vetrarmynd, alveg eins og nafnið gefur til kynna. Myndin er straujuð á grunninn með flísófixi, og applíkeruð í saumavél. Síðan er stungið í kring um útlínur. Eins og með annað, þá er það álitamál hvort ekki megi stinga meira. Ég sé til með það.

miðvikudagur, 25. febrúar 2009

Epladúkurinn

Þennan epladúk saumaði ég fyrir 3 árum. Ég féll strax fyrir munstrinu þegar ég sá það. Ekki var verra að sú sem hannaði það, Elín Guðjónsdóttir frá Þverlæk, er gift frænda mínum. Ég hef gert fleiri hluti eftir hana, sem ég sýni fljótlega.

Ég applíkeraði eplin með satínspori í saumavél.

Ég stakk dúkinn lítið, aðeins í saumförin og kringum eplin. Ég er að hugsa um að stinga hann betur. Ég ætla að gera krákustíg í kringum eplin og stinga kantinn, kannski geri ég eitthvað meira. Tek mig til þegar ég hef ekkert annað að gera!



mánudagur, 23. febrúar 2009

Buckeye Beauty stungið

Þá er teppið komið saman og komið að því að stinga. Ég ákvað að stinga það fyrst langsum og þversum í saumfarið. Nota ég til þess nælontvinna sem er glær og sést lítið. Síðan er meiningin að æfa mig meira í að stinga eftir munstri á pappír. Ég ætla að setja það á heppilega fleti, og sjá svo til með restina. Ég get aldrei planað alveg fyrirfram hvernig ég ætla að stinga. Kannski nota ég líka bútasaumsmynstrin á saumavélinni.
Núna nældi ég teppið bara saman. Ég hef næstum því alltaf þrætt þvers og kruss, en er að reyna að venja mig á nælur.

Fóturinn frábæri. Það munar miklu að hafa hann.


laugardagur, 21. febrúar 2009

Hawaii

Mig langaði til að sýna þennan púða. Hann er með munstri sem ættað er frá Hawaii. Þá er munstrið gert þannig að efnið er brotið í fernt og svo klippt, þannig að munstrið speglast í öll hornin, og síðan er applíkerað. Í EQ6 forritinu eru nokkur svona munstur og kallast þar "hawaiian". Það skemmtilega er að púðinn er keyptur á Hawaii líka, þannig að hann er "alvöru". Sonur minn færði mér hann þegar hann kom þaðan úr fríi fyrir einu og hálfu ári. Það er ekki erfitt að velja gjöf handa mér, ég er svo gegnsæ.

fimmtudagur, 19. febrúar 2009

Buckeye Beauty

Um daginn var ég að blaða í gegnum bókina Quilts through the Seasons eftir Eleanor Burns, og rakst þar á teppi, sem ber nafn yfirskriftar þessarar færslu. Þar sagði hún að upplagt væri að nota 5" búta sem efnaframleiðendur klippa gjarnan niður sem sýnishorn þegar þeir gera nýjar efnalínur. Þá er ekkert efni eins, en öll passa saman. Þá mundi ég allt í einu eftir svona pakka sem ég keypti á netinu frá Thimbleberries, 5" bútar úr einlitum efnum, alls 50 bútar.
Ég var ekkert búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera við þá, svo ég skellti mér bara í verkið. Ég þurfti að skipta þeim í dökkan og meðaldökkan hóp, alls 32 búta. Leiðbeiningarnar í bókinni eru mjög góðar, og verkið sækist vel. Bútasaumsfóturinn með kantinum er alveg frábær í þetta.

Ég er í eðli mínu rosalega nísk að nota falleg efni. Mér finnst svo gaman að horfa á þau og dást að þeim. En þetta var frábær leið til að láta þau njóta sín saman. Svo notaði ég ljóst efni í bakgrunn sem ég átti í safninu mínu.

Þetta er fyrirmyndin úr bókinni. Teppið mitt verður trúlega litsterkara, en það kemur í ljós, þegar það er komið saman. Ég á bara eftir að leggja lokahönd á samsetninguna.




miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Pakki í pósti

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag beið mín pakki á eldhúsborðinu, sem hafði komið með póstinum. Ég er í bókaklúbbi hjá Eddu útgáfu, þar sem alls konar föndur- og handavinnubækur koma út annan hvern mánuð. Þessi klúbbur er samtímis í gangi í Noregi, og eru bækurnar norskar. Fyrir nokkrum vikum rakst ég á norskt blogg þar sem bloggarinn var búinn að fá þessa bók, á norsku, og var ég því farin að hlakka til.

Nú get ég notað eitthvað af rauðu og hvítu 5" efnisbútunum, sem ég keypti hjá Keepsake Quilting á netinu. Þeir eru 50 talsins og enginn eins.

Ýmis lítil verkefni eru í bókinni, og auðvitað má gera þau í öllum regnbogans litum.


þriðjudagur, 17. febrúar 2009

Sokkar

Um helgina prjónaði ég þessar hosur á tveggja ára.


Ég notaði afgangana frá þessari peysu úr léttlopa, sem ég prjónaði á litlu frænku mína fyrir eins árs afmælið hennar í desember.

 

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Double Wedding Ring

Ég lauk við löberinn í gærkvöldi, en beið með að mynda hann þar til í dagsbirtunni í dag.

Aðferðin sem ég notaði er upp úr bók Eleanor Burns, sem heitir Egg Money Quilts. Hún kennir þá aðferð að applíkera hringina á ferninga, sem eru þá grunnurinn. Það þarf ekki að sauma neina boga.

Ég prentaði út stungumunstur úr EQ6 forritinu í réttri stærð, dró það upp á þunnan, gegnsæjan pappír, sem ég hef sankað að mér gegnum tíðina. Svo lagði ég pappírinn á efnið og stakk í gegnum hann og reif hann svo burt. Ég hef lengi ætlað að prófa þetta, og þetta virkaði.


Hins vegar stakk ég fríhendis í aflöngu fletina.

Kantinn í kring hafði ég úr afgangi af efnunum, skeytti saman stutta búta.






laugardagur, 14. febrúar 2009

Ný efni

Ég skrapp í Draumakot Olgu á leiðinni heim úr vinnunni á miðvikudag og keypti þessi efni. Ég er að byrja að safna gultóna efnum núna, á mjög lítið af þeim og hef ekki notað þau að ráði, nema þá helst í páskamyndum og dúkum. Ég tók þá stranga úr hillunum sem mér leist best á og sá svo þegar ég kom heim að tvö efnin voru frá Thimbleberries (auðvitað!!) Ég dregst að þessum efnum hvar sem ég sé þau.

Svo vantaði mig bómullarvatt, svo ég hafði upp á versluninni Bóthildi, sem nú er í Breiðholtinu, og fékk þetta fína vatt á góðu verði, og svo var þarna úrval af efnum fyrir minn smekk. Ég keypti nokkur hlutlaus, og eitt blátt, og eins og áður þá eru nokkur þeirra frá Thimbleberries. Næst þegar ég fer þangað ætla ég að birgja mig upp af bláum efnum, ég sá nokkur sem mig langar í.


Það góða við að bæta svona við birgðirnar er að gömlu efnin öðlast nýtt líf þegar þau fá nýja nágranna.



föstudagur, 13. febrúar 2009

Litla Riddarateppið

Litla Riddarateppið saumað ég árið 2005. Byrjaði reyndar á því á jólum 2004 og lauk því á hvítasunnu 2005. Mér fannst mjög gaman að sauma það.

Það er saumað með fléttusaum eða gamla, íslenska krosssaumnum. Saumað er með íslensku kambgarni. Svo lét ég setja það upp á fljótandi eikarramma.


Teppið er gert eftir fyrirmynd úr Þjóðminjasafninu.


miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Hús, hús, hús

Þessa húsamynd gerði ég sumarið 2003. Hún er upp úr bók, sem heitir "Down in the Valley" og er eftir Cori Dereksen og Myra Harder. Pappírssaumur að sjálfsögðu. Fyrst hafði það bláan ramma og hékk yfir baðskápum í bláa baðherberginu okkar, en svo þurfti ég að flytja það vegna breytinga, og núna hangir það í nýja baðherberginu, sem hefur brúna tóna, og því var ekki annað að gera en að skipta um ramma.

Það er að sjálfsögðu kirkja í þorpinu með steindu gleri í gluggum.

Svo er hér fyrir neðan eitt húsið enn. Húsablokkin var það fyrsta sem ég prentaði út úr EQ6 þegar ég fékk það, og átti blokkina lengi saumaða niðri í skúffu.

Svo vantaði mig mynd í forstofuna og mundi eftir blokkinni, og teiknaði ramma í forritinu. Það hugsar alveg fyri mann, og t.d. aðlagaði það stjörnurnar að lengd rammans, þannig að störnurnar í lóðrétta rammanum hafa örlítið annað mál en í þeim lárétta. Munurinn sést ekki, en lengdin á rammanum passar ekki nema maður geri greinarmun á stærðinni á stjörnunum.



Myndin er stungin í vél.




mánudagur, 9. febrúar 2009

Saumavélafætur

Hér sjást örlög efnanna sem ég sýndi fyrir nokkrum dögum. Núna er ég að gera löber með "Double Weddingring", en mig hefur alltaf langað til að gera það munstur. Löberinn verður með þremur hringjum, og er ég búin að sauma þá 20 búta sem fara í þá, og þeir eru ekki saumaðir með pappírssaumi! Ég saumað þá saman með saumavélafætinum sem stýrir 1/4 tommu saumfarinu með kanti, og það var alveg frábært:
Hér fyrir neðan er svo fóturinn sem stýrir nálinni í saumfarið, þegar maður er að stinga teppi. Algjör snilld!
Það er ótrúlega gaman að spekúlera í aukahlutunum því þeir gera oft gæfumuninn. Nú er ég líka að spá í að kaupa stingplötu með gati fyrir beinan saum, því ég var að lesa að beini saumurinn kæmi miklu betur út bæði í samansaumi og í stungusaumi með þannig plötu. Þá hefði efnið miklu! meira viðnám, en drægist ekki niður í opið með nálinni. Fróðlegt!

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Borðmottur

Þá er ég búin með borðmotturnar. Ég hannaði þær alfarið í EQ6. Blómið er saumað með pappírssaumi.
Ég þurfti auðvitað að stinga þær með mismunandi sporum úr nýju saumavélinni, úr nógu var að velja, en er samt að velta því fyrir mér hvort ég eigi að stinga ljósu fletina eitthvað meira. Ég keypti tvo nýja saumavélafætur nýlega. Annan þeirra notaði ég til að stinga í saumfarið innan við bláa rammann, og er fóturinn með járni í miðjunni sem stýrir alveg nálinni, þannig að þetta verður lauflétt. Sýni mynd af fætinum seinna.

laugardagur, 7. febrúar 2009

Sumarmynd

Þessa veggmynd saumaði ég síðastliðið sumar.

Ég notaði bara afganga af árórugarni. Ég saumaði með varplegg, eða kontórsting, því þannig lærði ég að sauma þegar ég var stelpa. Þegar ég skoða svokallað "stitchery" á erlendum netsíðum er það svo til alltaf saumað með aftursting. Ég er farin að prófa það núna.
Munstrið fékk ég í áströlsku blaði sem ég keypti í Bót á Selfossi.

Margir blanda saman svona útsaum og bútasaum, og langar mig til að prófa það með rauðu og hvítu eingöngu. En stundum þegar ég sé "Redwork" teppi, þ.e. saumaðar myndir í miðju búts, rammaðar inn með rauðum og hvítum efnum, þá finnst mér efnin bera útsauminn ofurliði, og maður tekur ekkert eftir honum, sér bara bútasauminn. Svo er bara að sjá hvort mér tekst að gera þetta öðruvísi einhvern tímann.



föstudagur, 6. febrúar 2009

Húsin

Ég átti leið fram hjá Virku í dag og notaði að sjálfsögðu tækifærið til að kaupa nokkra búta, komin alla leið frá Hafnarfirði. Ég er að prófa að leita að aðeins bjartari litum en ég er vön að nota, en þó ekki skærum. Fór að skoða þessa síðu, og er alveg heilluð af litasamsetningunni hjá þessari konu. Margt af þessu eru litir sem ég nota mikið, en hún er með svo milda liti líka.
Þetta teppi saumaði ég í vetur, og lét það passa á þennan vegg í borðkróknum í eldhúsinu. Ég er alltaf veik fyrir þessu mótífi. Þarna er ekkert hús úr sama efni. Teiknaði teppið í EQ6 og saumaði með pappírssaumi.

Teppið er stungið í vél.


fimmtudagur, 5. febrúar 2009

Saumavélin kvödd

Í dag flutti gamla saumavélin mín að heiman. Gömul skólasystir mín og samstarfskona keypti hana af mér, og þar sem ég tengist saumavélum gjarnan sterkum böndum, var mér alls ekki sama hvert hún færi, og veigraði mér við að auglýsa hana til sölu. Ég gæti því ekki verið sáttari við vistaskiptin og nýja eigandann. Þessi vél er búin að fylgja mér í rúm sjö ár, og hefur reynst mér mjög vel.
Þetta teppi var með því fyrsta sem ég saumaði á hana. Það er saumað með pappírssaum, og er aðeins 47 x47 cm á stærð. Hver ferningur er aðeins rúmir 7 cm, er í hverjum ferning eru 25 bútar. Teppið er því 400 bútar!

Fyrst ætlaði ég að handstinga það, en það reyndist ógerningur, því allst staðar voru þykk saumför, og því stakk ég það með ósýnilegum þræði í saumavélinni.



miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Prinsateppin

Þetta er sjónvarpshandavinnan mín. Teppið prjónaði ég fyrir jól, eftir uppskrift sem byggð er á teppinu sem litli, danski prinsinn var vafinn í fyrir heimferðina. Og af því að mér finnst sérlega gaman að prjóna það, mátti ég til með að prjóna annað.

Garnið keypti ég í Europris, 100% merino ullargarn fyrir ungbörn. Það fara tæplega 8 dokkur í teppið.