Heildartala yfir síðuflettingar

sunnudagur, 23. október 2022

Aðalvík nr.5

Edit: Fyrri peysan fannst🙂

Þetta er ekki sama rauða Aðalvíkin og ég sýni hér neðar í blogginu, heldur ný peysa. Ömmustelpan sem hin var prjónuð á var ekki búin að eiga peysuna nema í tæpan sólarhring þegar hún hvarf af snaga í skólanum hennar. Síðan er liðinn einn og hálfur mánuður, og hefur ekkert til peysunnar spurst.

Amman tók uppskriftina aftur fram og gerði nýja peysu fyrir 7 ára skólastelpuna sína þegar þrjár vikur voru liðnar frá hvarfinu. Fyrri peysan var merkt með nafninu hennar, saumuðu á taumiða innan á stroffið.


 En þetta er sem sagt Aðalvík, stærð 6-8 ára, prjónuð úr Drops merino extra fine frá Gallery Spuna á prjóna nr. 4.

miðvikudagur, 19. október 2022

Sumarboði

Sumarboði er úr nýju bókinni hennar Auðar Bjartar, Sjöl og teppi eins báðum megin, sjalið sem er framan á bókarkápunni. Ég byrjaði á því um leið og bókin kom út og eru því nokkrar vikur síðan ég lauk því. Var alltaf að vandræðast með myndatökuna, litirnir aldrei alveg réttir og erfitt að sýna hvernig sjalið lítur út því það er svo langt. Ég er mjög ánægð með það, skemmtilegt að prjóna það, en maður þarf að einbeita sér alveg við prjónaskapinn, þetta var ekki sjónvarpsprjón. Ég nota sjöl alltaf eins og trefla og þess vegna er mjög þægilegt að eiga eitt af þessu tagi.


 Garnið er frá Rohrspatz & Wollmeise, keypt í Handprjóni á garngöngunni í haust, og prjónarnir nr. 4.

miðvikudagur, 5. október 2022

Nálapúði


 Ég fór á sýningu á verkum Karólínu Guðmundsdóttur vefara í Árbæjarsafni í sumar. Mjög fróðleg og flott sýning. Nú er búið að endurgera nokkur útsaumsmunstur sem hún gerði og setja í pakkningar til sölu. Mig langar að eignast eina af þeim, en þessi litli nálapúði er líka með munstri sem tekinn er úr stærra verki eftir hana og birtist í nýjasta tölublaði Hugar og handar. Ég átti gamlan ullarjafa og nóg af kambgarni og saumaði hann. Átti líka ullarefni í bak og ullartróð. Hann er ekki nema 11x11 sm að stærð.

mánudagur, 3. október 2022

Handklæði merkt

Gömlu sundhandklæðin mín tvö voru orðin svo úr sér gengin, að ég lagði þau til hliðar um daginn og keypti ný. Þessi gömlu voru ekki sérlega falleg og þess vegna notuð í sundið, enginn hefði tekið þau í misgripum.

Mér þótti nú öruggara að merkja þau nýju, enda algeng týpa sem ég keypti. Mamma og tengdamamma merktu öll sín handklæði, eins og myndarlegar húsmæður gerðu hér áður, og þetta gerðu þær ýmist í höndum eða með venjulegri saumavél. Þær hefðu elskað að eiga græjuna sem ég á í dag til að merkja með.


 Ég skrapp í Pfaff um daginn og keypti mér járnramma (Metal Hoop) með sterkum seglum til að festa efnið með á rammann. Ég átti minnsta rammann en fékk mér 24x15 rammann líka, þann stærsta. Hann er upplagður í svona verkefni. Stafinn á myndinni hér að ofan fann ég í Premier+ Intro forritinu mínu sem fylgdi gömlu útsaumsvélinni. Stafina þrjá á hinu handklæðinu fékk ég úr litlu forriti sem fylgir hinu og heitir það Quick Font, en með því get ég tekið hvaða leturgerð sem er í tölvunni minni og breytt henni í útsaumsstafi í ýmsum útgáfum. 

 Ég á örugglega eftir að ráðast á handklæðabunkann og merkja fleiri, svona til gamans.