Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 31. október 2023

Hrekkjavaka 🎃👻🕸️

Ég geri mikið af því að skipta út bútasaum og fleiru eftir árstíðum. Ég er t.d. með vegg í þvottahúsinu sem breytir um ásýnd reglulega.

Nú bættist teppi í safnið til að minna á þennan skemmtilega tíma hrekkjavökunnar. Þótt ég taki ekki þátt í henni sem slíkri þá finnst mér gaman af handavinnunni sem hún býður upp á.

Ég tíndi til allt sem ég átti af efnum sem líktust appelsínugulu, en þann lit kaupi ég næstum aldrei, finnst hann almennt ekki fallegur og líður ekki vel með hann í kringum mig. En með því að hafa mikið svart með þá sleppur þetta í teppinu, er bara ánægð með það.

Svo átti ég meira að segja hárrétta tvinnann til að stinga með, hann hafði í sér alla réttu litina fyrir teppið.


 Blokkirnar í teppinu eru úr EQ8 bútasaumsforritinu, saumaðar með pappírssaum og eru 5,5 “ að stærð. Merkið gerði ég í útsaumsvélinni, og fylgdi munstrið gömlu Pfaff Creative 1.5 vélinni minni. Letrið er úr My Sewnet forritinu mínu.

laugardagur, 14. október 2023

Bangsaföt

Ein ömmustelpan bað mig um að prjóna peysu á hana Sissý, uppáhalds bangsann sinn. Hann fékk því að verða eftir hjá ömmu til að hún gæti bjargað málunum. Stelpan skaffaði garnið sjálf, eitthvað sem hún hafði gert í frístund í skólanum og vildi rekja upp til að nota. Það dugði ekki í peysu svo ég notaði það í húfu og fann annað garn í peysu.
Þá kom félagi þessa bangsa og vildi líka fá peysu og húfu, enda eigendurnir systur. Amma dreif það af líka.
Svo stigu fram fleiri bangsar frá öðru heimili og báru sig illa vegna fataleysis, enda vetur að ganga í garð, svo prjónarnir tifuðu áfram.
Ég var nú bara orðin ansi góð í þessu fyrir rest. Anatómía svona hundabangsa er engu öðru lík, mjög breitt bak og örmjó bringa, en svakalega eru þeir krúttlegir í svona peysum. Öll fjögur fengu föt á a.m.k. einn bangsa í þessari umferð og allir ánægðir.

 

þriðjudagur, 10. október 2023

Regnbogasokkar

Eitt af sumarverkunum var að prjóna sokka á barnabörnin fjögur fyrir veturinn. Ég féll alveg fyrir þessu garni þegar ég sá það í Garnbúð Eddu í vor. Einni ömmustelpunni fannst ég reyndar ekki geta kallað þetta regnbogagarn því það vantaði gula litinn. En það er glimmerþráður í því, það er nú eitthvað.

Uppskriftin sem ég fór eftir er frá garnstudio.com. Ég fór reyndar ekki eftir henni varðandi lykkjufjölda, sokkarnir verða of þröngir. Ég teiknaði eftir fótum barnanna til að hafa einhver stærðarviðmið og mátaði þegar þau náðust. Svo var allt merkt.


 Garnið heitir Signature Sparkel úr Garnbúð Eddu. Tvær 400 metra dokkur dugðu í alla sokkana. Prjónarnir voru nr. 2,5 og hér er tengill á uppskriftina.  Börnin eru 4, 6 og tvær 8 ára, en ég fór sem sagt ekki stíft eftir uppskriftinni með uppfitjun og stærðir.

sunnudagur, 1. október 2023

Októberálfur


 Október heilsar í dag og það gerir októberálfurinn líka. Nú er haustið komið fyrir alvöru. Ég ákvað að nota smá efnisbút, sem minnir á hrekkjavökuna, í hattinn hans.