Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 21. júní 2018

Halla


Margar af peysunum mínum eru frekar síðar.
Núna vantaði mig styttri peysu undir hjólajakkann og útivistarjakkann. Það veitir ekki af að vera vel klæddur þó það sé sumar.

Uppskriftin af þessari peysu heitir Halla og er í Prjónafjöri 2.
Ég notaði Karisma frá Drops í staðinn fyrir léttlopa sem gefinn er upp.

mánudagur, 18. júní 2018

Stór prjónataska

Aftur er ég búin að sauma verkefnatösku fyrir prjónaskapinn.
Nú vantaði mig stóra tösku. 
Venjulega hef ég geymt svona stór verkefni í körfum, en svona töskur eru miklu þægilegri.


Hér rúmast allt sem þarf í fullorðinspeysu.
Efnin eru gömul frá IKEA og keypti ég þau nýlega á bílskúrssölu í Borgarnesi.

mánudagur, 4. júní 2018

Bútateppi úr restum


Stundum langar mig bara að sitja við saumavélina og sauma og sauma, án þess að þurfa að hugsa of mikið.
Þess vegna tók ég fram körfu með “ruslefnum” sem ég vissi í rauninni ekki hvað ég átti að gera við. 
Þau voru mörg eldgömul, mörg ekki falleg, jólaefni, litir sem ég nota ekki og svo framvegis. Hins vegar fæ ég mig ekki til að fleygja efnum. Þannig að ég tók gamla símaskrá og skar niður ferninga úr nokkrum síðum og notaði sem pappírsundirlag til að sauma á.  Flokkaði svo í ljóst og dökkt og saumaði út í eitt.

Þegar ég var svo búin að setja vatt og bak langaði mig að stinga það líka án þess að hugsa of mikið, þannig að ég stakk það með öllum sporunum sem eru í æðislegu Husqvarna Sapphire 965Q saumavélinni minni. Ég lét bara vaða.

Meira að segja bakið er úr sömu körfu, allt notað sem hægt var að nota. Líka kanturinn.
Ég gerði teppið í vetur og ætlaði ekki að sýna það hér á blogginu, en ákvað svo að gera það.
Ekkert augnayndi, en ég skemmti mér vel á meðan ég sat við vélina.