Heildartala yfir síðuflettingar

494,404

miðvikudagur, 19. mars 2025

Northeasterly úr útsaumsgarni


Í gegnum tíðina hefur safnast upp hjá mér mikið af útsaumsgarni. Ég var búin að koma því fyrir uppi á háalofti og það pirraði mig að vita af því þarna og engin plön um að nota það.
 

Síðasta sumar vantaði mig eitthvað á prjónana til að hafa með í húsbílaferð og sótti garnið upp á háaloft. Valdi mér aftur uppskriftina Northeasterly sem ég hef prjónað áður, en hún hentar svo vel þegar garnið er allavega og mismikið af hverjum lit.


Ég notaði einungis ullargarn, geymdi allt annað. Svona leit bakhliðin út hjá mér, en uppskriftin gerir ráð fyrir að gegnið sé frá endum jafnóðum með því að vefa þá í prjónið jafnóðum, en það er ekki almennilegur frágangur í mínum huga. Hins vegar er þráðurinn í einni dokku ekki langur, ég tala nú ekki um ef búið er að taka af henni, þannig að endarnir urðu mjög margir sem ganga þurfti frá.


Ég saumaði niður hvern einasta enda. Þetta lítur ekki vel út í byrjun, en þá er bara að hefjast handa og annaðhvort hlusta eða horfa á eitthvað skemmtilegt og svo er þetta bara allt í einu búið.


Uppskriftin heitir sem sagt Northeasterly og fæst á Ravelry.

þriðjudagur, 11. mars 2025


Tvær ömmustelpnanna minna fengu sérherbergi fyrir síðustu jól. Þær fengu að velja sér liti á veggina sjálfar og fleira í herbergin.
 


Svo fannst þeim vanta púða í stíl við nýju litina og báðu ömmu sína að sauma fyrir þær púða sem þær teiknuðu sjálfar, eins og ég hef áður gert. Amman varð voða glöð yfir að vera beðin um þetta og hönnunarvinna systranna hófst um leið.


Aðalatriðið er að hafa teikninguna frekar einfalda með hreinar línur og engin aukastrik, allt sem sést á myndinni verður saumað. Ég fer svo sjálf ofan í blýantsstrikin með tússpenna.


Þær völdu sér efnin alveg sjálfar og líka hvar hvert efni átti að vera í hvorum púða. 
Þetta er sem sagt gert í appi frá MySewnet sem ég hleð niður í iPhone símann, vinn myndina aðeins í símanum, hreinsa aukastrik og svoleiðis, og sendi svo úr honum í útsaumsvélina, sem sér um restina.