Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 16. september 2022

Lítið teppi með kaleidoscope munstri

Mér finnst alltaf jafn nærandi að sauma afgangateppi, og vinna úr afgöngum almennt. Ég sá svona teppi einhvers staðar á netinu í vor og langaði að sauma svipað, sérstaklega af því að þessi blokk er ein af mínum uppáhalds. Svo litlu afgangarnir voru dregnir fram einu sinni enn, og hafist handa. Mörg þessara efna eru áratuga gömul svo það er eins og að ferðast aftur í tímann að skoða bútana.

Ég bjó blokkina til í EQ8 forritinu, fann einhvern veginn út úr því, og sneið svo alla 576 þríhyrningana eftir skapalóni úr pappa sem ég prentaði út, strikaði i kring með blýanti og klippti út með skærum. Þarna kláruðust sum efni alveg. Reglan er sú að skipta efnunum í ljós og dökk, og mega dökkar eða ljósar hliðar aldrei liggja saman. Þetta gekk upp og var skemmtilegt að gera. 


 Og merkið fór á sinn stað, saumað í útsaumsvélinni minni góðu.  Hver blokk er 23x23 cm og allt teppið ca. 92x92 cm.

mánudagur, 12. september 2022

Skæri og mús

Hér eru tvær litlar útsaumsmyndir sem mig langaði til af vissum ástæðum að yrðu að einhverju en ekki bara prufur ofan í skúffu. Skæramunstrið var nefnilega fyrsta útsaumsmunstrið sem ég prófaði að kaupa á netinu. Það var að vísu ókeypis, en mér tókst þetta. Síðan hef ég keypt eða hlaðið niður nokkrum í viðbót.

Þarna á skæramottan heima því mér finnst svo þægilegt að leggja skærin frá mér á sjálfa vélina, því harpan á Epic vélinni er svo stór. Ég set oft títuprjónasegulinn eða klemmuboxið þarna líka.


 Hitt munstrið sem mig langaði að búa eitthvað til úr var þessi mús. Sapphire 85 útsaumsvélin mín er nettengd og getur tekið við munstrum úr tölvunni gegnum netið. Þetta var fyrsta munstrið sem ég reyndi að senda úr tölvunni í vélina og það tókst í fyrstu tilraun!  Úr varð þessi dúkkupúði, set hann í dúkkuvagninn.

föstudagur, 9. september 2022

Aðalvík nr. 3 og 4

Þá er ég búin að prjóna eftir uppskriftinni Aðalvík frá Ömmu Loppu á öll barnabörnin fjögur.

Systurnar sem fengu þessar völdu sjálfar litina sem þær vildu hafa á peysunum. Þessi rauða er í stærð fyrir 6-8 ára, en sjálf er daman 7 ára.

Sú yngri valdi sér bleikt og hennar peysa er í stærð fyrir fimm ára, enda er hún fimm ára.

Garnið er eins og áður Drops merino extra fine, keypt í Gallery Spuna. Prjónað á prjóna nr. 4 og 3,5.