Heildartala yfir síðuflettingar

laugardagur, 9. desember 2017

Lítill

Þetta er húfan Lítill úr Leikskólafötum. 

Ég prjónaði úr Drops Merino extra fine. 

Liturinn er miklu fjólublárri en á myndinni. Húfan passar sérlega vel á litla kolla.

mánudagur, 4. desember 2017

Klukka í saumaherbergið


Ég keypti pakka með efni í þessa klukku í Hannyrðabúðinni á Selfossi fyrir u.þ.b. þremur árum.

Hún var búin að liggja hjá mér að mestu búin í dálítinn tíma, vantaði meira af einum lit og svo finnst mér alltaf svo leiðinlegt að sauma útlínurnar í krosssaumi. En ég fann garnið sem vantaði, og þrælaði mér í afturstinginn.

Svo var hún römmuð inn í Tempó í Kópavogi og hangir nú á vegg í saumaherberginu.

laugardagur, 18. nóvember 2017

Verkefnatöskur


Nú sér maður út um allt á netinu að prjónafólk saumar sér verkefnatöskur. Þá er hver taska notuð undir eitt verkefni, og eru þá jafn margar töskur í gangi og verkefnin eru mörg.

Ég hef nú alltaf látið mér nægja körfur, en þetta er miklu þægilegra svona.

Ég grísaði nú bara á stærðina á þeirri fyrri, en var svo heppin að venjulegt prjónablað kemst auðveldlega fyrir líka.

Þá saumaði ég aðra í sömu stærð en breytti hlutföllunum á efnunum aðeins og setti blúndu.


föstudagur, 17. nóvember 2017

Billebælue

Uppskriftin af þessum sætu kanínulambhúshettum er í Klompelompe- strikk året rundt.
Þær eru prjónaðar úr tvöföldu garni, annars vegar úr Klompelompe Merinoull og hins vegar Lanett. Í uppskriftinni er gert ráð fyrir að notuð sé Klompelompe Tynn Merinoull í fínni þráðinn, en þar sem ég prjónaði þetta rétt áður en hægt var að fá það garn hér, notað ég Lanett. Það takmarkaði litavalið nokkuð, þar sem þetta voru einu litirnir sem pössuðu saman úr báðum tegundum, en ég er bara ánægð með litavalið. 
Hér eru svo dúllurnar mínar þrjár með lambhúshetturnar❤️❤️❤️

föstudagur, 3. nóvember 2017

Lítil jólasveinahúfa

Minnsta ömmustelpan mín, sem er 6 mánaða, fékk líka jólasveinahúfu.
Uppskriftin er úr Klompelompe, strikk året rundt.
Stærðin er á 6-12 mánaða.

mánudagur, 23. október 2017

Jólasveinahúfur


Ég prjónaði jólasveinahúfur á eldri ömmustelpurnar mínar tvær í sumar.  
Nú er ég líka búin að gera dúska og festa þá á, svo nú mega jólin koma.

Stelpurnar eru tveggja ára, og stærðin er á 2-5 ára.
Garnið heitir Nepal frá Drops, keypt í Gallery Spuna.
Uppskriftin er HÉR.

fimmtudagur, 19. október 2017

Alise finjakke


Þessar sparipeysur prjónaði ég á tvær eldri ömmustelpurnar mínar. 
Mér finnast þær passa vel með kjólum.

Bakstykkið finnst mér alveg æðislegt.
Vegna þess að þær eru bara tveggja ára valdi ég bómullargarn sem má þvo í vél á háum hita.

Uppskriftin er úr Klompelompe, strikk året rundt, þriðju stóru bókinni frá þeim.
Garnið, sem ég notaði er Mandarin petit, og stærðin er á tveggja ára.

miðvikudagur, 4. október 2017

Krosssaumsmynd

Ég byrjaði að sauma þessa mynd fyrir átján árum og var alls ekki lengi að klára hana, kannski eitt ár.
Það var mjög gaman að sauma hana.
En svo fór hún ofan í skúffu, og ég kom mér aldrei að því að fara með hana í innrömmun.
Öll smáatriðin í myndinni eru bara dásamleg. Spólur í öllum hornum.
En...nú er ég loksins búin að því, eftir að hafa þvegið hana og pressað. 
Hún fer upp á vegg í saumaherberginu.

miðvikudagur, 27. september 2017

Little Sister's Dress

Ég hef átt uppskriftina að þessum kjól í mörg ár, og prjónaði hann á litla frænku fyrir nokkrum árum.
Og nú var röðin komin að ömmustelpunum þremur. Stærri kjólarnir eru á tveggja ára og sá litli á eins árs.
Ég hafði þá alla eins, því ég á svo erfitt með að gera upp á milli í litum, nema ég sé beðin um ákveðna liti.
Kjóllinn er prjónaður ofanfrá og niður.
Ég notaði Mandarin petit og uppskriftin er ókeypis á Ravelry.