Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 3. september 2020

Sokkar


Nú á ég nýja ullarsokka fyrir veturinn.


Þeir eru mjög einfaldir, og studdist ég við uppskrift sem heitir Vanilla socks.
Prjónastærð er 2,25.


Garnið keypti ég hjá Kristínu í Vatnsnesi, í gróðurhúsi þeirra hjóna á Laugabakka.
Frúin keypti garn og bóndinn grænmeti.
Reyndar kom ég þangað tvisvar í sumar.


mánudagur, 31. ágúst 2020

David jakke


Litli sonarsonurinn, sem verður eins árs eftir fjóra daga, fékk þessa peysu. Hann vantaði létta gollu.


Það var alltaf planið að prjóna þessa uppskrift einhverntíma svo ég skellti mér bara í hana núna.
Peysan er prjónuð ofan frá og niður, fram og til baka, sem þýðir að frágangur var sama og enginn. 


Ég prjónaði úr Klompelompe tynn merinoull úr Rokku á prjóna 3.
Stærðin er á eins og hálfs árs.
Uppskriftin er úr Klompelompes sommerbarn.

föstudagur, 28. ágúst 2020

Peysan Mist í þríriti


Tvær ömmustelpnanna minna, systurnar, báðu mig í sumar að prjóna á sig bleikar peysur.
Ömmuhjartað var mjög stolt yfir að þær skyldu biðja um þetta sjálfar, og leyfði ég þeim sjálfum að velja liti.


Akkúrat á þessum tímapunkti var að koma út uppskrift hjá Prjónaklúbbnum að peysunni Mist, og meira að segja var blásið til samprjóns. Ég skellti mér í það, og prjónaði þrjár peysur. Þriðja ömmustelpan varð auðvitað að vera með og fékk hún bláa, enda á hún fjórar peysur frá mér í bleiku, sem hún er að nota.


Þarna eru þær komnar í peysurnar, staddar í afmæli einnar þeirra.
Peysurnar eru prjónaðar ofan frá og niður, og finnst mér það snilld þegar maður prjónar á börn. Ég gat mátað sídd á axlastykki, bol og ermum á meðan þær voru í vinnslu og mátaði oft. Ljósbleiku peysuna prjónaði ég reyndar tvisvar, var búin en fannst axlastykkið of sítt, og rakti upp bol og ermar, stytti axlastykkið og prjónaði hitt aftur. Þá var ég líka ánægð.


Ég á reyndar ekkert í barninu á þessari mynd, heldur voru myndin af því í peysu og mynd af mínum peysum dregnar út í samprjóninu, og mátti ég velja mér uppskrift af síðunni þeirra.

Ég prjónaði peysurnar úr Drops cotton merino sem ég held mikið upp á.
Stærðirnar voru á 4 og 6 ára, en stelpurnar eru 3 og 5 ára.

miðvikudagur, 12. ágúst 2020

Heklaðar hreinsiskífur


Einhvern tíma í sumar þegar ég hafði ekkert á prjónunum, tók ég alla litla hnykla úr bómullargarni og heklaði hreinsiskifur.


Ég notaði samt bara hnykla yfir ákveðinni þyngd þannig að ég þyrfti ekki að skeyta saman endum.


Samtals heklaði ég úr 247 grömmum af garni sem samsvarar tæpum 5 dokkum.
Hér er linkur í uppskriftina.

þriðjudagur, 14. júlí 2020

Kjólar

  
Ég sauma mér föt öðru hvoru og hef alltaf gert. 
Það mætti samt halda að ég teldi það ekki til handavinnu því mér dettur oft ekki einu sinni í hug að sýna það hér eins og aðra handavinnu sem ég geri.


En ég ætla að bæta úr því og sýna þessa tvo kjóla sem ég saumaði í vetur og vor.
Sá svarti er mjög paktískur að skella sér í, og líka fínn undir kimono.
Munstraði kjóllinn er sumarkjóllinn í ár.
Báðir eru eftir sama sniði, Onion 2035, sem er uppáhalds hjá mér, og er ég búin að gera breytingar á berustykkinu til að hann passi betur.
Efnin eru bæði úr Föndru.

þriðjudagur, 7. júlí 2020

Saumað á Baby Born


Ég hef nú meira verið fyrir það að prjóna dúkkuföt en að sauma þau, þótt það sé ólikt fljótlegra.
En nóg á ég af sniðunum, þannig að það er fínt að gera þetta í bland.


Í vor saumaði ég þessar flíkur fyrir ömmustelpurnar þrjár og gaf þeim þegar sú yngsta átti afmæli, gef alltaf öllum eitthvað smá þegar ein fyllir ár.


Sniðið af samfellunni og tjullpilsinu eru frá Norlin, en hringskorna pilsið er úr bókinni 
Sy & strikk dukkeklær eftir Anne Grethe Gaaserud, sem vinkona mín keypti fyrir mig í Ósló.


Efnin eru öll úr Föndru.

miðvikudagur, 10. júní 2020

Peysan Frost í mini útgáfu


Tengdadóttur mína langaði í græna peysu á soninn.
Ég fann lopapeysu á netinu sem var í grænum litum og sýndi henni, og þetta var nákvæmlega peysan sem hana langaði í.
En ekki úr lopa.


Ég þurfti að aðlaga munstrið að ungbarnagarni.
Það tókst ótrúlega vel. Ég studdist við ungbarnapeysu úr Klompelompebók til að gera mér grein fyrir lykkjufjölda, og svo gekk munsturbekkurinn upp í minnstu stærðinni á lopapeysumunstrinu. Sleppti öllum umferðum sem munstrið leyfði, og lykkjufjöldinn í lokin var alveg passlegur.
Það eina sem olli mér verulegum heilabrotum var að finna út nákvæman lykkjufjölda á peysu sem var prjónuð ofan frá og niður og aðlaga að peysu sem er prjónuð neðanfrá og upp. En allt stemmdi.


Húfuuppskriftin er úr Prjónablaðinu Ýr nr. 66, nema munstrið er það sama og í peysunni.
Lopapeysumunstrið er Frost úr Lopa 29.
Ég prjónaði úr Rauma babygarni frá Rokku á prjóna nr. 3.
Stærðin er á eins árs.

sunnudagur, 10. maí 2020

Billebælue


Þá er litli ömmustrákurinn búinn að fá sína kanínulambhúshettu eins og ömmustelpurnar.
Uppskriftin er í Klompelompe strikk året rundt og heitir Billebælue.
Stærðin er á 1-2 ára, og ég prjónaði úr Klompelompes merino ull og tynn merino ull.

sunnudagur, 3. maí 2020

Prjónaðir bangsar og svefnpokar


Í þessum faraldri, sem nú geysar, hef ég ekki séð barnabörnin í tvo mánuði.
Hugsa samt stanslaust um þau og finnst það næstum óbærilegt að sjá þau ekki nema á skjánum.


Þess vegna reyni ég að finna leiðir til að gleðja þau.
Þannig urðu þessir bangsar til.
Uppskriftin er af síðu Sjúkrabílabangsa á fb.
Ég notaði afganga af Drops merino extra fine að mestu og prjóna nr. 4.


Svo kíkti ég á Pinterst og fékk þar hugmyndina af svefnpokunum.
Mældi og sneið eftir stærð bangsanna.
Efnin i þeim eru öll frá Panduro.
Þeir eru saumaðir með vatti og stungnir, og tróð í koddum.


Svo útbjó ég pakka og hengdi á útihurðir á heimilum þeirra.