Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 31. ágúst 2009

Budduóð kona

Anna Björg heldur því fram í athugasemdum á síðustu færslu minni að ég sé budduóð! Ég ætla því að sýna nokkrar myndir til að sýna hversu alvarlegt æðið er. Þessar hringbuddur gerði ég fyrir 2-3 árum eftir uppskrift af netinu. Mér finnst skemmtilegt að gera þær. Í þessari geymi ég þráð til að handstinga með og allt sem til þarf.
Hér er smá útsaumur geymdur, Noah´s Ark að þessu sinni.
Þessa þykir mér vænt um, því fyrir 25 árum, þegar ég gekk með yngri son minn, saumaði ég þrjú svona hringlaga stykki í höndunum, en gerði ekkert meira með þau, þangað til mér datt í hug að nota þau í svona buddu. Tvö efnin eru meira að segja afgangar úr óléttukjól sem ég saumaði á meðgöngu eldri sonarins.
Í henni geymi ég það sem þarf til harðangurs- og klausturssaums (ég ÆTLA að sauma eitthvað einhvern tímann úr því!)
Þessar þrjár eru ábyggilega 10 ára gamlar. Við hittumst nokkrar budduóðar konur í vinnunni og saumuðum okkur buddur í þremur stærðum. Ég hef gert margar svona og gefið líka.
Í fyrra saumaði ég þessar eftir munstri frá Lise Bergene. Ég geymi rennilása í þeirri með hjartað, en hin býr annars staðar.

laugardagur, 22. ágúst 2009

Budda

Ég hef stundum séð þessa buddu á netinu. Ég komst yfir uppskriftina um daginn og saumaði hana. Ég notaði bara pastelliti, og nýtti pínulitla og eldgamla afganga.
Það sem mér þótti spennandi við hana er hvernig botninn er brotinn og saumaður inn í hliðarsaumana.

föstudagur, 14. ágúst 2009

"Annas sminkepung" nr. 2

Ég varð að prófa aðra útgáfu af þessu veski. Ég geri ekki nógu mikið úr rauðum og hvítum efnum miðað við hvað mér finnst það gaman. Blúndan er gömul, kemur úr dánarbúi frænku mágkonu minnar eins og fleira.

þriðjudagur, 11. ágúst 2009

"Annas sminkepung" tilbúinn

Þá er ég búin að sauma fyrsta veskið eftir sniðinu sem Oddbjörg sendi mér. Ég gerði þann stærri. Ég sleppti applíkeringunni sem átti að vera framan á, en ég á eftir að sauma fleiri og þá prófa ég það. Það var mjög gaman að sauma þennan og leiðbeiningarnar góðar.

mánudagur, 10. ágúst 2009

Ágúst

Lauk við ágústmyndina í morgun. Notaði efni sem ég keypti hjá Keepsakequilting. Það var pakki með bakgrunnsefnum frá Thimbleberries. Ég notaði mestallan pakkann í Buckeye Beauty teppið mitt, en á nokkra búta eftir. Svo applíkeraði ég núna með tunguspori í vélinni, en á allar hinar mánaðarmyndirnar hef ég notað satínsaum.

fimmtudagur, 6. ágúst 2009

Helga

Það er vika síðan ég lauk við þessa peysu. Uppskriftin heitir Helga, og er á síðu Ístex, en 29. júlí bloggaði ég líka um hana vegna þess að það er villa í ermauppskriftinni fyrir stærri stærðina, en ég breytti henni svo hún passaði. Ermarnar áttu að vera 52 cm, en það finnst mér full sítt, og hefði verið nóg að hafa þær 48 cm á mig, þótt ég sé handleggjalöng.

miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Ég fékk pakka frá Noregi!

Í dag, þegar við hjónin komum heim úr jarðarför sr. Halldórs S. Gröndal, sem gifti okkur og skírði eldri son okkar, þá beið mín pakki frá Noregi! Hann var frá Oddbjörg, sem er með bloggsíðuna My Creative Corner. Hún saumaði svo falleg veski um daginn, og ég kommenteraði og sagðist ætla að sauma svona sjálf þótt ég ætti reyndar ekki munstur. Stuttu seinna sendi Oddbjörg mér póst og vildi kaupa svona munstur fyrir mig og gefa mér! Ég gat ekki annað en þegið það, því mig langaði svo í þetta, og nú er það komið! Frábær kona!!
Oddbjörg, du var den förste norske blogger som kommenterte pa min  blog, og dette er ogsa förste gang jeg far en gave via bloggen! TUSEN TAKK!!
Svo kom fallegt kort með.