Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 26. júní 2019

Önnur Hjartapeysa


Eins og alþjóð veit þá á ég þrjár ömmustelpur. 
Tvær þær eldri eru hér um bil jafn gamlar, fæddar með þriggja vikna millibili (upp á dag, fæddust báðar um kvöld), og verða fjögurra ára í sumar.
Sú þriðja er fædd 2017 og er tveggja ára frá því í maí.
Fyrst eftir að þær eldri fæddust gerði ég allt eins á þær, kannski í mismunandi litum, en flest sambærilegt.
Nú fer ég meira eftir því hvers foreldrarnir óska, prjóna á aðra þeirra og ef hina langar í eins, þá er ekkert annað en sjálfsagt að prjóna líka á hana..
 

Ég prjónaði hjartapeysu á aðra þeirra í vor. Hin fékk að máta, og svo óskaði hún eftir eins peysu, og amma prjónaði hana.
 

Og hér er daman komin í peysuna sína, og finnst mér hún mjög fín í henni.
Stærðin er á 4 ára, garnið Lanett og prjónastærðin 3,0.
Uppskriftin er úr Prjónað af ást.

laugardagur, 15. júní 2019

Skæri


Ég hef alltaf átt góð skæri, ekki of mörg, bara vönduð og þau sem ég þarf.
Ég þurfti ekki að kaupa þessi tvö, mér finnst bara þetta nýja útlit á skærum svo rosalega flott.
Hins vegar eru þau fanta góð, blaðið er rifflað og það er eins og að klippa vatn að nota þau.
 Þau koma frá Karen Kay Buckley, og ég pantaði þau af Drop, sem áður hét Massdrop.
 

miðvikudagur, 29. maí 2019

Blómavettlingar


Uppskriftina af þessum vettlingum er ég búin að eiga í mörg ár.
Þeir eru prjónaðir úr kambgarni á prjóna nr.2.
Ég á töluvert litaúrval af kambgarnsafgöngum, svo ég þurfti bara að kaupa dökkblátt í aðallitinn.
Í staðinn fyrir að nota grænt í laufblöðin eins og ég hef oftast séð, þá notaði ég gráa liti.
Ég er frekar löt að prjóna vettlinga, en geri það samt öðru hvoru.þriðjudagur, 21. maí 2019

Northeasterly afgangateppi

  
Ég er mikið fyrir að nýta vel afganga, og hef búið til fullt af teppum, bæði prjónuðum og saumuðum, bara úr afgöngum.
Uppskriftin að þessu fæst á Ravelry, og snilldin við hana er sú að renningarnir eru prjónaðir saman jafnóðum.


Ég notaði litla hnykla af ungbarnagarni sem höfðu safnast fyrir.  Litirnir þurfa að passa nokkkuð vel saman, það gekk ekki að hafa t.d. rautt með þessum litum.  Gæti trúað að sprengt garn  í ýmsum litum kæmi best út í þessari uppskrift.
Ég prjónaði þangað til litlu hnyklarnir voru búnir, og þetta varð svona þokkalegt dúkkuteppi.

föstudagur, 17. maí 2019

Dalía litla, samfella


Uppskriftin að þessari samfellu er í bókinni Prjónað af ást.
 

Ég prjónaði úr Klompelompe tynn merinoull, og stærðin er á 6 mánaða.
Mjög gaman að prjóna hana, og er munstrið það sama og í Dalíukjólnum. 


miðvikudagur, 15. maí 2019

Púði


Kvöld eitt, fyrir skömmu, greip ég með mér gamalt bútasaumsblað til að líta í uppi í rúmi áður en ég fór að sofa.
Þar var uppskrift að þessum púða, sem ég hafði alltaf ætlað að sauma, en var búin að gleyma.
Ég vatt mér í að byrja á honum strax næsta morgun.
Ég hef prófað ýmsar aðferðir við applíkeringu, og núna notaði ég Steam-A-Seam til að líma niður með.  Fékk það í jólagjöf um þar síðustu jól og hafði aldrei prófað að nota það.  Síðan saumaði ég niður í vél með tunguspori..

Munstrið heitir Gardening Angel Pillow, og er úr hefti sem heitir Quilts of Thimble Creek.

þriðjudagur, 23. apríl 2019

Hjartapeysa


Þetta er Hjartapeysa úr Prjónað af ást.
  Hún er á ömmustelpu, sem vill helst vera í einhverju bleiku með hjörtum! 


Stærðin er á fjögurra ára og garnið er Lanett frá Sandnes. 


Ég heklaði líka takka á listann þótt það væri ekki í uppskriftinni, til að styrkja hann, því garðaprjón er svo teygjanlegt. 

miðvikudagur, 10. apríl 2019

Dalíukjóll


Þetta er kjóll á eina ömmustelpuna, sem verður fjögurra ára í júlí. Hún er kjólastelpa, vill helst alltaf vera í kjól.

Uppskriftin er úr Prjónað af ást, og garnið heitir Drops Cotton Merino, keypt í Gallery Spuna.
Það er blanda af ull og bómull, og mér skilst að það dugi mjög vel í svona leikskólaföt. Ég sá flík í búðinni sem búið var að marg þvo, og það sá varla á henni.

sunnudagur, 24. mars 2019

Fiðrildi og fugl


Ég er smám saman að prófa munstrin í útsaumsvélinni.
Ég læri af því, og núna lærði ég til dæmis að halda áfram eftir að tvinninn slitnaði án þess að ég tæki eftir því strax.  Þá þarf að bakka með sporin, og byrja aftur á réttum stað.  

Ytra byrðið er afgangur af gardínum sem voru hér í húsinu þegar við keyptum það. Ég var áður búin að sauma fjóra innkaupapoka úr þeim, og þetta var pínulítill afgangur.  Að innan er vattstungið bómullarefni.
Og að sjálfsögðu hefur þessi taska fengið hlutverk.
+