Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 25. júlí 2024

Hlýrabolir á börnin


Ég hef átt sniðið af þessum hlýrabolum nokkuð lengi, aðallega til að sauma bol á sjálfa mig, sem hefur ekki orðið ennþá. Datt þá í hug í vor að sauma á barnabörnin mín fjögur, sem eru 5, 7 og tvær 9 ára á þessu ári, því sniðið kemur í stærðum bæði fyrir börn og fullorðna.


Sniðið heitir Ida Victoria Singlet. Efnin eru frá Litlu músinni. Ég lét öll börnin velja sér sjálf efni á netinu.


Bakið kemur í tveimur útfærslum, þessari hér að ofan og svo með heilu, venjulegu baki. Ég saumaði þessa útgáfu á stelpurnar þrjár, en með venjulegu baki á strákinn. Bolinn hans hafði ég líka beinan í hliðum, en sniðið gerir ráð fyrir að hliðarnar komi aðeins inn í mittið. Fyrst saumaði ég prufuboli í öllum stærðunum úr gömlu jerseylaki til að tékka á hvernig sniðið passaði þeim, og gerði smá breytingar þar sem þurfti.

                                    Allt smellpassaði og krakkarnir sáttir❤️
 

miðvikudagur, 10. júlí 2024

Hilda Hoodie

Ég hef áður saumað mér svona eins konar peysukjól eftir þessu sniði. Núna hafði ég hann með hettu og úr venjulegu bómullarjerseyi. Hafði líka ermarnar aðeins styttri. Önnur breyting sem ég hef gert á báðum er að hafa kjólinn sjálfan lengri en mjókka aðeins stroffið að neðan. Þessi verður fínn í húsbílaferðalög sumarsins.


                      Sniðið heitir Hilda Hoodie og er frá Ida Victoria, og ég keypti efnið hjá henni líka.

þriðjudagur, 2. júlí 2024

Fleiri dúkkuföt

Þessar dúkkur geta alltaf bætt við sig fötum. Mér finnst líka gaman að taka smá rispur í dúkkufatagerð, enda þurfa ömmustelpurnar að hafa úr einhverju að velja. Þessar tvær stærri eru 18” dúkkur og sú minni 14” að stærð. Ég nota tommumálin frekar því þá finn ég miklu meira úrval þegar ég leita að sniðum og uppskriftum.

Buxnasniðið á þessa litlu bjó ég nú eiginlega til sjálf, var með einhvern grunn sem passaði engan veginn þannig að ég breytti og minnkaði þangað til þetta varð sæmilegt.

Peysurnar á stærri dúkkurnar eru eftir fríum uppskriftum á Ravelry, og þá bleiku reyndi ég að hafa í stíl við hinar en þurfti að gera tvær tilraunir til að láta hana passa. Þá gulu gerði ég svo bara eftir sama grunni.


Sniðin af buxunum á stærri dúkkurnar eru hins vegar úr sniðapakka fyrir 18” dúkkur frá Kreativistine í Noregi. Hún gerir snið á fullorðna og börn, og hefur gert dúkkufatasnið í stíl við barnafatasniðin.