Heildartala yfir síðuflettingar

sunnudagur, 31. maí 2009

Kjólar

Þennan kjól lauk ég við í gær. Þetta er hinn svo kallaði Egg kjóll. Maður tekur bara mál og klippir eftir þeim, krossar fingur og vonar að allt passi. Ég er nú meira fyrir að hafa snið til að fara eftir, en þetta tókst. Þetta var líka heilmikil æfing fyrir mig á overlock vélina, saumaði hann alfarið á hana, setti reyndar líninguna í hálsmálið og á ermarnar í Pfaffvélinni. Hún Þura í kórnum mínum kenndi mér þetta í síðustu messu (!!), þ.e. fyrir og eftir messu. Hér er ég að leggja síðustu hönd á Egg kjólinn.
Þetta er svo hinn kjóllinn, sem ég er að sauma. Hér er ég að sauma síðasta sauminn í Pfaff vélinni, og böndin gerði ég í henni líka. Hitt saumaði ég í Huskylock vélinni, og ætlaði að gera böndin í henni líka, keypti fót og allt, en svo passaði hann ekki.

þriðjudagur, 26. maí 2009

Dálítið á dúkkuna

Prjónaði þetta sett á dúkkuna úr uppraki af barnapeysu, sem ég hætti við. Garnið er Lanett. Liturinn er rauður, þótt hann sýnist bleikur á myndinni. Uppskriftin er úr gömlu Tinnublaði. Svo saumaði ég þessar buxur og peysu úr afgangi af efni sem ég sneið úr síðerma bol á mig til að æfa mig á overlockvélinni. Ég kom minni flík saman með glans, og svo ætlaði ég að fara að falda með þekjusaumnum, en mér tókst ekki að þræða hana rétt. Svo til að halda sönsum fór ég að gera eitthvað annað, og þá varð þetta til á dúkkuna, saumað á Pfaff vélina. Síðan þá er ég búin að horfa á myndbandið sem fylgdi vélinni, sem er miklu skýrara en leiðbeiningabæklingurinn, svo nú ætla ég að leggja til atlögu við hana á morgun.

sunnudagur, 24. maí 2009

Taskan

Verða ekki allar bútasaumskonur að sauma sér tösku? Ég gerði þessa fyrir tveimur árum.
Ég skipti út blokkunum í vösunum framan á og setti í staðinn uppáhaldsblokkirnar mínar.
Þetta er sniðið sem ég fór eftir. Ég keypti það á Keepsake Quilting.com.

þriðjudagur, 19. maí 2009

Einbandskjóllinn tilbúinn

Þá er kjóllinn tilbúinn og hann smellpassar. Mér fannst ótrúlega gaman að prjóna hann, því ég gat prjónað og prjónað, og svo er lítill frágangur á eftir.
Það er kannski orðið of hlýtt í veðri fyrir svona kjól núna, en hann bíður þá bara haustsins.
Ég notaði ekki nema 6 gráar dokkur og tæplega eina rauða.

mánudagur, 18. maí 2009

Ný saumavél - aftur (og aftur....)

Þá stendur saumaherbergið loksins undir nafni, orðið vel tæknivætt og til í hvað sem er. Var að kaupa mér overlock saumavél í fyrsta sinn á ævinni, þótt ótúlegt sé, því ég hef saumað fatnað frá 13 ára aldri. Nú er bara að læra á gripinn, búin að horfa á vídeóspólu og er að fara að lesa bæklinginn og ætla ekki að snerta hana fyrr en ég er búin að því.

miðvikudagur, 13. maí 2009

Bjálkakofi

Þetta teppi með bjálkakofamunstri, eða "log cabin"munstri, gerði ég fyrir um einu og hálfu ári síðan.
Þetta er eitt af þeim klassísku, amerísku bútasaumsmunstrum, sem hafa alltaf heillað mig. Ég lét EQ6 forritið um að raða bútunum upp fyrir mig, það kemur með alls konar útfærslur á því.

Ég stakk í saumförin, og hafði svo krákustíg í rauða hluta bútanna, en notaði bylgjumunstur úr Husqvarnasaumavélinni minni, sem ég átti þá, í ljósa hlutann.

Ég hef notað ýmsar aðferðir við að sauma bjálkakofa. Fyrst gerði ég það þannig að ég hafði hverja ræmu eins langa og hún var, og klippti hana til þegar ég var búin að sauma. Eftir að ég kynntist pappírssaumi fór ég að sauma með honum, og það verður mjög nákvæmt þannig og ekkert skakkt. Svo þegar ég gerði þetta teppi notaði ég stiku, sem kemur frá Marti Mitchell, þar sem hún er með tvær breiddir af ræmum sem maður getur valið um. Svo er kvarði sem sýnir lengd hvers einasta búts, þannig að maður sker fyrirfram í nákvæmar lengdir og lætur allt passa þegar saumað er saman. Stikunni fylgir líka bók, og á ég eftir að prófa ýmislegt úr henni, t.d. að fá bylgjuhreyfingar í munstrið.




sunnudagur, 10. maí 2009

Á prjónunum

Ég prjónaði þessi dúkkuföt um helgina úr afgangsgarni frá prinsateppinu "hinu fyrra". Uppskriftin er úr Mayflower bæklingi. Svo er ég með einbandskjólinn "Miðju" á prjónunum núna. Ég er komin upp að höndum, þarf að fitja upp á ermum næst. Ég var lengi að ákveða hverning ég ætti að hafa kjólinn, en komst svo að þessari niðurstöðu, sem sést á myndinni. Ég hef séð tvær konur í svona einbandskjólum, mjög ólíkum, en báðum fallegum.
Svo gríp ég alltaf annað slagið í prinsateppið "hið síðara". Er að verða búin með helminginn af ystu blúndunni, en ég er ekkert að flýta mér með þetta, fínt að geta tekið í þetta þegar ég hef ekkert annað. Maður verður jú alltaf að hafa eitthvað á prjónunum!

fimmtudagur, 7. maí 2009

Maí

Þá er þessi vorlega maí mynd komin á vegginn í borðkróknum í eldhúsinu. Það tók mig dálítinn tíma að gera hana, dálítið mikið "pillerí" í henni, en hún er öll gerð í saumavélinni, líka stafirnir.

sunnudagur, 3. maí 2009

Nálapúði

Ég hef gert nokkra svona nálapúða, en gefið þá alla. Þennan átti ég saumaðan, og ákvað að ganga frá honum í dag og eiga hann sjálf.
Hann er saumaður með kambgarni í sama java og riddarateppið, með fléttusaum, eða gamla krosssaumnum.
Uppskriftina fékk ég í 4. tölublaði Húsfreyjunnar árið 2004. Þar eru líka tvö önnur munstur.