Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 18. maí 2023

Krosssaumur Karólínu


 Síðasta sumar heimsótti ég sýningu á Árbæjarsafni sem fjallar um Karólínu Guðmundsdóttur vefara og verk hennar. Alveg stórfóðleg sýning sem kemur á óvart. Mér skilst hún standi fram á næsta ár. 

Í tilefni sýningarinnar voru hannaðar og seldar útsaumspakkningar með munstrum frá Karólinu. Ég fékk tvær svona pakkningar í jólagjöf og lauk við að sauma báðar í febrúar. Svo hálfpartinn gleymdi ég þeim uppi í hillu en ætla að láta ramma þær inn. Það er líka hægt að nota þær í púða, en ég á svo marga útsaumaða púða að það er ekki á það bætandi. En það fer nú að verða lítið pláss á veggjunum líka….hlýt samt að koma þeim einhvers staðar fyrir.

sunnudagur, 14. maí 2023

Handklæði merkt


 Nokkur handklæði merkt fyrir bóndann. Allar leturgerðir fengnar úr MySewnet forritinu. Letrið lengst til vinstri er nokkurn veginn eins og hans eigin undirskrift á fangamarki sínu. Til viðbótar þeim fjölmörgu leturgerðum sem ég get valið um þar þá er í forritinu annað prógram, Quick Font, sem getur breytt öllum leturtegundum, sem eru í tölvunni sjálfri, í útsaumsletur. Hægt er að hafa stafina hallandi eða ekki, fyllta stafi, með eða án útlína og applíkeraða í öllum mögulegum stærðum. Og þá er ekki allt upp talið. Ég er búin að prófa ýmsa möguleika þar, en á bara prufur. 

sunnudagur, 7. maí 2023

Karin hverdagscardigan


 Ég saumaði nokkrar peysur á mig í fyrra eftir sniði frá Ida Victoria sem heitir Karin hverdagscardigan. Ég fór varla úr þeim í fyrrasumar. Sniðið gerir ráð fyrir þremur síddum, og hafði ég þær allar síðar. Reyndar er ég búin að stytta ermarnar á þremur þeirra í 3/4 sídd af því að ég ýti alltaf ermum upp og í staðinn fyrir að berjast við að halda þeim uppi á handleggnum klippti ég bara af þeim (og faldaði, að sjálfsögðu). 

Ég átti afgang af gráa efninu og þegar ég fór að mæla sá ég að hann myndi duga í miðsíddina af peysunni. Hún er bæði styttri, nær niður á mið læri, og með styttri ermar, mjög þægileg sídd. Efnið dugði nákvæmlega í hana.

mánudagur, 1. maí 2023

Maíálfur


 Þessi álfur heilsar maímánuði, með bleikan blómahatt, sem minnir á sumarblómin sem vonandi verður hægt að setja í mold áður en næsti mánuður tekur við. Ég valdi bleikt vegna þess að ein litla blómarósin mín er mjög bleik í fatavali og á einmitt afmæli í maí.