Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 27. apríl 2009

Stjörnuteppið tilbúið

. Lauk við stjörnuteppið á sunnudagskvöldið.

Fyrst var ég að spá í að stinga hverja stjörnu 1/4 tommu frá kanti. En eftir að hafa stungið teppið í öll saumför, með tilheyrandi snúningum, þá sá ég að það yrði ansi mikil vinna. Hverri stjörnu hefði ég orðið að snúa 16 sinnum, og margfaldið það með 24!

Ég skoðaði bækur og hugsaði málið, og þá sá ég að beinar línur yrðu bæði auðveldastar og rökréttar, þannig að ég stakk teppið horna á milli, þannig að það mynduðust ferningar. Munstrið á teppinu studdi líka þannig stungur.

Kantinn stakk ég á frá réttunni, saman brotinn, og hafði ég hann samsettan úr efnunum úr stjörnunum.
Svo sting ég kantinn alltaf niður í höndum.
Hér sést stungan.
Þessi frábæra stöng var alveg bráðnauðsynleg. Hana keypti ég í Pfaff, og er hægt að setja hvíta plastið hvoru megin sem maður vill, en það fylgdi vélinni járn, sem aðeins er hægt að snúa á annan veginn.
Brúna efnið er frá Thimbleberries, og mörg hinna líka, en þau koma úr öðrum áttum líka.
Í fyrsta skipti á ævinni hef ég nú merkt teppi! Ég hef alltaf ætlað að gera það, og svo rakst ég á efni á netinu með alls konar merkimiðum á, pantaði það og valdi ég þennan núna og merkti hann í saumavélinni.










laugardagur, 25. apríl 2009

Litlir sokkar

Þessum sokkum var ég að ljúka við að ganga frá. Ég var búin að sjá þá víða á netinu, en fann aldrei neina uppskrift að þeim. Ég eyddi heilmiklum tíma í að leita að uppskriftinni en fann hana aldrei.
Svo rakst ég á hana af tilviljun hér. Þessir hvítu eru í stærð fyrir 3 mánaða.

Þessir rauðu eru fyrir 6 mánaða. Þeir eru rauðir, þótt þeir virðist bleikir á myndinni. Snúran er fingrahekluð.

Svo prjónaði ég sokka á tveggja ára úr afgöngum af léttlopa. Uppskriftin er úr tímariti Heimiliðnaðarfélagsins, Hugur og hönd, 2008.




þriðjudagur, 21. apríl 2009

Dresden Plate

Þetta teppi gerði ég fyrir nokkru. Reyndar var ég rétt áðan að ljúka við að stinga kantana aðeins meira, mér fannst það alltaf vanta. Ég keypti fimm af efnunum saman í pakka í Draumakoti Olgu í Minni-Mástungu, og var alveg ákveðin í að sauma eitthvað þar sem þau fengju að njóta sín saman.
Þó að rautt og grænt sé ráðandi þá lít ég alls ekki á þetta sem jólateppi, mér finnst það bara sumarlegt! Ég hef alltaf haft tilhneigingu til að nota vínrautt og grænt saman.

Munstrið fann ég svo í bók eftir Eleanor Burns, Egg Money Quilts, sem mér finnst frábær. Þar eru mörg gömul, klassísk, amerísk munstur og Eleanor er mjög frumleg í aðferðum. Ég gerði svo rammann í EQ6.

Við applíkeringu saumar hún flíselín réttu á móti réttu á stykkin, sem á að festa niður, snýr þeim við og straujar á. Þá er hún búin að ganga frá köntunum, og svo applíkerar maður létt í vél yfir.Bókinni fylgja nokkur skapalón úr pappa.

Nú er ég að byrja að stinga stjörnuteppið, og verð ég nokkra daga að því. Ég sting í öll saumför, og eru það dálítil átök að stinga í kring um stjörnurnar, þar sem ég þarf alltaf að vera að snúa teppinu. Svo þarf ég að bræða með mér hvernig ég sting það meira til skrauts.






miðvikudagur, 15. apríl 2009

Kjóll

Þennan kjól saumaði ég eftir helgina. Mig langaði til að prófa að nota overlocksporin á Pfaff vélinni. Kjóllinn er úr jersey, og gekk mér ágætlega að sauma allt saman með vélinni. Hins vegar átti að falda slifsið framan á og hálsmálið með tvíburanál, og gafst ég upp á því, og faldaði það í höndum. Eins faldaði ég ermar og fald í höndum, án þess að reyna það í vélinni. Mér finnst þannig frágangur fallegastur. Sniðið er úr Ingelise 12.2008.

þriðjudagur, 14. apríl 2009

Baktus trefill og rauð peysa

Þá er ég búin að prjóna mér Baktus trefilinn, sem ég hef séð á nokkrum stöðum á netinu. Ég notaði prjóna nr. 3 og sokkagarn, sem ég keypti í Fjarðarkaupum fyrir nokkru, en hef ekki séð það aftur þar. Ég var svo hrifin af litunum að ég keypti 2 dokkur. Uppskriftin er einföld: Notaðar eru 2 dokkur af garni. Fitjaðar eru upp 3 lykkjur, prjónað garðaprjón, og í 4. hverri umferð er aukið út í annarri hliðinni, þar til ein dokka er búin. Þá er tekið úr í 4. hverri umferð í sömu hlið þar til seinni dokkan er búin. Ég þvoði hann eftir að ég tók myndirnar og er búin að nota hann, og hann er mjög þægilegur.
Peysan, sem ég sýndi upphafið af fyrir nokkru, er löngu búin, átti bara eftir að mynda hana. Svo er bara spurningin hvort ég þori að vera í svona áberandi lit.

mánudagur, 13. apríl 2009

Páskaborðmottur

Á þessum öðrum degi páska ákvað ég að sýna borðmottur, sem ég saumaði fyrir nokkrum árum úr alls konar gulum efnum, sem rekið hafði á fjörur mínar. Sniðið er "Dresden plate", sem ég fann í blaði, og lengdi stykkin, þannig að þau pössuðu undir diskana mína. Hringurinn í miðjunni er applíkeraður ofan á.

sunnudagur, 12. apríl 2009

Vordúkurinn tilbúinn

Þá er vordúkurinn kominn á eldhúsborðið. Ég studdist við útprentaða mynd af dúknum þegar ég var að koma honum saman, að sjálfsögðu með pappírssaumi.
Ég stakk ferningana í dúknum með tveimur munstrum, sem ég strikaði gegnum skapalón með bleki, sem á að hverfa af sjálfu sér.
Svo stakk ég aðra fleti 1/4 tommu frá brún, og í kantinum hafði ég krákustíg.
Ég er ánægð með stærðina, hún passar vel, og ég er að æfa mig í að nota þessa liti, og styðst við hugtakið: "light but not bright".

föstudagur, 10. apríl 2009

Vordúkur

Ég lauk við að setja saman stjörnuteppið í gær og ætlaði að setja kantana á og klára það. Fór í Rúmfatalagerinn og keypti bakefni. Þá sá ég að ég átti ekki nógu mikið af brúna efninu í kantana. EQ6 sagði að ég þyrfti 1 og 1/8 yards í þá, og ég á minna en það. Virka er lokuð fram yfir helgi svo ég verð að bíða.
Þá er að snúa sér að næsta verkefni. Ég er löngu búin að gefast upp á því að hafa stóran dúk á eldhúsborðinu, það er alltof mikið álag á því til þess. Því datt mér í hug að gera lítinn dúk á miðjuna, sem ég get kippt í burtu þegar þarf. Ég vildi hafa hann einfaldan, og gerði þennan úr einni blokk, sem ég stækkaði upp. Hann verður ca.43x43 cm.
Þetta eru efnin sem ég ætla að nota.


miðvikudagur, 8. apríl 2009

Vesti úr lopa

Þetta vesti var ég að ljúka við. Fann uppskriftina á þessu bloggi, og er hún frá Garnstudio. Uppskriftin gerir ráð fyrir að þetta sé toppur úr bómullargarni á prjóna nr.4,5, svo ég ákvað að prófa hana í léttlopa.
Reyndar prjónaði ég bolinn öðruvísi, tók inn í mittið og jók aftur út. Uppskriftin er víðari.
Hér eru svo 40 bútar í innri kantinn á stjörnuteppinu og 4 bútar í hornin.

þriðjudagur, 7. apríl 2009

Annar páskalöber

Nú er þessi páskalöber kominn á borðstofuborðið. Munstrið að honum fann ég á netinu á alveg frábærum vef, sem ég gleymi alltof oft að sé til.Hann heitir Quilterscache, og þar er urmull af blokkum, uppskriftir af þeim og margar, ef ekki allar, eru með uppskrift með pappírssaum líka. Þar sem spurningin: "Where do you want to go today" er, velur maður:Quilt Blocks Galore-Free Quilt Bloch Pattern. Þá koma upp tæpar 60 síður af blokkum.

Þessa blokk fann ég hér á þessum vef.
Dúkurinn er handstunginn.


mánudagur, 6. apríl 2009

Apríl

Þá er apríl loksins kominn hér á bæ. Byrjaði á myndinni í morgun, og nú rétt eftir hádegi hangir hún í eldhúsinu. Munstrið er hér.

fimmtudagur, 2. apríl 2009

Páskadúkur

Í tilefni af komu páskanna og þess, að ég er ekki tilbúin að sýna neitt nýtt núna, þótt ýmislegt sé í vinnslu, þá set ég hérna mynd af páskadúk, sem ég gerði fyrir nokkrum árum. Ég hafði hann í brúnum og appelsínurauðum tónum, því ég hef aldrei þolað gulan lit vel, að minnsta kosti ekki skærgulan. Það er reyndar aðeins að breytast núna - ég er farin að kaupa fölgul efni til að hafa með öðrum, og er með hugmynd að dúk. Mynstrið að þessum hér að ofan er fengið úr "Alt om handarbeite", sem ég var ákrifandi af í mörg ár. Munstrið var þar gefið út í pappírssaum.