Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 28. ágúst 2023

Bollamottur

Eins og ég hef áður skrifað hér þá notum við mikið mottur undir bolla og krúsir hér á heimilinu. Ég bætti í safnið um daginn og saumaði fleiri. Þessar má líka nota sem gólfmottur á heimili Barbie, það alla vega gert hér þegar ömmustelpurnar koma hingað. Motturnar eru alfarið saumaðar í útsaumsvélinni. 

Ég skellti saman tveimur munstrum. Mottan sjálf er upprunalega með texta sem ég sleppti en setti þess í stað þessar myndir af Sunbonnet Sue, sem ég hef alltaf verið hrifin af. Ég minnkaði myndirnar um 20% svo þær pössuðu.


 Bæði munstrin, þ.e. motturnar og myndirnar, eru fríar á síðu Kreative Kiwi. Hugmyndin er ekki mín heldur fékk ég hana frá konu sem er í fb hóp Kreative Kiwi.

þriðjudagur, 15. ágúst 2023

Hjónahnútur

Fyrir löngu fann ég þetta munstur á netinu. Ég átti afgang af stramma og nóg af kambgarni, svo ég taldi bara út eftir myndinni sem ég fann og kláraði miðjuna. Svo lagði ég það frá mér í mörg ár en lauk við það fyrir nokkru.

Í heildina er munstrið mun stærra, breiður rammi í kringum fuglana, en ég setti bar mjóan ramma og lét það gott heita. 


 Svo bjó ég til lítinn púða sem fer vel með hinum nálapúðunum. Hann er saumaður með fléttusaum, eða gamla krosssaumnum. Upphaflega munstrið er byggt á munstri úr Sjónabókinni.

þriðjudagur, 1. ágúst 2023

Ágústálfur

Þá hefur ágústálfurinn litið dagsins ljós. Það er alltaf skemmtilegt að fara í gegnum efnalagerinn og velja efni í hatt sem passar árstíðinni. Að þessu sinni eru það ber, reyndar hvorki blá né svört. 

Uppskriftin er frá Kreative Kiwi, margt skemmtilegt hjá þeim.