Tengdadóttur mína langaði í græna peysu á soninn.
Ég fann lopapeysu á netinu sem var í grænum litum og sýndi henni, og þetta var nákvæmlega peysan sem hana langaði í.
En ekki úr lopa.
Ég þurfti að aðlaga munstrið að ungbarnagarni.
Það tókst ótrúlega vel. Ég studdist við ungbarnapeysu úr Klompelompebók til að gera mér grein fyrir lykkjufjölda, og svo gekk munsturbekkurinn upp í minnstu stærðinni á lopapeysumunstrinu. Sleppti öllum umferðum sem munstrið leyfði, og lykkjufjöldinn í lokin var alveg passlegur.
Það eina sem olli mér verulegum heilabrotum var að finna út nákvæman lykkjufjölda á peysu sem var prjónuð ofan frá og niður og aðlaga að peysu sem er prjónuð neðanfrá og upp. En allt stemmdi.
Húfuuppskriftin er úr Prjónablaðinu Ýr nr. 66, nema munstrið er það sama og í peysunni.
Lopapeysumunstrið er Frost úr Lopa 29.
Ég prjónaði úr Rauma babygarni frá Rokku á prjóna nr. 3.
Stærðin er á eins árs.