Mig bráðvantaði tuðru til að hafa með í vinnuna fyrir nestið, pappíra og prjónana (þeir eru nauðsynlegir á löngum fundum og námskeiðum - skerpa athyglina). Ég fann ekkert sem mér líkaði, og þá var ekki annað í boði en að sauma hana sjálf.
Ég átti efni með gamaldags skólamyndum sem ég keypti fyrir 12-14 árum í Glugghúsi í Hafnarfirði, en vissi aldrei hvað ég átti að gera við það. Ég tók það fram í gær og saumaði þessa tösku, og fór með hana í vinnuna í morgun - og er ánægð með útkomuna.
Ég er svakalega veik fyrir svona panelum, og þetta efni með saumavélunum keypti ég í Virku fyrir stuttu, og er búin að plana veggteppi með myndunum. Ég er líka svo hrifin af saumavélamótívinu sem slíku.