Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 23. mars 2011

Teppagrind

Lappetausa og LeKaQuilt eru með leik á síðunum sínum, þar sem fólk er beðið um að sýna teppagrindur sínar, ef það á þannig tól.
Mig hefur alltaf langað í svona grind, og keypti fyrir nokkrum árum handklæðagrind í IKEA ef ég skyldi ekki komast yfir aðrar grindur. Svo lá hún í pakkningunni þar til í gærkvöldi, þegar ég ákvað að taka þátt í leiknum hjá Elin og Lena Karen. Maðurinn minn skrúfaði hana saman, en ég er ekkert úrkula vonar um að hann smíði nú svona grip fyrir mig, annað eins gerir hann nú.
Svo þannig lítur nú teppagrindin mín út, og ég er bara nokkuð ánægð með hana!

þriðjudagur, 22. mars 2011

Prjónaðir klútar

Vegna þess að ég verð alltaf að hafa eitthvað á prjónunum, þá er ég auðvitað búin að prjóna fullt af borðtuskum, sem eru í stöðugri notkun, meira að segja rauðar og grænar fyrir jólin. Þetta eru bestu borðtuskurnar, svo það var sjálfgert að leggja þessum gömlu, keyptu.
Svo háttar þannig til að á öðru baðherberginu hér heima er ég með viðarborðplötu undir vaskinum, og vil helst hafa klúta undir sápunum til að ekki liggi vatn á borðinu. Þá datt mér allt í einu í hug að prjóna klútana til þess arna. Ég prjónað fjóra, og notaði slétt og brugðið í ýmsum útgáfum. Ég fitjaði upp u.þ.b. 60 lykkjur og notaði prjóna nr. 3. Garnið heitir "Mor Aase" og fæst í Mólý í Kópavoginum.

föstudagur, 11. mars 2011

Kjóll

Ég saumaði mér þennan kjól í vetrarfríinu í síðustu viku. Efnið keypti ég fyrir löngu í Handalín, jersey efni sem fellur mjög vel. Í fyrra gerði ég annan kjól eftir sama sniði, en það er frá Onion.

laugardagur, 5. mars 2011

Taska utan um iPad

Ég eignaðist iPad fyrir tveimur vikum, og vantaði hlífðartösku utan um hann. Ég var ekki nógu spennt fyrir töskunum sem Eplið selur, svo ég ákvað að reyna að sauma sjálf. Ég skoðaði töskur á netinu, og sá eina sem var eitthvað í svipuðum dúr.
Efnið keypti ég í Storkinum. Það er frá Kaffe Fassett, úr Westminster línunni. Ég notaði tvöfalt bómullarvatt, og saumaði það ásamt yfirborði og bakefni, og svo fóðraði ég það líka með bómullarpoka innan í, þannig að lögin eru fimmföld í allt.
Svo ákvað ég að hafa pokann opinn í annan endann til að hægt væri að hlaða tölvuna í honum, en margar töskur sem ég skoðaði á netinu eru með loki sem brettist yfir eða með rennilás. Handgerðu viðartölurnar átti ég.

miðvikudagur, 2. mars 2011

Sokkar, sokkar.......

Ég er alltaf með eitthvað á prjónunum, og ef það er ekkert sérstakt sem liggur fyrir, þá dýfi ég hendinni bara ofan í garnpokann og prjóna úr afgöngum. Þessir sokkar hér að ofan eru prjónaðir eftir uppáhalds sokkauppskriftinni minni, sem ég fann í Hug og hönd frá 2008. Þeir eru á 2 og 4 ára.

Þarna var ég að prófa stundaglashæl með garðaprjóni úr bókinni hennar Kristínar Harðardóttur, sem heitir Sokkar og fleira. Þessir eru á 2 ára.
Align Center

Svo prjónaði ég sokka á sjálfa mig, og þeir eru með stundaglashæl, og eru úr sömu bók. Allir sokkarnir eru úr léttlopa.