Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 30. september 2024

Dúkkukjólar


Einhvern tíma í sumar prjónaði ég þessa kjóla á dúkkurnar. Ég var ekki með sérstakar uppskriftir af þeim, heldur notaði ég uppskriftirnar af dúkkupeysum og kjól sem ég skrifaði um í þessari færslu, sem grunn til að miða við. Þar fæ ég lykkjufjöldann og skiptingu í ermar og bol, þar sem byrjað er að prjóna ofan frá. Svo er bara að hafa stuttar eða langar ermar, útvítt eða beint o.s.frv. Mjög auðvelt að spinna þetta upp jafnóðum. 
Allir kjólarnir eru hnepptir að aftan.


 

miðvikudagur, 18. september 2024

Húfur og ennisbönd


Ég fann dálítið sniðuga leið til að nýta afganga af jersey bómullarefnum. Ég keypti snið hjá Stofflykke af húfu, ennisbandi og hálskraga, og prófaði að sauma tvö bönd í barnastærð og eitt fullorðins og mátaði og fóru þau til þeirra sem þau pössuðu. Þurfti aðeins að aðlaga stærðir.

Svo fengu barnabörnin að velja sér efni í húfu eða ennisbönd eða bæði, eins mörg og þau vildu, allt eftir smekk.


Til urðu þrjár húfur og ellefu ennisbönd.


Húfurnar og böndin eru tvöföld, og í saumaferlinu er merkimiða stungið í saumfarið á réttum stað.

 

fimmtudagur, 5. september 2024

Vettlingar fyrir veturinn


Haustið nálgast og kominn tími til að prjóna skólavettlinga á barnabörnin fjögur. Ég hef undanfarið prjónað eftir uppskrift úr Leikskólafötum, en sú uppskrift nær aðeins upp í sex ára aldur. Börnin eru á aldrinum 5-9 ára og þurfti ég að finna aðra uppskrift. Hana fann ég á síðu Storksins. Hún er frí og heitir Randalíus. Mjög góð að fara eftir og rétt í stærðum.


Í vettlingana hér að ofan notaði ég Smart garn úr Rúmfatalagernum, endurnýjaði kynni mín við það, hef ekki prjónað úr því síðan synir mínir voru litlir fyrir nokkrum áratugum. Garnið í ljósu vettlingana er Merino Blend DK, keypt á sama stað. Prjónarnir voru nr. 4. Að sjálfsögðu saumaði ég merkimiða inn í hvern einasta vettling.