Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 16. júlí 2018

Bionic Gear Bag

Þá er ég búin að sauma þriðju Bionic Gear Bag töskuna.
Þessa ætla ég að eiga því ég átti enga sjálf.
Litavalið er kannski full skrautlegt fyrir mig, en ég átti nokkra búta af efnum frá Kaffe Fassett og Amy Butler, og langaði að láta þau verða að einhverju.
Ytra byrðið er hins vegar úr Virku.

laugardagur, 14. júlí 2018

Húfur

 
Þetta er húfan Glóð, sem ég prjónaði á rúmlega eins árs sonardóttur mína. 
Garnið heitir Lark og er úr Litlu prjónabúðinni.
Ég gerði líka svona húfur á eldri stelpurnar tvær og hafa þær verið mikið notaðar.
 
Könglahúfuna prjónaði ég á litla frænku sem varð sex ára í vor. 
Ég prjónaði hana úr Drops Lima, frá Gallery Spuna.
Í uppskriftinni stendur að nota eigi Nepal, en það er alltof gróft, hef reynt það en það gekk ekki. Hins vegar verða þær æðislega fínar og passlegar úr Lima.

sunnudagur, 8. júlí 2018

Skírnargjöf

Lítill vinur, sem tengist mér fjölskylduböndum, var skírður um hvítasunnudag.

Af því tilefni prjónaði ég þessar flíkur á hann.

Allar uppskriftirnar eru úr Klompelompe bókunum.

Garnið er Drops baby merino, og í lambhúshettuna notaði ég með því Drops merino extra fine.

Peysan og vestið eru á eins árs, en lambhúshettan á 6 mánaða.

fimmtudagur, 21. júní 2018

Halla


Margar af peysunum mínum eru frekar síðar.
Núna vantaði mig styttri peysu undir hjólajakkann og útivistarjakkann. Það veitir ekki af að vera vel klæddur þó það sé sumar.

Uppskriftin af þessari peysu heitir Halla og er í Prjónafjöri 2.
Ég notaði Karisma frá Drops í staðinn fyrir léttlopa sem gefinn er upp.

mánudagur, 18. júní 2018

Stór prjónataska

Aftur er ég búin að sauma verkefnatösku fyrir prjónaskapinn.
Nú vantaði mig stóra tösku. 
Venjulega hef ég geymt svona stór verkefni í körfum, en svona töskur eru miklu þægilegri.


Hér rúmast allt sem þarf í fullorðinspeysu.
Efnin eru gömul frá IKEA og keypti ég þau nýlega á bílskúrssölu í Borgarnesi.

mánudagur, 4. júní 2018

Bútateppi úr restum


Stundum langar mig bara að sitja við saumavélina og sauma og sauma, án þess að þurfa að hugsa of mikið.
Þess vegna tók ég fram körfu með “ruslefnum” sem ég vissi í rauninni ekki hvað ég átti að gera við. 
Þau voru mörg eldgömul, mörg ekki falleg, jólaefni, litir sem ég nota ekki og svo framvegis. Hins vegar fæ ég mig ekki til að fleygja efnum. Þannig að ég tók gamla símaskrá og skar niður ferninga úr nokkrum síðum og notaði sem pappírsundirlag til að sauma á.  Flokkaði svo í ljóst og dökkt og saumaði út í eitt.

Þegar ég var svo búin að setja vatt og bak langaði mig að stinga það líka án þess að hugsa of mikið, þannig að ég stakk það með öllum sporunum sem eru í æðislegu Husqvarna Sapphire 965Q saumavélinni minni. Ég lét bara vaða.

Meira að segja bakið er úr sömu körfu, allt notað sem hægt var að nota. Líka kanturinn.
Ég gerði teppið í vetur og ætlaði ekki að sýna það hér á blogginu, en ákvað svo að gera það.
Ekkert augnayndi, en ég skemmti mér vel á meðan ég sat við vélina.

mánudagur, 7. maí 2018

Fleiri prjónaveski


Nú er ég búin að sauma fleiri prjónaveski.
Yfirleitt er ég með fleiri en eitt prjónaverkefni í gangi í einu, svo það er gott að hafa eitt veski í hverri verkefnatösku.
Það er fljótlegt og einfalt að sauma þau, og skemmtilegt að velja saman efnin.

miðvikudagur, 2. maí 2018

Prjónuð pils

Þessi pils prjónaði ég á stelpurnar mínar fyrir sumarið.
Eldri stelpurnar tvær eru tæplega þriggja ára, og pilsin eru á 4 ára, en passa alveg núna.
Sú yngsta er akkúrat ársgömul, pilsið hennar er í 2 ára stærð, pínu stórt ennþá en verður fínt þegar hún fer að ganga.
Ég notaði Drops merino extra fine frá Gallery Spuna, sem er alveg frábært að prjóna úr.
Uppskriftin birtist í Bændablaðinu fyrir einhverjum mánuðum síðan, en hún er líka hér á Garnstudio.com.