Heildartala yfir síðuflettingar

laugardagur, 31. desember 2022

Vettlingar


Þessa vettlinga prjónaði ég einhvern tíma á þessu og síðasta ári, en setti þá aldrei hér inn. En af því að þetta er handavinnudagbókin mín og hér set ég inn allt það helsta sem ég geri, þá ætla ég að ljúka árinu með því að hreinsa upp það sem eftir var að láta hér á bloggið.
Vettlingarnir hér að ofan eru prjónaðir eftir uppskriftinni Erla sem eru í bókinni Íslenskir vettlingar. Garnið er Merino fingering frá Vatnsnesyarn og liturinn var jólaliturinn í fyrra, minnir mig, og heitir Bjart yfir jólum. Að sjálfsögðu voru þeir notaðir mikið nú í desember.


Svo prjónaði ég þessa herravettlinga úr kambgarni eftir lettnesku munstri sem Ístex gaf út í litlu hefti.


Að lokum eru enn aðrir eftir Erlu uppskriftinni, prjónaðir úr Flóru frá Drops.
Öll vettlingapörin eru prjónuð á prjóna nr. 2. 

miðvikudagur, 28. desember 2022

Pottaleppar

Þessir pottaleppar hafa aldrei ratað hér inn á bloggið mitt þótt nokkur ár séu síðan ég saumaði þá. Ég notaði venjulega saumavél, enda hafði ég ekki eignast útsaumsvél þá. Þetta munstur er úr bók sem heitir Redwork Designs, og venjan er að sauma þannig munstur með aftursting. En mér finnst svo miklu skemmtilegra að nota saumavél en að sauma svona myndir í höndum. Það er seinlegt, ég notaði þrefalda beina sauminn í vélinni og fór svo spor fyrir spor í strikin. 



 

mánudagur, 19. desember 2022

Jólaálfur

Husqvarna Sapphire 85 saumavélin mín, sem ég nota eingöngu sem útsaumsvél, er nettengd og á henni birtist blogg frá Husqvarna Viking með ýmsum verkefnum og stundum útsaumsmynstrum sem hægt er að opna í vélinni. Í fyrra sendu þeir saumavélaeigendum þrjár útgáfur af þessum jólaálfi. Ég hef lengi ætlað að sauma hann í eitthvað, og gerði það augljósa í gær og setti hann í viskastykki, sem ég keypti í Bakgarðinum hjá Jólahúsinu í Eyjafirði í sumar eða fyrrasumar.

Hann saumaðist vel út, en ég fór tvisvar yfir skeggið og hjartað til að hylja rendurnar í efninu.

 

laugardagur, 17. desember 2022

Demantamálun

Í sumar kom ég við í Freistingasjoppunni á Selfossi eins og ég geri oft, og á leið út úr búðinni rak ég augun í litlar pakkningar af demantamáluðum jólaref, kíkti á þær en fór svo bara út í bíl. Sneri samt við þegar ég var búin að hugsa málið aðeins, þetta var hræódýrt, á hálfvirði,  og ég ákvað að eiga þetta í handraðanum ef ske kynni að ömmustelpurnar hefðu einhvern tíma gaman að þessu. 

Einverju sinni í haust var sú yngsta, 5 ára, í pössun hjá mér, og ég sýndi henni þetta og varð hún strax mjög áhugasöm. Systir hennar, 7 ára, var líka mjög dugleg með sinn ref, og eftir 3-4 pössunarheimsóknir kláraðist refurinn.

Sú þriðja, 7 ára, vann líka við sinn ref af miklum áhuga. Hún dæsti oft þegar við vorum að byrja á þessu tvær saman og sagði: “Þetta er svo gaman….það er svo gaman að gera þetta með þér, amma”.  Mesta fjörið var þegar þær voru allar þrjár saman, en afköstin kannski ekki eins mikil þá. En allar myndirnar kláruðust í tæka tíð í desember.

Svo sat ég alltaf með þeim og demantamálaði sjálf. Ég mátti til með að prófa þetta líka og fékk mér þessi spjöld í Fjarðarkaupum.

Þessar Hello Kitty lyklakippur sá ég svo í Fjarðarkaupum og líka einhyrningakippurnar. Báðar hafa líka steina aftan á.

Nú á ég smá lager af lyklakippum, t.d. sæhestakippur sem sú yngsta bað mig að kaupa þegar hún frétti að þær væru til. Keypti líka litla prinsessulímmiða til að steina. Hlakka til að vera með þeim í þessu áfram.

Þegar ég keypti jólarefina í sumar greip ég líka með mér þennan jólasvein sem er 24x34 cm. Töluverð vinna að klára hann, var mest að vinna í honum þegar þær voru líka. Þeim fannst þetta ganga heldur hægt hjá mér, en voru mjög hvetjandi: “Amma, þú klárar þetta örugglega fyrir jól”. Og það gerði ég, eiginmaðurinn greip meira að segja í þetta stundum, og nú er þessi gamaldags jólasveinamynd búin, vantar bara svartan ramma.

 

miðvikudagur, 14. desember 2022

Vetrarboði


 Fyrir nokkru prjónaði ég sjalið Vetrarboða úr bókinni hennar Auðar Bjartar, Sjöl og teppi, eins báðu megin. Alveg sérlega gaman að prjóna það og líka að nota. Það er ekki djúpt og nógu langt til að þægilegt sé að nota það sem trefil, en þannig nota ég sjölin mín. Svo er auðvitað hvorki rétta né ranga á því, eins báðu megin.

Ljósa garnið er merino fingering frá Vatnsnes yarn og heitir liturinn Frosti. Það dökka er Ahoi frá Rohrspatz&Wollmeise, sami grófleiki og hitt, keypt í Handprjóni. Ljósa garnið var akkúrat nóg í verkefnið, afgangurinn af því vó 3,5 grömm, en hespan var 100 gr. Dökka garnið kemur hins vegar í 150 gr hespum, svo ekkert stress þar. Prjónarnir voru nr. 4.

fimmtudagur, 1. desember 2022

Jólahúfur

Fyrir fjórum árum prjónaði ég svona jólahúfur á eldri ömmustelpurnar tvær sem þá voru þriggja ára. Önnur þeirra var enn að nota sína húfu i fyrra, þá sex ára, og tók hana varla af sér allan desember, í orðsins fyllstu merkingu. Ég frétti það of seint fyrir jólin í fyrra að bróður hennar langaði í svona húfu líka, svo ég byrjaði bara strax í janúar að prjóna á hann fyrir þessi jól og aðra stærri á hana, og svo vildu hinar ömmustelpurnar tvær auðvitað fá líka. Þær eru því komnar í notkun fyrir nokkru.


 Garnið er Nepal frá Drops, keypt í Gallery Spuna i Hamraborg, og uppskriftin er HÉR.

laugardagur, 26. nóvember 2022

Pennaveski

Ég sá þetta regnbogaefni í Bóthildi um daginn og keypti smá með það í huga að gera eitthvað handa ömmustelpunum mínum úr því, og svo fékk ég Hvolpasveitarefni handa þeim yngsta. Ég var svo sem ekki búina að útfæra þetta neitt nánar í huganum, nema að ég ætlaði að sauma nöfnin þeirra allra í veskin.

Stelpurnar voru allar staddar hér í heimsókn og ráku augun í efnið inni í saumaherberginu mínu og komust að því að ég ætlaði að sauma pennaveski eða buddu handa þeim. Þær fóru á flug og höfðu alveg skoðanir á því hvað þær vildu. Tvær vildu hafa kisu á sínum, ein vildi slaufu og nafnið sitt með útlínustöfum. Mér tókst að uppfylla óskirnar að mestu leyti og þetta varð útkoman. Efnið í veski stráksins þurfti ekki neinn skrautsaum og setti ég bara nafnið hans á það.



 Svo keypti ég smá dót, skriffæri og þess háttar og setti í þau. Allir kátir með þetta.

fimmtudagur, 17. nóvember 2022

Fleiri litlir púðar


 Um daginn sýndi ég hérna púða sem varð til af sérstakri ástæðu, og lét ég hann í dúkkuvagninn á heimilinu. Fljótlega kom í ljós það sem ég bjóst við, að einn púði er ekki nóg fyrir þrjár stelpur og þrjár dúkkur, svo ég bætti þessum við og hafði þá í sama stíl.

sunnudagur, 13. nóvember 2022

Dúkkuföt



Mig langaði svo að sauma eitthvað um daginn svo ég stakk hendinni ofan í afklippukassann og valdi efni í þessa dúkkusamfestinga og saumaði. Sniðið er úr bókinni Sy og strikk dukkeklær eftir Anne Grethe Gaaserud. Ég notaði svo til eingöngu overlockvélina í verkefnið og lokaði að aftan með smellu.

föstudagur, 4. nóvember 2022

Handþurrkur

Þegar almennar sóttvarnir hófust fyrir bráðum þremur árum vegna covid og handþvottur og sprittnotkun voru nauðsynlegar varúðarráðstafanir reyndi maður að sjálfsögðu að hafa þetta í lagi á heimilinu líka. Ég tíndi til niðurklippt handklæði sem ég hafði faldað og rúllaði þeim saman og setti í körfu á baðvaskinn. Þannig gátu allir tekið sér hreint handklæði eftir handþvott ef þeir vildu. En þótt þessi tími sé liðinn þá mun ég ekki snúa til baka til þess þegar allir þurrkuðu sér á sama handklæðinu, það er hægt að velja þetta líka. Nú er ég búin að endurnýja tuskurnar, keypti hræódýr þvottastykki í Rúmfó og bróderaði í eitt hornið á þeim öllum. 

Barnabörnin hafa alltaf valið sér tusku og muna þá hver á hvað hverju sinni, og ein þeirra var úr bleiku handklæði sem ég átti sem stelpa, og var með stafnum mínum sem mamma hafði saumað á það. Yngsta ömmustelpan hélt sérstaklega upp á þessa. Þess vegna datt mér í hug að merkja þeim öllum eina handþurrku með upphafsstafnum í nafni þeirra.


Stafina fann ég í Quick Font forritinu, og ég notaði minnsta segulrammann, 10x10 cm, í verkefnið. Nauðsynlegt að eiga þá í öllum stærðum. Munstrin eru öll í Sapphire 85 útsaumsvélinni minni, og var þetta upplagt tækifæri til að prófa að sauma minnstu munstrin í henni.
 

sunnudagur, 23. október 2022

Aðalvík nr.5

Edit: Fyrri peysan fannst🙂

Þetta er ekki sama rauða Aðalvíkin og ég sýni hér neðar í blogginu, heldur ný peysa. Ömmustelpan sem hin var prjónuð á var ekki búin að eiga peysuna nema í tæpan sólarhring þegar hún hvarf af snaga í skólanum hennar. Síðan er liðinn einn og hálfur mánuður, og hefur ekkert til peysunnar spurst.

Amman tók uppskriftina aftur fram og gerði nýja peysu fyrir 7 ára skólastelpuna sína þegar þrjár vikur voru liðnar frá hvarfinu. Fyrri peysan var merkt með nafninu hennar, saumuðu á taumiða innan á stroffið.


 En þetta er sem sagt Aðalvík, stærð 6-8 ára, prjónuð úr Drops merino extra fine frá Gallery Spuna á prjóna nr. 4.

miðvikudagur, 19. október 2022

Sumarboði

Sumarboði er úr nýju bókinni hennar Auðar Bjartar, Sjöl og teppi eins báðum megin, sjalið sem er framan á bókarkápunni. Ég byrjaði á því um leið og bókin kom út og eru því nokkrar vikur síðan ég lauk því. Var alltaf að vandræðast með myndatökuna, litirnir aldrei alveg réttir og erfitt að sýna hvernig sjalið lítur út því það er svo langt. Ég er mjög ánægð með það, skemmtilegt að prjóna það, en maður þarf að einbeita sér alveg við prjónaskapinn, þetta var ekki sjónvarpsprjón. Ég nota sjöl alltaf eins og trefla og þess vegna er mjög þægilegt að eiga eitt af þessu tagi.


 Garnið er frá Rohrspatz & Wollmeise, keypt í Handprjóni á garngöngunni í haust, og prjónarnir nr. 4.

miðvikudagur, 5. október 2022

Nálapúði


 Ég fór á sýningu á verkum Karólínu Guðmundsdóttur vefara í Árbæjarsafni í sumar. Mjög fróðleg og flott sýning. Nú er búið að endurgera nokkur útsaumsmunstur sem hún gerði og setja í pakkningar til sölu. Mig langar að eignast eina af þeim, en þessi litli nálapúði er líka með munstri sem tekinn er úr stærra verki eftir hana og birtist í nýjasta tölublaði Hugar og handar. Ég átti gamlan ullarjafa og nóg af kambgarni og saumaði hann. Átti líka ullarefni í bak og ullartróð. Hann er ekki nema 11x11 sm að stærð.

mánudagur, 3. október 2022

Handklæði merkt

Gömlu sundhandklæðin mín tvö voru orðin svo úr sér gengin, að ég lagði þau til hliðar um daginn og keypti ný. Þessi gömlu voru ekki sérlega falleg og þess vegna notuð í sundið, enginn hefði tekið þau í misgripum.

Mér þótti nú öruggara að merkja þau nýju, enda algeng týpa sem ég keypti. Mamma og tengdamamma merktu öll sín handklæði, eins og myndarlegar húsmæður gerðu hér áður, og þetta gerðu þær ýmist í höndum eða með venjulegri saumavél. Þær hefðu elskað að eiga græjuna sem ég á í dag til að merkja með.


 Ég skrapp í Pfaff um daginn og keypti mér járnramma (Metal Hoop) með sterkum seglum til að festa efnið með á rammann. Ég átti minnsta rammann en fékk mér 24x15 rammann líka, þann stærsta. Hann er upplagður í svona verkefni. Stafinn á myndinni hér að ofan fann ég í Premier+ Intro forritinu mínu sem fylgdi gömlu útsaumsvélinni. Stafina þrjá á hinu handklæðinu fékk ég úr litlu forriti sem fylgir hinu og heitir það Quick Font, en með því get ég tekið hvaða leturgerð sem er í tölvunni minni og breytt henni í útsaumsstafi í ýmsum útgáfum. 

 Ég á örugglega eftir að ráðast á handklæðabunkann og merkja fleiri, svona til gamans.

föstudagur, 16. september 2022

Lítið teppi með kaleidoscope munstri

Mér finnst alltaf jafn nærandi að sauma afgangateppi, og vinna úr afgöngum almennt. Ég sá svona teppi einhvers staðar á netinu í vor og langaði að sauma svipað, sérstaklega af því að þessi blokk er ein af mínum uppáhalds. Svo litlu afgangarnir voru dregnir fram einu sinni enn, og hafist handa. Mörg þessara efna eru áratuga gömul svo það er eins og að ferðast aftur í tímann að skoða bútana.

Ég bjó blokkina til í EQ8 forritinu, fann einhvern veginn út úr því, og sneið svo alla 576 þríhyrningana eftir skapalóni úr pappa sem ég prentaði út, strikaði i kring með blýanti og klippti út með skærum. Þarna kláruðust sum efni alveg. Reglan er sú að skipta efnunum í ljós og dökk, og mega dökkar eða ljósar hliðar aldrei liggja saman. Þetta gekk upp og var skemmtilegt að gera. 


 Og merkið fór á sinn stað, saumað í útsaumsvélinni minni góðu.  Hver blokk er 23x23 cm og allt teppið ca. 92x92 cm.

mánudagur, 12. september 2022

Skæri og mús

Hér eru tvær litlar útsaumsmyndir sem mig langaði til af vissum ástæðum að yrðu að einhverju en ekki bara prufur ofan í skúffu. Skæramunstrið var nefnilega fyrsta útsaumsmunstrið sem ég prófaði að kaupa á netinu. Það var að vísu ókeypis, en mér tókst þetta. Síðan hef ég keypt eða hlaðið niður nokkrum í viðbót.

Þarna á skæramottan heima því mér finnst svo þægilegt að leggja skærin frá mér á sjálfa vélina, því harpan á Epic vélinni er svo stór. Ég set oft títuprjónasegulinn eða klemmuboxið þarna líka.


 Hitt munstrið sem mig langaði að búa eitthvað til úr var þessi mús. Sapphire 85 útsaumsvélin mín er nettengd og getur tekið við munstrum úr tölvunni gegnum netið. Þetta var fyrsta munstrið sem ég reyndi að senda úr tölvunni í vélina og það tókst í fyrstu tilraun!  Úr varð þessi dúkkupúði, set hann í dúkkuvagninn.

föstudagur, 9. september 2022

Aðalvík nr. 3 og 4

Þá er ég búin að prjóna eftir uppskriftinni Aðalvík frá Ömmu Loppu á öll barnabörnin fjögur.

Systurnar sem fengu þessar völdu sjálfar litina sem þær vildu hafa á peysunum. Þessi rauða er í stærð fyrir 6-8 ára, en sjálf er daman 7 ára.

Sú yngri valdi sér bleikt og hennar peysa er í stærð fyrir fimm ára, enda er hún fimm ára.

Garnið er eins og áður Drops merino extra fine, keypt í Gallery Spuna. Prjónað á prjóna nr. 4 og 3,5.


 

þriðjudagur, 30. ágúst 2022

Pennaveski


Ég er mikið fyrir að skrifa hjá mér alls konar hluti í ýmsar bækur, hef t.d. haldið dagbók núna í rúm 13 ár þar sem ég skrifa niður það helsta sem hefur borið við þann daginn. Svo á ég skissubækur, skipulagsbækur o.fl. 

En stundum þarf að leita að penna eða blýanti til að skrifa með, pínu vesen alltaf.


Ég rakst á þessi frábæru pennaveski á Instagram um daginn og fann svo uppskrift á Pinterest.


Teygjunni er smeygt yfir bókarkápuna, skriffærum skutlað í veskið og svo fylgja þau bara bókinni. Snilld!!



Þetta var svo skemmtilegt verkefni að ég gat ekki hætt. Þetta hefði ég viljað hafa þegar ég var í kennslu, mjög kennaravænt.

þriðjudagur, 23. ágúst 2022

Teppi heklað úr afgöngum


Eitt af því óhjákvæmilega sem fylgir prjónaskap er að afgangar safnast fyrir. Ég kaupi reyndar aldrei garn “til að eiga.” Kaupi bara í ákveðin verkefni og skila heilum dokkum ef ég hef keypt of mikið. Eina undantekningin er ef um handlitað garn er að ræða. Ég kaupi það einstaka sinnum ef mér finnst það fallegt og veit að ég get notað það. Þessar hespur eru þó teljandi á fingrum annarrar handar (næstum).


Eins og einhverjir vita kaupi ég mikið af Drops merino extra fine í barnaföt þar sem gert er ráð fyrir grófleika fyrir prjóna nr. 4. Finnst það garn bara á allan hátt svo skemmtilegt. Og eftir að ég var búin að prjóna vettlingapör í alls konar litasamsetningum á barnabörnin var samt alltaf að bætast í afgangapokann og orðið erfiðara að loka skúffunni. Í sumar horfði ég á vídeó hjá Gunnlaugu Hannesdóttur á youtube, sem hannar undir nafninu gunnhann, alveg frábær vídeó fyrir handavinnufólk, þar sem hún hafði heklað afgangateppi með stuðlahekli. Ég hermdi eftir teppinu hennar, en málið var að það voru litaskipti í hverri umferð sem hefur í för með sér gífurlega frágangsvinnu.


En hún leysti það með tvöföldum kanti, sem er lokað í restina, og þar með lokast endarnir inni. Að sjálfsögðu þarf að tryggja þá með því að binda saman tvo og tvo, en að öðru leyti þarf ekkert að gera. Að sjálfsögðu er líka tímafrekt að hekla tvöfaldan kant, en skemmtilegra en endafrágangur og fallegra. Gunnlaug var svo vinsamleg að láta mig fá slóðina að myndbandi þar sem þetta er kennt.

Garnið er sem sagt Drops merino extra fine að mestu leyti, ég hreinsaði líka upp smávegis af svipuðum grófleika af öðru garni og heklaði á heklunál nr. 4. Í kantinn notaði ég hins vegar alls konar baby garn og var þá með heklunál nr. 3.  Teppið vegur 884 grömm sem samsvarar tæpum átján 50 gramma dokkum. Ég náði að hafa það ferning, ca.1,20 x 1,20.

P.s. Það er strax farið að safnast fyrir aftur af Drops merino extra fine afgöngum.