Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 31. mars 2022

Golftreyja - Tynn Lilly-jakke

Ömmustelpu, sem verður sjö ára í sumar, vantaði nýja golftreyju, var vaxin upp úr þeirri sem ég prjónaði á hana þegar hún var fjögurra ára. Sú peysa hefur verið í stanslausri notkun og tekur tæplega fimm ára systirin glöð við henni. En þessi sem ég prjónaði núna er úr bókinni Klompelompe - Strikkefest og heitir Tynn Lilly-jakke. Hún er prjónuð þannig að bekkurinn efst er prjónaður sem lengja, síðan eru teknar upp lykkjur  á efri kantinum og hálsmálið prjónað, svo er tekið upp á neðri kantinum og prjónað niður. 


 Peysan er prjónuð fram og til baka og fannst mér það dálítið puð, en fínt bíla- og sjónvarpsprjón.  Ég prjónaði úr Lanett, daman valdi sjálf litinn og uppskriftina. Prjónarnir voru nr. 3 og 2,5, og í hnappalistann notaði ég prjóna nr. 2. Stærðin er á 8 ára. 


Svona leit munsturbekkurinn út þegar ég var búin að bleyta hann og strekkja, og taka upp lykkjur fyrir hálsmálið. Í uppskriftinni er manni ráðlagt að pressa bekkinn, en mér finnst betra að bleyta prjón, pressa aldrei.

miðvikudagur, 23. mars 2022

Kokkateppi

Þetta teppi hefur hangið í nokkrar vikur í borðkróknum fyrir ofan eldhúsborðið. Ég hef alltaf verið hrifin af “Redwork” útsaumi og hef saumað mörg þannig verkefni gegnum tíðina. Samt finnst mér aldrei neitt sérstaklega gaman að sauma þau í höndunum út af fyrir sig, þótt ég vilji eiga afraksturinn. Og nú slapp ég alveg við að sauma myndirnar sjálf, því Sapphire 85 útsaumsvélin gerði þetta fyrir mig🙂

Uppskriftina fékk ég á netinu, frá Kreative Kiwi, og er hún ókeypis á síðunni þeirra. Þar heitir hún Redwork Chefs. Ég saumaði 4x4” mynstrin, og blokkin varð 8,5x8,5” að stærð. Mjög skemmtilegt verkefni.

Ég valdi þetta munstur aðallega til að skemmta barnabörnunum þegar þau sitja við eldhúsborðið hjá okkur. Þau velja sér þá þann kokk sem þau ætla að “vera” þann daginn. Sama gera þau stundum þegar þau koma inn til okkar, því í forstofunni hangir þetta húsateppi og þau byrja oft á að “velja sér hús”.

 

mánudagur, 21. mars 2022

Armhlífar


Við erum með tvo hægindastóla úr taui í stofunni, og sit ég mikið í öðrum þeirra og prjóna. Ég var farin að setja litla bútasaumsdúka á armana til að hlífa þeim.


Þá fékk ég þá hugmynd að sauma bara hlífar á alla fjóra armana. Átti efni í lagernum mínum sem ég gat notað. Vildi ekki hafa þær áberandi, áttu helst að falla vel saman við litinn á stólunum.


Stakk allt í tígla horna á milli með bómullarvatti á milli. Notaði málningarteip til að fá beinar línur. Ég á auðvitað járn til að festa á vélina mína sem hjálpar við að sauma svona samsíða, beina sauma, en gleymdi þeim. Teipið virkar líka mjög vel. Prófa járnin næst.


Svona er bakið á hlífunum, skrautlegra, en getur líka verið flott að láta snúa upp.


 

mánudagur, 7. mars 2022

Hringtrefill



Þennan hringtrefil prjónaði ég handa öðrum syni mínum sem pantaði hann í afmælisgjöf.  Uppskriftin er í bókinnu Sjal og skjerf - strikking hele året eftir Bitte Mikkelborg. Garnið pantaði ég frá Kristínu í Vatnsnesi (sem er uppáhalds) og heitir liturinn Even Flow. Þetta er BFL garn í DK grófleika, prjónað á prjóna 4. Ég náði stærðinni nákvæmlega samkvæmt uppskriftinni, og trefillinn smellpassaði á eigandann. Hann valdi litinn sjálfur, að sjálfsögðu, en liturinn er ekki eins gulleitur og á myndinni, sem er tekin í janúar við slæm birtuskilyrði.


 Ég læt hér fylgja með mynd af treflinum úr bókinni, en þar heitir hann Vinterbølger skjerf.