Heildartala yfir síðuflettingar

sunnudagur, 21. júlí 2019

Rúnni Júl


Ég varð að prófa þessa uppskrift frá knillax.is.
Ömmustelpa, sem verður fjögurra ára eftir sex daga fékk hana.
Einhvern veginn fannst mér ég verða að hafa hana aðeins við vöxt, og fitjaði því upp á fyrir 5 ára stærð.  Hún er því dálítið og stór ennþá, en verður fín á næsta ári.  
Litla daman mín er líka alveg í meðallagi, þannig að hún vex bara í hana í vetur.
 
Uppskriftin gefur manni möguleika á að prjóna aukaumferðir að aftan til að síkka peysuna, en ég sleppti þeim, enda er síddarmunurinn fínn svona.

Ég prjónaði úr Drops Merino Extra Fine. 
Elska að prjóna úr þessu garni.
Keypti það í Gallery Spuna.

fimmtudagur, 18. júlí 2019

Þríhyrningateppi


Enn einu sinni er ég búin að sauma upp úr afgangakössunum mínum.
Ég held að þetta séu ein fimm teppi sem ég hef gert bara með afgöngum, og nú er lítið eftir.
Ég hendi engu, svo afgangar hafa safnast upp í áranna rás.
En mér finnst líka gaman að sauma svona, næstum án þess að hugsa.
Nú get ég farið að snúa mér að efnunum mínum í skúffunum, sem bíða mín samanbrotin og snyrtileg.

Það stóð alltaf til að prófa að gera þríhyrningateppi úr 60° þríhyrningum, því ég á stiku til þess.
Ég skar niður allt sem var nógu stórt, og lét ljóst og dökkt skiptast á.

Það, sem ekki var nógu stórt til að verða að þríhyrningi, skar ég niður í búta sem voru 2,5 tomma á breidd og saumaði saman í bindingu.


Svo skellti ég teppinu á sætisbakið í húsbílnum, bara svo það fengi að njóta sín einhvers staðar.