Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 26. ágúst 2024

Dúkkuföt


Ég hef nóg að gera við dúkkufatagerð. Hér eru það sumardress á dömurnar. Þær þurfa jú að eiga eitthvað til skiptanna.


Sniðið af þessum bolum fann ég frítt á netinu frá Liberty Jane Clothing. Koma í tveimur stærðum, 14” og 18”. Þeir eru alveg opnir að aftan og lokað með fínum riflás. Myndirnar framan á þeim skar ég sjálf út úr HTV vinyl í skurðarvélinni minni.


 Stuttbuxurnar gerði ég eftir sniði frá Kreativistine. Þær eru síðar á sniðinu en ég hafði þær bara stuttar.

þriðjudagur, 20. ágúst 2024

Melkorka


 Þessi mynd heitir Melkorka. Hún er frá Saumakassanum eins og aðrar þrjár myndir sem ég hef saumað. Ég splæsti henni á mig í vor þegar ég sá fram á að verða ein í húsinu í tæpa viku í júní þegar eiginmaðurinn og synirnir tveir færu í feðgaferð til Lissabon, gjöf frá sonunum til pabba síns í tilefni stórafmælis hans fyrir nokkru. Ég er ekki vön því að vera ein og eiginmannslaus heima svona lengi, og hlakkaði ekki til þess, en ákvað að eiga myndina tilbúna svo ég hefði eitthvað til að hlakka til, og byrjaði ekki á henni fyrr en þeir voru farnir. Hún er frekar fljótsaumuð, enda mikið um beinar, samsíða línur. Skemmtilegt verkefni.

miðvikudagur, 14. ágúst 2024

Hilda hoodie


 Ég saumaði mér þriðju flíkina eftir sniðinu Hilda hoodie frá Ida Victoria. Núna hafði ég hvorki hettu né háan kraga heldur bara mjótt stroff í hálsinn, og stytti ermarnar í 3/4 lengd því ég kippi alltaf ermum upp ef þær eru í fullri lengd og gengur misvel að halda þeim uppi. Þá er bara eins gott að stytta þær. Ég síkkaði þennan peysukjól eins og þá fyrri, en er jafnvel að spá í að stytta hann aðeins. Sé til með það. Kjóllinn er að öllu leyti saumaður á overlockvélina og efnið keypt í Noregi.

þriðjudagur, 6. ágúst 2024

Meira af dúkkufötum


Ég held áfram að auka aðeins fataeign dúkknanna á meðan ömmustelpurnar hafa gaman af því að leika sér með þær. Leikurinn gengur mikið út á að klæða þær upp á fyrir alls konar tilefni. Þær eru ýmist að fara í partý, ferðalög eða annað.


Mér var bent á að þær ættu ekki almennileg sumarföt og ég var beðin um að redda því áður en þær kæmu næst. Svo opnuðu þær skúffu með efnum frá mér og völdu efni í hvelli áður en þær fóru heim. Sniðið fann ég frítt á netinu, það er frá Bankky/Craftymom. Sniðið er af stuttbuxum en kemur meira út eins og buxnapils á stærri dúkkunum, en passar betur á þá minni, en stelpurnar voru sáttar.

Svo var ég búin að prjóna þessar peysur, kannski ekki mjög sumarlegar, en það verður að hafa það. Þær eru bara prjónaðar af fingrum fram, byrja efst á þeim öllum og svo getur maður bara gert alls konar útgáfur, stuttar eða síðar ermar, mismunandi kraga, hneppt að framan eða aftan, stroff eða garðaprjón og líka kjóla.