Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 2. júlí 2024

Fleiri dúkkuföt

Þessar dúkkur geta alltaf bætt við sig fötum. Mér finnst líka gaman að taka smá rispur í dúkkufatagerð, enda þurfa ömmustelpurnar að hafa úr einhverju að velja. Þessar tvær stærri eru 18” dúkkur og sú minni 14” að stærð. Ég nota tommumálin frekar því þá finn ég miklu meira úrval þegar ég leita að sniðum og uppskriftum.

Buxnasniðið á þessa litlu bjó ég nú eiginlega til sjálf, var með einhvern grunn sem passaði engan veginn þannig að ég breytti og minnkaði þangað til þetta varð sæmilegt.

Peysurnar á stærri dúkkurnar eru eftir fríum uppskriftum á Ravelry, og þá bleiku reyndi ég að hafa í stíl við hinar en þurfti að gera tvær tilraunir til að láta hana passa. Þá gulu gerði ég svo bara eftir sama grunni.


Sniðin af buxunum á stærri dúkkurnar eru hins vegar úr sniðapakka fyrir 18” dúkkur frá Kreativistine í Noregi. Hún gerir snið á fullorðna og börn, og hefur gert dúkkufatasnið í stíl við barnafatasniðin.


 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli