Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 22. maí 2017

Heimferðarsett á ömmustelpu

Eins og komið hefur fram á ég þrjár ömmustelpur, og sú yngsta fæddist þann 7. maí s.l.
Þetta sett prjónaði ég á hana.
 Uppskriftin er úr Klompelompe bókunum, en hjálmhúfan úr bókinni Babystrik på pinde 3.
Garnið heitir Drops baby merino, keypt í Gallery Spuna í Grindavík.
❤️❤️❤️

föstudagur, 19. maí 2017

Swoon blokkir

Mig vantaði lítið teppi á vegg í svefnherberginu, og rakst þá á myndir af þessari blokk víða á netinu.
Þetta heitir Swoon block, en ég veit svo sem ekkert meira um hana, en hún virðist hafa verið viðfangsefni í einhvers konar quilt along eða CAL á netinu.
 
Ég teiknaði hana upp í EQ7, og saumaði með pappírssaum.
Fyrst stakk ég bara í saumför og ætlaði að láta það duga, en mér finnst teppið mikli fallegra meira stungið.

þriðjudagur, 16. maí 2017

Heimferðarsett á lítinn frænda

Þetta heimferðarsett prjónaði ég á lítinn frænda, son bróðurdóttur minnar, sem fæddist fyrir rúmum mánuði.
Uppskriftin af peysu, buxum, húfu og vettlingum er úr Klompelompe bókinni, þeirri fyrri, hjálmhúfan er úr Babystrikk på pinde 3, og hosurnar eru að grunninum til frá Prjónajónu, með smá breytingum.

Svo lét ég lestarsokkana fylgja með, því þeir eru svo krúttaðir á litlum fótum.

Garnið er Drops baby merino frá Gallery Spuna.

laugardagur, 13. maí 2017

Norskir sokkar

Þessa sokka með norsku munstri prjónaði ég seint á síðasta ári handa ömmustelpunum tveimur, og hafði stærðina á eins árs, og þeir passa enn á þær, 21 mánaða gamlar.
Svo kom ný ömmustelpa í heiminn fyrir sex dögum, og ég mátti til með að prjóna eins á hana, hafði minnstu stærðina, á 6 mánaða.
Garnið átti ég allt í garnskúffunni minni.
Uppskriftin er HÉR

fimmtudagur, 20. apríl 2017

Refasokkar

Refasokkar á ömmustelpurnar (næstum) þrjár. 
Stærri sokkarnir eru á dömurnar mínar sem verða tveggja ára í sumar, og þeir litlu eru á þá þriðju sem fæðist eftir nokkra daga.
Þetta er það fyrsta sem ég prjóna í þríriti. Hingað til hef ég prjónað tvennt af öllu.
Uppskriftin er hér.

miðvikudagur, 12. apríl 2017

Lítið veggteppi

Ég saumaði þetta litla teppi fyrir nokkru síðan.

Hugmyndin er af síðu Kathleen Tracy. Hún gerir svo mikið af fallegum smáteppum. 

Að þessu sinni notaði ég ekki pappírssaum, heldur sneið allt fyrst.

laugardagur, 25. mars 2017

Innkaupapokar

Þegar við fluttum í húsið okkar fyrir rúmum fimm árum, héngu bláar, þykkar gardínur fyrir svefnherbergisglugganum. Ég setti þær upp á háaloft og geymdi, því mér fannst efnið tilvalið í tuðrur.
Nú lét ég loksins verða af því að sauma þær.
Ég hafði sniðið mjög einfalt, og renndi þeim gegnum overlockvélina.
Góðar til að grípa og setja í veskið þegar maður fer úr húsi.

fimmtudagur, 23. mars 2017

Dúkkubleyjur

Þessar bleyjur eru á Baby Born dúkkur ömmustelpnanna minna.
Sniðið er gefins á þessu flotta dúkkubloggi.
Bloggið er líka í tengli hér til hliðar á mínu bloggi: Min dukkeverden.
Ég notaði bútasaumsefni og venjulegt bómullarvatt á milli.


þriðjudagur, 14. mars 2017

Útprjónaðir vettlingar

Uppskriftina af þessum vettlingum fann ég í jólablaði Húsfreyjunnar 2016.
Það var alveg kominn tími til að rifja upp tvíbanda vettlingaprjón.
Uppskriftin moraði reyndar í villum, en þetta hafðist.
Ég notaði Fabel frá Drops.