Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 18. febrúar 2019

Bollamottur


 Af því ég á bara einn ramma í útsaumsvélina ennþá, þann stærsta, þá verður stundum afgangs pláss í rammanum til að bródera meira í.
Þegar ég var að applíkera í hörinn sem ég sýndi í síðustu færslu, setti ég líka þessi blóm neðst í rammann, til að nýta efnið.

Og blómin urðu að bollamottum.
Ég er nota  mikið svona mottur, þær eru út um allt hús hjá mér.

þriðjudagur, 12. febrúar 2019

Applíkeruð verkefnataska


Ég er smátt og smátt að kynnast útsaumsvélinni minni, Pfaff Creative 1,5, og prófa að sauma mynstrin sem fylgja henni.
Mig langaði að prófa þessa applíkeringu, mjög gaman að sauma hana.
 

Svo reyni ég að gera eitthvað úr prufunum.
 Hér varð það verkefnataska, sem ég er búin að fylla af garni og prjónum, sem úr eiga að verða vettlingar.
Alltaf þörf fyrir svona töskur.

laugardagur, 9. febrúar 2019

Peysan Frost


Bóndann vantaði lopapeysu, "svona bílskúrspeysu".  Hann vildi hafa hana heila, svo hann væri fljótur að skella sér í hana, en hann á nokkrar hnepptar peysur, sem ég hef prjónað.

Ég notaði tvöfaldan plötulopa og prjóna nr. 5.
Uppskriftin heitir Frost og úr Lopalist.  Stærðin er medíum.

þriðjudagur, 5. febrúar 2019

Dresden Plate


Dresden Plate blokkin er ein af mínum uppáhalds.


Stærðin er 106 x 106 sentimetrar.

Ég stakk í öll saumför, og notaði skrautspor í köflótta rammann, kappmellaði blokkina á grunninn, stakk munstur eftir stiku á ysta rammann, og stakk fríhendis allt þetta ljósa. 
Epic vélin mín er frábær í fríhendisstungu.

þriðjudagur, 29. janúar 2019

Sjaltrefill


Ég kalla þetta sjaltrefil vegna þess að formið minnir á sjal, en ég vef honum um hálsinn eins og trefli. Frábær í kuldanum því hann er ekki fyrirferðarmikill en hægt að vefja honum vandlega kringum háls og upp á andlit.
Garðaprjónið er líka svo skemmtilega teygjanlegt og fellur vel að manni.

Uppskriftin er svona:

Fitjið upp 4 lykkjur, prjónið eina umferð.
1. umferð: aukið út í byrjun umferðar með því að fara tvisvar í fyrstu lykkjuna, prjónið þar til tvær lykkjur eru eftir, prjónið þær saman.
2. umferð: prjónið út prjóninn og aukið út í síðustu lykkju með því að prjóna tvisvar í sömu lykkjuna.

Svona heldur maður áfram eins og maður vill, og lykkjurnar sem safnast á prjóninn mynda aðra langhliðina þegar fellt er af.

Ég notaði Drops baby merino, 160 grömm,  og prjóna 4, en vinkona mín, sem prjónaði sér svona og gaf mér uppskriftina var með grófara, litaskipt garn og grófari prjóna og fékk stórt og fallegt sjal.

föstudagur, 25. janúar 2019

10 ára bloggafmæli


Í dag eru tíu ár frá því ég stofnaði þetta blogg.
Þegar ég var að velta fyrir mér nafninu á því fannst sonum mínum, sem hjálpuðu mér með að setja það af stað, liggja beint við að kalla það Saumaherbergi Hellenar, þar sem ég hafði þá fyrir nokkrum árum fengið langþráðan draum uppfylltan, að fá eigið saumaherbergi.
Þá bjuggum við í öðru húsi, og það herbergi var byggt sérstaklega fyrir mig þegar við bættum nýrri hæð ofan á húsið okkar.
Nú eru liðin sjö ár síðan við fluttum þaðan og í litla húsið okkar annars staðar í Hafnarfirði.
Hingað fluttum við barnlaus, og því notum við hjónin hvort sitt barnaherbergið fyrir áhugamál okkar.

Í tilefni bloggafmælisins ætla ég því að sýna myndir úr saumaherberginu mínu eins og það lítur út núna.

Á myndinni fyrir ofan sést aðal saumaborðið mitt. Það er rafmagnsborð sem ég keypti í Hirzlunni síðastliðið vor, og er mjög gott að geta stillt hæðina eftir þörfum.  Ef ég er t.d. að stinga teppi, lækka ég það. Þá þarf ég ekki að að fella vélina niður í borð eins og ég hafði áður gert.

Þetta er sníðaborðið mitt, sem maðurinn minn smíðaði handa mér fyrir fjórtán árum, þegar ég fékk nýja herbergið.  Það er vel út hugsað og frábært að vinna á því.  Fyrst var ég með minni skurðarmottu, en fékk mér stóra í Hvítlist fyrir tveimur árum.  Straubrettið gerði ég sjálf.

Hér eru svo bútasaumsefnin, raðað eftir litum. Það er varla að þau komist fyrir lengur, enda nýbúin að fylla rækilega á eftir margar heimsóknir á útsöluna í Virku áður en hún hætti.

Hér gefur svo að líta saumavélakostinn. Þetta langa, hvíta borð setti maðurinn minn upp fyrir mig fyrir nokkrum árum, þegar þekjusaumsvélin bættist í hópinn, svo allar vélarnar væru aðgengilegar.  Reyndar hefur rauða vélin bæst við síðan þá, en þær eru aldrei allar í notkun í einu, svo ég færi þær bara til á borðinu eftir þörfum. 


Kommóðan og hillan ofan á geyma handavinnutengda hluti. Ég á alls konar útsaumsefni og garn, prjónagarn, fataefni, bækur og blöð, sem hafa safnast fyrir í áranna rás. Handavinna hefur verið áhugamál mitt frá því ég var lítil.

Eftir jólin sóttum við þennan gamla skjalaskáp, sem maðurinn minn átti úti í bílskúr, og settum hann í saumaherbergið.  Þvílíkur happafengur, ég þurfti viðbótarhirslur fyrir bútasaumsefni og ekki síst fataefnin mín, sem ég á eftir að sauma úr. Hann hefur fjórar stórar  skúffur sem ég á svo eftir að skipuleggja betur.


Þetta póstbox átti pabbi minn, og nú lét ég loksins verða af því að mála það hvítt, en það var áður viðarlitað og frekar illa farið. Það passar vel undir litlar stikur.

Svo er það nýjasti meðlimurinn í saumavélafjölskyldunni.
Þetta er Pfaff creative 1,5 útsaumsvél, keypt í desember.
Ég hef aldrei verið spennt fyrir útsaum í vél, þangað til núna.  Forsagan er sú að ein ömmustelpan, á fjórða ári, hefur sýnt saumavélum mikinn áhuga frá því hún var pínulítil.  Núna fær hún t.d. að velja munstur á Epic vélinni með því að fletta og velja, eins og á spjaldtölvu, amma saumar, og sú litla ýtir svo á klippitakkann.
En Epic vélin er ekki fyrir börn.  Hún er of aðgengileg, of kraftmikil og of sjálfvirk.  Ég var búin  að sjá fyrir mér að ég myndi kaupa ódýra vél til að hafa hérna þegar stelpurnar mínar þrjár færu að prófa að sauma sjálfar (ef það verður þannig).  Ég komst samt að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert spes að eyða tugum þúsunda í aukavél sem sæti svo bara á gólfinu þess á milli og væri til einskis gagns fyrir mig.
Þá mundi ég eftir þessari Pfaff vél, sem er ekki of aðgengileg, frekar einföld og það þarf að lyfta fætinum handvirkt o.s.frv.  En hún getur bróderað líka, og það væri þá nýtt fyrir mig og viðbót við það sem ég hafði.  Ég dreif mig því í  Pfaff til  að kaupa hana á meðan hún fengist, dyggilega studd af eiginmanninum, enda verðið alveg frábært. Og það er bara mjög skemmtilegt að bródera í vél!  
Þetta er líka fínasta saumavél og hefur fengið mjög góðar umsagnir.
Auk þess hefur hún fengið hönnunarverðlaun!

fimmtudagur, 24. janúar 2019

Saumavélarnar mínar, aftur.


Bloggfærslan um saumavélarnar mínar rataði í Fréttabréf íslenska bútasaumsfélagsins, sem kom út fyrir jól. 
Gaman að því. 


Reyndar hefur ein saumavél bæst í hópinn síðan ég gerði þessa færslu.
Meira um það síðar.

fimmtudagur, 17. janúar 2019

Gammósíur


Aðra tengdadótturina langaði að spara þær buxur og fá aðrar án útprjóns til að nota á leikskólanum til að hafa innan undir hlífðarfötum. 
Það eru sem sé þessar, prjónaðar úr Klompelompe ullargarni á fjögurra ára.

fimmtudagur, 10. janúar 2019

Poki


Milli jóla og nýárs var ég aðeins að æfa mig í útsaumi í vél.
 

Til að prufan yrði að einhverju hafði ég hana nógu stóra til að geta gert úr henni poka.
Ég hafði pokann tvöfaldan, þ.e. fóðraði hann að innan.
 
  
Fangamarkið er líka saumað í útsaumsforriti, en krosssaumsmunstrið er bara skrautsaumur í vélinni.


Eiginlega minnir þetta mig helst á handavinnupokann, sem ég saumaði í barnaskóla eins og allar stelpur þessa lands á þeim tíma.
Núna eru í honum hálfprjónaðir pottaleppar í bláu og hvítu.