Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 14. maí 2024

Herðubreið


Ég fékk öskju með öllu, sem þurfti til að sauma Herðubreið, í jólagjöf síðustu jól. Fátt eins notalegt á jólunum og að opna nýja bók og byrja á nýju handavinnuverkefni. Það var einstaklega gaman að sauma þessa mynd, kláraði hana á tveimur vikum með hljóðbók í eyrunum.


Pakkningin kemur frá Saumakassanum. 
Hengdi hana á vegg með öðrum handgerðum hlutum, passar algjörlega inn í litaþemað.

mánudagur, 29. apríl 2024

Krosssaumspúðar

Langamma tveggja barnabarnanna minna í móðurætt lést fyrir um tveimur og hálfu ári. Hún var mikil handavinnukona, og í vetur, þegar gamla heimilið var selt og geymslur tæmdar, kom í ljós ýmis efniviður tengdur handavinnu. Það sem nánustu aðstandendur gátu ekki nýtt sér var mér fært til að fara í gegnum og nota. 


 Þar fann ég meðal annars fallegan löber með þessum glaðlegu myndum á hvorum enda, fullsaumuðum, en ramminn í kringum dúkinn var ókláraður. Ég fékk þá hugmynd að gera úr löbernum púða handa krökkunum úr þessum myndum. Gula efnið í rammanum kom frá langömmunni líka. Ég hafði sitt hvort efnið í bakið svo þeir þekktust í sundur.

laugardagur, 20. apríl 2024

Krosssaumur Karólínu

Nú er ég loksins búin að láta ganga frá Karólínunum mínum, sem ég er löngu búin að sauma. Ég fékk tvo kassa af útsaumsefni í jólagjöf jólin 2022 og saumaði þær strax, en frágangurinn vafðist fyrir mér. Flestir setja þær í púða, en ég á svo marga útsaumaða púða að það er ekki á það bætandi. Ákvað þess vegna að láta ramma þær inn, og innrammarinn var alveg ákveðinn í að láta þær í flotramma, sem var einmitt það sem ég var búin að gera mér í hugarlund. Mjög ánægð með þær svona og búin að hengja þær saman upp á vegg. Ætti ég að sauma fleiri? Dauðlangar til þess, ekkert betra en að sitja með útsaum í höndunum og hlusta á góða sögu á Storytel.


 

þriðjudagur, 16. apríl 2024

Lítið afgangateppi

Ég á mjög erfitt með að henda litlum efnisafgöngum og hef verið dugleg að hreinsa þá upp með því að gera úr þeim afgangateppi. Nú var kominn tími til að taka til og þá varð til þetta litla teppi eða dúkur eða hvað sem á að kalla það, ekki nema 52 x 52 cm að stærð.

Hver blokk er aðeins tvær sinnum tvær tommur, og eins og sést saumuð með pappírssaumi. Ég setti hringskerann með á myndina til samanburðar.

Hér er bara hluti af afskurðinum sem ég notaði. Margir bútar voru miklu minni, og tókst mér að hreinsa vel til. Ég hætti að sauma þegar efnin voru á þrotum.

Merkið var að sjálfsögðu saumað í útsaumsvélinni, það fyrsta fyrir árið 2024. Munstrið fengið úr útsaumsforritinu.

Í teppinu eru 100 blokkir. Í hverri blokk eru 9 bútar þannig að alls eru þetta 900 bútar sem þurfti að sauma saman. Á milli setti ég Heat ‘n bond strauvatt, lét límið snúa að toppnum, og kom það mjög vel út þegar svona mikið er af saumum og saumförum. Teppið verður frekar þungt og liggur alveg marflatt. Kantinn sneið ég 1 og 1/4 tommu á breidd og saumaði hann því niður einfaldan, lærði það af Kathleen Tracy bútasaumshönnuði, sem hannar lítil teppi og finnst þetta oft passa betur á þau og er ég alveg sammála henni. Ég stakk í kringum hverja blokk og svo á ská eftir miðju blokkanna.

 

föstudagur, 5. apríl 2024

Dúkkufataprjón

Það er alltaf gaman að grípa í dúkkufataprjón. Ég sá þessa lambhúshettu á handavinnusíðu vinkonu minnar og fékk uppskriftina frá henni. Byrjaði á þessari rauðu, en hún varð bara sú fyrsta af mörgum.

Fínt að grynnka aðeins á afgöngunum sem alltaf safnast upp. Krakkarnir urðu strax hrifnir af þeim og fengu þær allar með sér heim, ein náðist ekki einu sinni á mynd.


Uppskriftin er fyrir Baby Born, en þær fóru nú samt á alls konar bangsahausa. Kormákur þvottabjörn var  mjög flottur með sína þegar hann fór heim.

Svo fengu fleiri dúkkur föt….uppskriftirnar að þessum dressum fékk ég á Ravelry með því að leita að uppskriftum á 14” og 18” dúkkur, fullt af fríum uppskriftum þar. Peysurnar eru prjónaðar eftir sömu uppskrift, önnur er með smellum að aftan, hin hneppt að framan.

Prjónastærðin var 2,5, reyndar gefið upp fyrir 2,25, en ég á þá ekki sem kemur ekki að sök því ég prjóna frekar fast.


 

föstudagur, 29. mars 2024

Rennilásabuddur

Þessar buddur saumaði ég fyrir forvitnis sakir því mér finnst aðferðin svo skemmtileg. Ég hef rekist á þær nokkrum sinnum á netinu en ákvað að prófa að sauma þær þegar ég sá góðar myndir af aðferðinni í fb hóp Íslenska bútasaumsfélagsins.

Ég valdi að sauma í heilt efni, en það má líka nota efni sem búið er að setja saman úr bútum. Setti vatt og bak líka, og stakk það með tvíburanál, en það hef ég ekki gert áður svo ég muni. Stærðin á stykkinu hjá mér var 30x40 sm, en það fann ég bara út sjálf, hægt að ráða stærðinni sjálfur. Svo er skorið skáhallt frá vinstra, efra horni en skurðurinn látinn enda sem svarar ca. 1/3 af lengd hliðarinnar fyrir ofan neðra hægra horn (alla vega gerði ég það). Úr þessu stykki fást sem sagt tvær buddur, önnur stærri en hin.

Þá eru skurðarbrúnirnar á báðum stykkjum kantaðar með 2,5” strimli eins og maður væri að kanta bútasaumsteppi, saumað við á röngunni og stungið niður á réttunni. Því næst notaði ég aðra hliðina á rennilásalengju sem seld er í metratali og saumaði á skákantinn.

Loks setti ég sleða á lásinn og saumaði buddurnar saman á röngunni. Í þá stærri festi ég skáband með saumunum til að hylja saumförin, en sikksakkaði bara saumförin á þeirri minni því skáböndin taka pláss.

                                 Stærri buddan varð 19x19 sm og sú minni 12x14 að stærð.

 

mánudagur, 25. mars 2024

Hákarlapennaveski


Einhvern tíma á vafri mínu um netheima rakst ég á myndband þar sem kennt var að sauma svona pennaveski í gervi hákarla. Ég varð strax voða skotin í þeim og byrjaði á að sauma einn til prufu, sem heppnaðist ágætlega, þannig að ég skellti mér í að sauma handa ömmubörnunum fjórum. Ég hafði ytra byrðið eins á þeim öllum en mismunandi liti á efnunum innan í. 


Uppskriftin gerir ráð fyrir rennilásum sem seldir eru í metratali og klipptir í rétta lengd og sleði settur á. Sá sem ég notaði er með mislitar tennur, kemur mjög flott út.


Ég fyllti hákarlana með trélitum, 24 stykki í hvern, og var nóg pláss eftir til að bæta öðru í. Hér eru þeir komnir í notkun hjá krökkunum, sem voru mjög ánægðir með þá. Merkti líka trélitina með ákveðnum lit fyrir hvert barn (sem reyndur yngri barna kennari) þannig að allir þekkja sitt.


Hér er prufustykkið sem ég byrjaði á. Það besta við þessa uppskrift er að það fylgir vídeó um hvernig á að sauma hann og sniðið er ókeypis. Allt um það HÉR. Það var samt dálítið erfitt að láta munnvikin koma vel út þar sem tennurnar mætast í efri og neðri skolti, þó það tækist þokkalega hjá mér. En áður en ég hélt áfram með hina fjóra þá rakst ég á annað myndband þar sem búið er að endurhanna munnvikin og notaði ég þá aðferð, sem heppnaðist mjög vel. HÉR er hún sýnd.
 

fimmtudagur, 29. febrúar 2024

Svunta og viskastykki

Það er vinsælt að bródera á viskastykki í útsaumsvél. Það vafðist samt eitthvað fyrir mér af því að flestir nota til þess hvít hótelviskastykki sem eru mjög verkleg og flott, en ég er bara svo lítið fyrir svona hvít. Svo á ég svo mörg viskastykki að það er ekki á það bætandi að kaupa fleiri. Þá datt mér í hug að nota bara þau sem ég á í skúffunni. Þau eru mörg röndótt eða köflótt, og þess vegna valdi ég einfaldar myndir og hafði þær einlitar eða í fáum litum.

Ég saumaði líka í svuntu sem ég keypti í Ikea fyrir jól. Ég gerði nú meira fyrir þessa svuntu svo það væri hægt að nota hana yfirleitt. Hún var með krossböndum að aftan og hékk laus á manni svo ég klippti böndin og breytti þeim þannig að svuntan hangir bæði yfir hálsinn og er bundin að aftan. 

Munstrið keypti ég einhvers staðar á Etsy, man ekki hvar. Þau eru miklu fleiri og á ég eftir að sauma þau.

 

fimmtudagur, 22. febrúar 2024

Jólaskraut í útsaumsvélinni.

Í janúar er ég oft í stuði til að gera jólaskraut og jólatengda handavinnu. Þá er mesta hátíðarannríkið búið og lífið að róast. Það er ekki seinna vænna að pósta þessu hér áður en páskarnir koma.

Ég tók smá skorpu í útsaumsvélinni að þessu sinni. Ég átti afgang af efnum sem pössuðu öll saman, eldgömul, og flest með gylltu í og ganga ekki með öðru sem ég á.  Þau voru ekki í dæmigerðum jólalitum heldur vínrauð, fjólublá, græn og ljós. Mig langaði að nota þau upp, og tókst að sauma þetta úr þeim.

Ég hafði tvinnann ýmist gylltan eða silfurlitaðan. Í stað þess að nota metaltvinna saumaði ég með polyestertvinna úr Pfaff sem gefur sömu áferð og metaltvinninn en er alveg skotheldur í saumavélina.

Nokkrar glasamottur með jötusenunni urðu líka til, prófaði nokkra liti.

Allt hér að ofan fékk ég frá Kreative Kiwi sem eru staðsettir á Nýja-Sjálandi, og eru í uppáhaldi hjá mér.

Svo sá ég að jólatréð gat alveg bætt á sig meira skrauti og saumaði þessar hvítu stjörnur. Munstrið að þeim fylgir vélinni minni, en ég stækkaði þær nokkuð.


 Bútasaumshjörtun eru líka frá Kreative Kiwi, elska hjörtu…þessi eru lítil en þau komu í nokkrum stærðum, ætla að sauma fleiri stærðir.